Stundin birti langt og ítarlegt viðtal við mig í blaðinu núna 23. nóvember. Þar er farið yfir víðan völl á lífsferli mínum. Ég leitaðist við að svara öllum spurningum af einlægni og eftir minni bestu samvisku. Meðal annars var spurt um mál Róberts Downey, þar sem ég hafði tekið að mér að fara fyrir dóm með ósk hans um endurveitingu málflutningsréttinda, sem dómstólar féllust á, enda kváðu lög á um að svo skyldi það vera. Umfjöllunin um þetta er aðeins lítill hluti af viðtalinu.
Bergur Þór Ingólfsson er faðir einnar af þeim stúlkum sem Róbert Downey var dæmdur fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn. Hann skrifar grein sem birt er á netsíðu Stundarinnar í dag, 24. nóvember. Grein Bergs er uppfull af stóryrðum og illyrðum í minn garð. Virðist það einkum vera vegna ummæla minna í viðtalinu um þetta tiltekna mál, þó að hann sæki sér tilefni til árása á mig í fleiru.
„Sjálfur efast ég um að ég uppfylli skilyrði til að teljast vera það illmenni sem Bergur vill gera úr mér“
Viðtalið við mig var ekki birt á netsíðu Stundarinnar. Vegna árása Bergs óska ég eftir að á síðunni verði birtur sá hluti viðtalsins sem Bergur gerir aðallega að umtalsefni, svo lesendur geti sjálfir metið hvort tilefni hafi verið fyrir stóryrðum hans. Blaðamaðurinn var að spyrja mig um þátttöku mína í almennum umræðum um þjóðfélagsmál og hvort ég sé ekki þreyttur á átökum sem stundum fylgi henni.
Til svars við þessu er í viðtalinu meðal annars að finna svofelldan kafla:
„Til dæmis í fyrra, þá tók ég að mér mál fyrir Robert Downey sem snerist um að hann fengi aftur málflutningsréttindi. Hann hafði verið dæmdur fyrir brot gegn unglingsstúlkum, þar sem þær höfðu fengið peninga fyrir að gera eitthvað kynferðislegt með honum. Fyrir það fékk hann dóm og var búinn að afplána hann. Síðan leið sá tími sem lög gera ráð fyrir og hann hafði fengið, eftir laganna hljóðan, uppreisn æru og vildi þá fá þessi réttindi sín aftur og leitaði til mín. Ég fór með það fyrir dóm og Hæstiréttur dæmdi honum réttindin aftur.
Í tengslum við þetta reis upp mikil bylgja þar sem þessi maður í raun og veru var tekin af lífi opinberlega. Mín persónulega skoðun er sú að hafi menn tekið út sína refsingu sé það siðferðislega rétt að gefa þeim annað tækifæri. Ef menn brjóta svo af sér aftur tökum við fast á því. Ég var sem sagt í einhverju viðtali að tala um þetta, að fólk ætti að una honum þess að fá annað tækifæri, og ég sagði þá að það væri betra fyrir fólkið sjálft, sem varð fyrir brotum sem hann drýgði, að reyna að finna í hjarta sér fyrirgefninguna. Við vitum það jú að fyrirgefningin er besta leiðin til að ná sátt eða ró vegna óréttlætis sem maður hefur orðið fyrir. Þetta sagði ég af einlægum huga en þá flaut fram einhver straumur gegn mér, fyrir að hafa sagt þetta. Ég var sagður hafa skipað fólki að fyrirgefa, sem var auðvitað rangt. Ég gerði engar kröfur, þetta voru bara föðurlegar ráðleggingar. Hvílíkar árásir sem ég fékk á mig fyrir að segja þetta!“
Sjálfur efast ég um að ég uppfylli skilyrði til að teljast vera það illmenni sem Bergur vill gera úr mér. Aðrir en ég sjálfur verða samt að leggja dóm á það.
Ég held að Bergur Þór Ingólfsson sé ágætismaður, þó að hann missi sig vegna brota Róberts Downey gegn dóttur hans. Og svona til að halda línu tek ég fram að vegna þeirra fyrirgef ég honum ómálefnalegar árásir og illyrði um mig.
Athugasemdir