Mörgum er misboðið yfir þeirri hugmynd að feðraveldið eigi að gefast upp fyrir nýjum tímum og líða undir lok. Ýmsum finnst sér ógnað af hugmyndafræði femínismans. Ég er ekki einn af þeim. Samt er ég fjórfaldur faðir og karldýr. Það er nefnilega ekki fyrri hluti hins samsetta orðs, „feðra-veldi“, sem þarf að fella úr gildi, heldur hið síðara. Faðir er fallegt orð en veldi hans er eitthvað sem við eigum gjarnan að efast um.
Mannkynssagan hefur ekki einungis verið rituð af sigurvegurum, sama hversu rétt- eða rangsýnir þeir hafa verið, heldur hafa karlmenn að mestu haldið um pennann. Styrjaldir heimsins hafa hingað til verið háðar á forsendum patríarkanna. Þær fáu konur sem komist hafa til valda í heimssögunni hafa ekki haft þann slátt að geta snúið við hugsununarhættinum á hálfri starfsævi. Sumar hafa jafnvel verið meiri feðraveldissinnar en nokkur reglubróðir. Hægt er að þakka karlkyninu fyrir að skrifa söguna en hún er aðeins hálf. Hvar er kvennasagan? Hver ætlar að hlusta?
Patríarkarnir ákvarða hvenær stúlkur eru tækar til kosninga, hjónabands, kappleikja, áfengisdrykkju, atvinnu, þingstarfa, ásakana um kynferðisbrot og buxnaburðar - svo fátt eitt sé nefnt. Þeir hafa ráðið páfagarði frá upphafi. Hvítir karlar skiptu Afríku á milli sín með reglustiku. Veldi þeirra hefur varað óskorað svo lengi sem heimildir ná. Ömmur okkar þáðu ákvarðanir þeirra á síðustu öld. Agamemnon taldi rétt að fórna dóttur sinni til guðanna til að sigra Trójustríðið fyrir meira en 3000 árum. Núverandi forseta Bandaríkjanna þykir í lagi að grípa í píkurnar á kvenfólki þegar honum sýnist.
Fyrrverandi hæstaréttardómari á Íslandi sem aðstoðaði barnaníðing við að ná lögmannsréttindum á ný, eftir að hann hafði misst þau fyrir dómi, grípur í bækur feðraveldisins og lemur þeim í höfuð þolenda. Fyrst rifjaði hann upp reglur golfvalla og sagðist ekki getað svarað spurningum þeirra, hann væri í miðjum hring. Því næst hóf hann biblíuna á loft svo þær gætu séð synd sína í fyrirgefningarleysinu. Að endingu sló hann svo upp lagabókstafnum, rituðum af körlum, til að sýna fram á þá hræðilegu ringulreið ef þær héldu áfram að segja frá.
Fyrir þetta kallaði kona út í bæ fyrrverandi hæstaréttardómarann krípi og önnur kona sagði honum að fokka sér. Fimmtán mánuðum síðar sveið dómarann fyrrverandi enn undan þessum orðum og skrifaði grein í Morgunblaðið. Eðlilega. Enginn vill vera kallaður krípi sem á að fokka sér. En honum láðist að segja frá því í greininni að þessi orð hafi fallið eftir að hann lét hafa eftir sér að þolendum barnaníðings færi best að fyrirgefa og láta aumingjans manninn í friði því hann hefði þolað nóg - með öðrum orðum áttu þær að hætta að rifja upp sögu sína.
„Að sulla saman reglum úr skruddum feðraveldisins býr hvorki til réttlæti né betri heim“
Fyrirgefning er persónuleg athöfn. Fyrrverandi hæstaréttardómara kemur það ekkert við hver fyrirgefur hverjum. Ekki frekar en hver giftist hverjum eða hvaða trúarbrögð hún aðhyllist. Að sulla saman reglum úr skruddum feðraveldisins býr hvorki til réttlæti né betri heim. Auðvitað er það sorglegt að maðurinn skuli syrgja mannorð sitt og skjólstæðings síns. En þarf það að vera á kostnað kvenna sem brotið var á á barnsaldri?
Því hefur verið haldið fram að ef barn verður fyrir áfalli, þá sýni öll systkini merki áfallastreituröskunar, jafnvel þótt ekki hafi verið sagt frá. Áfallið smitast. Hvað gerist ef lögmaður í 330.000 íbúa landi er með 335 kvenmannsnöfn í minnisbók og er dæmdur fyrir að brjóta á 5 þeirra en nöfn 330 eru enn ekki fullrannsökuð? Hvað gerist ef rannsóknir sýna að fjórðungur kvenna á landinu hafa orðið fyrir nauðgunaratlögu og meirihluti þeirra er ýmist fyrndur eða þykir af einhverjum ástæðum ótrúverðugur?
„Enn er óvíst hvort einhver af þeim 330 nöfnum sem í bókinni voru hafi verið á barnsaldri“
Hvað gerist ef dómsmálaráðherra þessa lands telur að hvorki fjölmiðlum né hlutaðeigandi komi nauðganir við? Hvað gerist ef flokkur forsætisráðherra þessa sama lands neitar að kynna sér gögn um níðingsmál? Hvað gerist ef þessi sami forsætisráðherra hefur stýrt flokki sínum til þöggunar vegna þess að faðir hans ábyrgðist barnaníðing? Hvað gerist ef lögreglan segir að stúlka sé trúverðug í framburði sínum og þar með sé rannsókn málsins lokið? Ekkert gert. Enginn hefur gengist við brotum. Enginn hefur gengist opinberlega við þjónkun við gerandann og enn er óvíst hvort einhver af þeim 330 nöfnum sem í bókinni voru hafi verið á barnsaldri. Væri það ásættanleg niðurstaða í máli séra Georgs hjá kaþólsku kirkjunni eða í Breiðuvík? Á að sleppa því að rannsaka þessi mál ofan í kjölinn vegna þess að feður ráðherra og reglubræður eiga í hlut? Spurningin er ekki lögð fram til þess að hneppa menn í snörur, heldur af sanngirni fyrir þau börn sem hugsanlega var brotið á.
„Hann missti hinsvegar trúverðugleika sinn er rannsóknarblaðamenn Kveiks á RÚV fengu hann til að viðurkenna að hann hafi reynt að hafa áhrif bakdyramegin“
Téður fyrrum hæstaréttardómari hefur réttilega gagnrýnt hið íslenska dómskerfi. Hann ætti að þekkja það. Hann er hluti af því. Hann missti hinsvegar trúverðugleika sinn er rannsóknarblaðamenn Kveiks á RÚV fengu hann til að viðurkenna að hann hafi reynt að hafa áhrif bakdyramegin á fyrrrum samstarfsfélaga sína í Hæstarétti þegar einkavinur hans og bridgefélagi var fyrir dómi.
Geta þolendur skjólstæðings hans treyst því að sú hafi ekki verið raunin í hinum hlægilega einfalda og illa rökstudda dómi er barnaníðingurinn Robert Downey hlaut rétt á lögmannsstörfum á ný? Það er vitað að hæstaréttardómarinn fyrrverandi hafi þrýst á það við félaga sína að það væri þýðingarmikið að Robert Downey fengi lögmannsréttindi sín á ný vegna þeirra „...hrakninga sem hann lenti í á tímabili og leiddu til dóms Hæstaréttar.“
Í dag birtist svo viðtal í Stundinni við þennan fyrrverandi hæstaréttardómara þar sem hann hreykir sér af því að eiga jötu vísa í einum alræmdasta hrútakofa Íslandssögunnar, segist reyndar stoltur af því að tilheyra þeirri klíku en er um leið ósáttur við að standa utan við klíkuskap Hæstaréttar. Þar fer þó ekki versti tvískinnungurinn, heldur endurtekur hann þá smættun sem hann áður viðhafði vegna brota Roberts Downey og urðu til þess að hann var kallaður krípi. Þessi valdamikli vörður frelsisins úr innsta kjarna feðraveldisins sker upp herör gegn tjáningu kvenna sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi og segir eiginlega beint út í viðtalinu að þær standi utan hins siðaða samfélags.
Um brot skjólstæðings síns segir hann: ,,Hann hafði verið dæmdur fyrir brot gegn unglingsstúlkum, þar sem þær höfðu fengið peninga fyrir að gera eitthvað kynferðislegt með honum.“ Hið rétta er að Robert Downey var meðal annars dæmdur fyrir brot á barnaverndarlögum og misnotaði ítrekað yfirburðastöðu sína. „Voru brot hans ítrekuð og alvarleg og brotavilji hans einbeittur. Þá var litið til þess að ákærði var starfandi lögmaður á þeim tíma sem brotin voru framin og voru því einkar ljósir þeir mikilsverðu hagsmunir er brot hans beindust að. Þótti refsing R hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár. [...] R var jafnframt sviptur réttindum til að vera héraðsdómslögmaður.“ segir í dómnum.
„Lögmenn hrópuðu að Réttarríkið væri í hættu þegar í raun réttri var feðraveldinu ógnað“
Það var svo vegna þrýstings og klókinda hæstaréttardómarans fyrrverandi að undanþága fékkst fyrir brotamannin á forsendum hinna einkennilegu laga um uppreist æru að Robert Downey fékk rétt til lögmannsréttinda á ný. Lögum sem nú hafa verið aflögð vegna þess að þær konur sem hér eiga hlut að máli hófu upp raust sína og sýndu fram á fáránleika þeirra. Meðan á því stóð voru gerðar allmargar tilraunir til að þagga niður í þeim. Lögmenn hrópuðu að Réttarríkið væri í hættu þegar í raun réttri var feðraveldinu ógnað. Verja þurfti karllægar hefðir. Konurnar voru kallaðar nasistar, nornaveiðarar, heimskingjar og margt þaðan af verra. Hæstaréttardómaranum fyrrverandi datt aldrei í hug að bera hönd yfir höfuð þeim. Mörkin liggja nefnilega við að vera kallaður krípi. Þá skal skorin upp herör.
„Viljandi gerir hann lítið úr brotum starfsfélaga síns og engin leið er að átta sig á því hvers vegna hann ákveður yfirvegað að gera það“
Til að allrar sanngirni sé gætt þá var hinn fyrrverandi hæstaréttardómari reyndar líka kallaður „varðhundur kynferðisbrotamanna“ af mörgum. Slíkt hafði mér aldrei dottið í hug. Í mínum huga var hann aðeins að vinna sitt erfiða og óþakkláta starf og fékk vel greitt fyrir. Klókur og ýtinn. Líklega of kappsamur. Það var ekki fyrr en ég las setninguna í Stundinni í dag: „Hann hafði verið dæmdur fyrir brot gegn unglingsstúlkum, þar sem þær höfðu fengið peninga fyrir að gera eitthvað kynferðislegt með honum“ að ég er ekki lengur viss. Viljandi gerir hann lítið úr brotum starfsfélaga síns og engin leið er að átta sig á því hvers vegna hann ákveður yfirvegað að gera það. Eins rökfastur, skynsamur og sanngjarn sem hann segist vera. Hann hefur jú haft sautján mánuði til að hugleiða málið. Bókstafsumvöndun sína úr biblíunni kallar hann „föðurlegar ráðleggingar“.
Ég held að konur séu búnar að fá nóg af ráðleggingum patríarkanna, æjatollanna, stórvésíranna, barónanna, kaupfélagsstjóranna og Eimreiðarinnar. Þær koma til með að finna út úr þessu sjálfar og veldi feðranna mun víkja fyrir fjölskyldugildum femínismans.
Athugasemdir