„Það er svolítið áhugavert að hugsa til þess að þegar ég byrjaði að vinna að þessari mynd fyrir nokkrum árum þá virkaði sósíalisminn eins og stefna sem tilheyrði fortíðinni. Fólk hafði ekki lengur trú á verkalýðnum sem einhverju afli breytinga. Það var bara menntaða fólkið úr háskólanum sem var afl breytinga. En svo þegar myndin kemur út í dag þá er sósíalisminn orðinn miklu meira trend,“ segir Grímur Hákonarson, leikstjóri heimildamyndarinnar Litlu Moskvu, sem var frumsýnd í Bíó Paradís þann 16. nóvember.
Myndin fjallar um Neskaupstað sem hefur fengið viðurnefnið Litla Moskva í ljósi þess hve sterka stöðu róttækir vinstrimenn úr röðum sósíalista og síðar Alþýðubandalagsins, höfðu þar lengi vel. Þannig fór sá flokkur sem var lengst til vinstri á ás íslenskra stjórmála með hreinan meirihluta í bæjarfélaginu frá árinu 1946 til ársins 1998, þegar nokkur sveitarfélög á Austfjörðum runnu saman í sveitarfélagið Fjarðabyggð.
Athugasemdir