Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, spyr hvort dómsmálaráðherra telji að auka eigi hlut bálfara af öllum útförum. Þetta kemur fram í skriflegri fyrirspurn hans á Alþingi.
Andrés spyr hvert hlutfall bálfara sé nú af öllum útförum og hvernig dómsmálaráðherra telji að auka megi hlut þeirra, ef ástæða sé til. Þá spyr hann hversu margar umsóknir hafi borist undanfarin fimm ár um dreifingu ösku utan kirkjugarða og hversu mörgum þeirra hafi verið synjað.
Loks spyr Andrés hvort ráðuneytið hafi metið hversu mikið pláss muni þurfa undir kirkjugarða og löggilta grafreiti næstu áratugi miðað við mannfjöldaspár.
Fyrirspurnin í heild sinni
1. Hversu hátt hefur hlutfall bálfara verið árlega af öllum útförum undanfarin fimm ár?
2. Hversu margar umsóknir hafa borist árlega um dreifingu ösku utan kirkjugarða undanfarin fimm ár? Hversu mörgum þeirra hefur verið synjað?
3. Hvaða skilgreiningu á öræfum og óbyggðum er stuðst við þegar leyfi er veitt fyrir því að dreifa ösku, sbr. lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993, og reglugerð um dreifingu ösku utan kirkjugarðs, nr. 203/2003?
4. Hefur ráðuneytið metið hversu mikið landrými þarf undir kirkjugarða og löggilta grafreiti næstu áratugi miðað við mannfjöldaspá?
5. Telur ráðherra ástæðu til að auka hlut bálfara? Ef svo er, hvernig?
Athugasemdir