Er það mér að kenna að nauðgari minn svipti sig lífi?
Þangað til í gær var samfélagið ötullega að svara þeirri spurningu minni neitandi. Auðvitað bæri þolandi ekki ábyrgð á sektarkennd geranda og hvað þá þeirri ákvörðun hans um að svipta sig lífi. Að halda slíku fram væri firra, hvurslags manneskju dytti slíkt í hug. Sjálfsvíg fólks væri hræðileg afleiðing þunglyndis og geðsjúkdóma. Hamlað aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu væri um að kenna, ef einhverju þyrfti að kenna um.
Þegar mér barst sú fregn að ungur karlmaður, nauðgari minn, hefði fallið fyrir eigin hendi þá var það sár og bitur stund. Kannski þverrt á það sem ég hefði haldið. Hjartað í mér sökk og hugurinn leitaði strax á þann stað að ætandi samviskubit yfir því sem hann hafði gert mér, þeim sársauka og skaða sem hann olli mér, ætti þátt í þeirri ákvörðun hans um að enda sitt líf.
Að afleiðingar verknaðar hans hefðu verið honum jafn sárar og mér. Bar ég ábyrgð á þessari sektarkennd? Var hún mér að kenna af því brotið sem hann hafði á samviskunni var gagnvart mér? Ef ég væri ekki til hefði hann þá kannski ekki tekið sitt líf? Hugsanaskekkjur um eigin tilverurétt brjótast reglulega upp á yfirborðið þegar ég hugsa til hans. Og ég hugsa oft til hans. Húsið sem hann bjó í tilheyrir mínum daglegu ferlum. Húsið sem ég bjó í.
„Þegar mér barst sú fregn að ungur karlmaður, nauðgari minn, hefði fallið fyrir eigin hendi þá var það sár og bitur stund“
Ég syrgi nauðgara minn og ég hata nauðgara minn á sama tíma. Vináttan sem við áttum áður hefur ekki þurrkast út þó vináttan hafi tekið skjótan endi, líkt og á sem rennur í sand, kviksyndi. Það sem var til áður er ennþá þar, í fortíðinni. Það sem er til núna er hér, í nútíðinni.
Það var og er ekki til í mér nokkur þráður sem fagnar dauða hans og mun aldrei verða, en ógnar stór biti af sál minni er sífellt nagaður af efa. Hefði ég getað komið í veg fyrir sjálfsvíg hans ef ég hefði boðið honum fyrirgefningu, hefði hann þá ekki látið lífið? En það getur ekki hvílt á mínum herðum, ég get ekki fyrirgefið þetta brot gegn mér. En ég get reynt að fyrirgefa mér það að vera til.
Hvað gerðist í gær, hversvegna er ég allt í einu með líf hans á samviskunni? Hvernig komst allt þetta fólk á þann stað að það væri því um að kenna sjálfsvíg karla að konur hefðu rofið þögnina um það ofbeldi sem þær hafa verið beittar?
Athugasemdir