Það eru umtalsverðar líkur á því að í vetur fari fram uppgjör milli samtaka launamanna annars vegar og samtaka atvinnulífsins og stjórnmálastéttarinnar hins vegar, það er að segja ef ný forysta „stendur í fæturna“ svo vísað sé í þeirra eigin yfirlýsingar. Ný forysta verkalýðsfélaganna hefur að mati margra þótt yfirlýsingaglöð og hefur svarað með gífuryrðum á borð við að þarna sé á ferð einhver marxísk sturlun. Nýir formenn verkalýðsins hafi náð kjöri með popúlískum yfirboðum sem engar innistæður séu fyrir.
Staða þeirra sem liggja á lægstu töxtum er vonlaus og hefur framkallað mikla undirliggjandi reiði í samfélaginu. Þar er ekki síst um að kenna endurteknum inngripum stjórnmálastéttarinnar inn í nýgerða kjarasamninga og eyðileggja þannig helstu forsendur samninganna með því að breyta bóta- og skattkerfinu þannig að allur ætlaður ávinningur þeirra lægstlaunuðu rann milliliðalaust beint í ríkissjóð. Þannig myndaði stjórnmálastéttin svigrúm sem síðan var nýtt til þess að lækka skatta á þeim hæstlaunuðu!
„Félagslega íbúðakerfið var lagt niður, komugjöld aukin og félagslega heilbrigðiskerfið skert, vaxta- og barnabótakerfið skert“
Þessi vinnubrögð stjórnmálastéttarinnar hafa endurtekið verið viðhöfð allt frá síðustu aldamótum. Félagslega íbúðakerfið var lagt niður, komugjöld aukin og félagslega heilbrigðiskerfið skert, vaxta- og barnabótakerfið skert, vegakerfið svelt, sama á við um skólakerfið, leikskólana og hjúkrunarheimilin. Svo maður tali nú ekki um hið illræmda og ósanngjarna krónu á móti krónu kerfi þar sem stjórnmálastéttin hefur hrifsað til sín stóran hluta af skyldusparnaði launamanna. Þessi sparnaður ríkissjóðs hefur síðan verið nýttur til skattalækkana hjá hinum hæstlaunuðu. Á sama tíma hafa mál á húsnæðismarkaði þróast þannig að útilokað er að stór hluti launamanna geti byggt yfir sig. Auk þess er verðlag á leigumarkaði það hátt að sáralítið er eftir í launaumslaginu þegar leigan hefur verið greidd. Staða fjölskyldna hér á landi hefur dregist verulega aftur úr þeim stöðugleika sem ríkir í nágrannalöndum okkar. Steininn tók úr þegar Alþingi kom því þannig fyrir að laun stjórnmálastéttarinnar hækkuðu vel yfir 40%, í kjölfar þess hækkaði yfirstétt ríkiskerfisins laun sín um liðlega 60% og meðallaun forstjóra fyrirtækjanna náðu allt að 18-földum lágmarkslaunum á almennum vinnumarkaði. Sama fólk mætir síðan í fréttatímana ábúðarfullt og fullyrðir að allt umfram 2–3% launahækkun launamanna sé ógn við stöðugleikann.
„Stjórnmálastéttin boðar stöðugleika hjá þeim sem best hafa það“
Sé litið til þessa er kostulegt að hlusta á yfirlýsingar ráðherra og þingmanna um að það sé ekki hlutverk verkalýðsins að skipta sér af störfum og ákvörðunum Alþingis. Verkalýðurinn eigi að semja um kaup og kjör við samtök fyrirtækjanna og láta stjórnmálastéttina í friði. Hún sé sú eina sem sé réttkjörin til þess að stjórna landinu. Það er ömurlegt að vera boðið upp á fullyrðingar af þessu tagi í nánast hverjum fréttatíma og spjallþáttum. Stjórnmálastéttin boðar stöðugleika hjá þeim sem best hafa það og við blasir að kjarasamningar munu ekki nást fyrr en blásið hafi verið til mjög harkalegra átaka á vinnumarkaði. Forystumenn stærstu verkalýðsfélaga landsins hafa sagt í viðtölum að nú sé tekin við ný öflug forysta sem verði til þess að átökin verði stutt og sem ljúki með sigri launamanna fyrir næstu áramót. Við reynsluboltarnir erum kannski ekki eins bjartsýn og erum fullviss um að það verða átök og þau geta orðið langvinn og afdrifarík.
Það er engin launung á því að yfirlýsingar stjórnarþingmanna í garð verkalýðsforystunnar hafa og eiga eftir að hafa mikil og neikvæð áhrif á þróun mála. Þar talar nefnilega fólk sem hefur margt hvert mun minni reynslu en ný verkalýðsforysta. Sé litið í reynslubankann þá blasir nefnilega við að ef reiði launamanna er það mikil að þeir samþykki að fara í verkfall verður mjög erfitt að stöðva flóð reiðinnar. Jafnvel þótt náist einhver málamyndaniðurstaða í komandi viðræðum verður reiði þeirra sem minnst mega sín mun dýpri og erfiðara að takast á við hana. Þar má benda á reiðina vegna hrunsins, hún er enn til staðar hjá þeim 10 þúsund fjölskyldum sem misstu sitt allt og eru enn eignalaus.
„Verðlag á dagvöru í hinum Norðurlöndunum er nálægt því að vera helmingi lægra en það er hér á landi“
Talsmenn stöðugleika og óbreytts ástands vísa ávallt til hinna Norðurlandanna og benda á að þar séu verkalýðsfélögin að semja um 2–3% launahækkanir og þau styðji þannig stöðugleikann. Í þessu sambandi er full ástæða til að benda íslensku stjórnmálastéttinni á að stjórnvaldið í hinum Norðurlöndunum myndi aldrei leyfa sér að grípa inn í samninga um kaup og kjör með sama hætti og tíðkast hjá íslensku stjórnmálastéttinni. Það myndi einnig ríkja mikill ófriður meðal launamanna hinna Norðurlandanna ef gjaldmiðill þeirra tæki inn tugprósenta sveiflu niður á við og vextir færu úr 1,5–3% í 10–15%. Verðlag á dagvöru í hinum Norðurlöndunum er nálægt því að vera helmingi lægra en það er hér á landi. Öll Norðurlöndin utan Íslands eru með gjaldmiðla sem eru beintengdir evrunni og þar ríkir alvöru stöðugleiki.
Stjórnmálastéttin og talsmenn fyrirtækjanna kvarta undan pólitískum afskiptum samtaka launamanna. Á sama tíma eru samtök fyrirtækjanna með beinar línur inn í ráðuneytin, jafnvel sömu starfsmenn. „Við vorum á leyndó fundum hjá LÍÚ“ var viðkvæðið nýlega hjá ráðherrum og þingmönnum eins stjórnarflokkanna og þeim fannst ekkert athugavert við það. Hvaðan í veröldinni kemur sú fullyrðing að launamenn megi ekki skipta sér af stjórnmálastefnum og setja fram mótaðar hugmyndir um hvernig þeir vilji sjá íslenskt samfélag þróast? Hugmyndir um hvernig launamenn sjái stöðugleika þróast til hagsbóta fyrir heimilin í landinu. Afstaða íslensku stjórnmálastéttarinnar er afskaplega grunn og eitthvað svo óendanlega mótsagnakennd.
Ef reisa á sams konar vinnumarkaðsmódel hér og tíðkast á hinum Norðurlöndunum verður íslenska stjórnmálastéttin að átta sig á því um hvað hún er að tala. Það kallar til dæmis á algjöra endurreisn á bótakerfinu og miklar breytingar á þeirri skattastefnu sem fylgt hefur verið það sem af er þessari öld. Það er gríðarlegur munur á því umhverfi sem launamönnum er búið á hinum Norðurlöndunum og tíðkast hér á Íslandi. Eigi þessi markmið að nást verður að kollsteypa þeirri skattastefnu sem fylgt hefur verið hér á landi og færa byrði af lágtekjum yfir þá hæstlaunuðu og auka skatta á auðlindanotkun.
Við þurfum að losna við fílinn í stofunni með því að endurskoða ofurhækkanir stjórnmálastéttarinnar og forstjóra ríkisfyrirtækja. Þetta þarf til ef takast á að afstýra harkalegum átökum sem ekki verður séð fyrir endann á. Stjórnmálastéttin verður að stíga fram nú þegar og leggja á borðið fyrir jól tillögur um miklar kerfisbreytingar þar sem hluti þeirra taki gildi strax um næstu áramót.
Athugasemdir