„Það er mín afstaða að stjórnmálamenn eigi almennt ekki að vera umsvifamiklir í viðskiptum samhliða stjórnmálastarfi þar sem það skapar tortryggni og vantraust,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra, í svari sínu við spurningum Stundarinnar um afstöðu hennar til upplýsinga um viðskipti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, sem Stundin hefur greint frá í fréttum sem unnar eru upp úr skjölum innan úr Glitni banka.
„Að sama skapi liggur fyrir að núverandi fjármálaráðherra hefur ekki komið að neinum slíkum umsvifum í áratug“
Katrín segir að hins vegar breyti þessar upplýsingar engu um viðhorf hennar til núverandi ríkisstjórnar þar sem margháttaðar upplýsingar um viðskipti Bjarna hafi legið fyrir í aðdraganda kosninganna um haustið 2017. Hún segir að þær reglur um hagsmunaskráningu þingmanna sem nú eru í gildi hafi ekki gilt á árunum fyrir hrunið 2008 og einnig að Bjarni hafi ekki haft neina aðkomu að viðskiptalífinu í áratug: „Þá liggur einnig fyrir, líkt og fram kemur í frétt Stundarinnar um þessa fyrirspurn, að upplýsingar um margþætt umsvif núverandi fjármálaráðherra í viðskiptalífinu samhliða þingmennsku fyrir hrun höfðu komið fram áður en gengið var til síðustu kosninga. Að sama skapi liggur fyrir að núverandi fjármálaráðherra hefur ekki komið að neinum slíkum umsvifum í áratug,“ segir Katrín.
Miðað við svör Katrínar þá er hún á þeirri skoðun að þingmenn eigi ekki að vera stórir þátttakendur í viðskiptalífinu samhliða þingmennsku en að sama skapi þá telur hún að viðskiptaumsvif Bjarna hafi legið fyrir um hríð og að frekari upplýsingar um þau hafi ekki breytt viðhorfi hennar til samvinnu við Bjarna og flokk hans.
Fleiri stjórnmálamenn virkir í viðskiptum
Eitt af því sem Katrín bendir á í rökstuðningi sínum fyrir svari sínu er að aðkoma stjórnmálamanna að viðskiptalífinu á Íslandi hafi ekki verið bundin við Bjarna Benediktsson heldur hafi fleiri þingmenn tekið þátt í viðskiptalífinu. Þannig má segja að Katrín bendi á að slík aðkoma stjórnmálamanna að viðskiptalífinu hafi verið lenska á árunum fyrir hrunið 2008. „Sömuleiðis hefur á þeim tíu árum sem liðin eru frá hruni umhverfi þingmanna verið breytt mjög til hins betra. Þannig voru teknar upp reglur um hagsmunaskráningu og siðareglur fyrir þingmenn á árunum eftir hrun sem ekki voru á Íslandi fyrir hrun. Ástæða þess er meðal annars umfjöllun í Rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem fjallað er um viðskiptaumsvif þingmanna á þessum tíma, meðal annars núverandi fjármálaráðherra en einnig annarra þingmanna enda voru slík umsvif ekki óalgeng á þessum tíma,“ segir í svari Katrínar.
„... enda voru slík umsvif ekki óalgeng á þessum tíma“
Fram kemur í svari Katrínar að hún telji réttara að horfa á kerfið almennt, heldur en að líta til einstakra, siðferðislegra álitamála í þessum efnum. „Ég hef ekki verið og er ekki hlynnt þeirri afstöðu að smætta kerfislægan vanda í einstök siðferðileg álitamál sem eru afleiðing aukinnar einstaklingshyggju og einstaklingsvæðingar stjórnmálanna. Það eru mun langdrægari áhrif sem hljótast af því að breyta kerfinu sjálfu,“ segir hún.
Í umfjöllun Stundarinnar hefur meðal annars komið fram að Bjarni hafi stýrt viðskiptaveldi sem skilur eftir sig tæplega 130 milljarða króna ógreiddar skuldir í íslenska bankakerfinu.
„Það er og hefur verið mín skoðun að mikilvægt sé að íslensk og alþjóðleg löggjöf taki á skattaskjólum enda grafa þau undan velferðar- og lýðræðissamfélögum.“
Skattaskjól grafa undan lýðræðissamfélögum
Stundin spurði Katrínu einnig um viðhorf hennar til skattaskjóla en upplýsingar í Glitnisskjölunum gefa fyllri mynd en áður hefur komið fram um viðskipti Bjarna Benediktssonar í félaginu Falson í skattaskjólinu Seychelles fyrir hrunið 2008. Í svari sínu um skattaskjól segir forsætisráðherra: „Aflandsfélög á lágskattasvæðum er ein afurð frjálsra fjármagnsflutninga og nýfrjálshyggjuvæðingar alþjóðaviðskipta. Það er og hefur verið mín skoðun að mikilvægt sé að íslensk og alþjóðleg löggjöf taki á skattaskjólum enda grafa þau undan velferðar- og lýðræðissamfélögum.“
Frekari upplýsingar um viðskipti Bjarna í skattaskjólum hafa því, samkvæmt öðru svari Katrínar, ekki heldur haft áhrif á viðhorf hennar til samstarfs við hann og flokkinn.
Tekið skal fram að greint var frá þessum frekari upplýsingum um viðskipti Bjarna í skattaskjólum fyrir kosningarnar til Alþingis í fyrra.
Spurningar Stundarinnar og svör Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra fylgja hér á eftir.
Svar Katrínar við spurningum Stundarinnar um viðhorf hennar til viðskiptasögu Bjarna Benediktssonar:
„Það er mín afstaða að stjórnmálamenn eigi almennt ekki að vera umsvifamiklir í viðskiptum samhliða stjórnmálastarfi þar sem það skapar tortryggni og vantraust. Um það voru stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar engan veginn sammála fyrir hrun eins og kemur fram í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Vinstri-græn höfðu þó skýra sýn á þessi mál en við vorum t.d. fyrsti flokkurinn til að gera grein fyrir öllum styrkjum einkaaðila til hreyfingarinnar og gagnrýna óskýr mörk milli stjórnmála og viðskiptalífs. En sem betur fer skapaðist samstaða á sínum tíma um lög um fjármál stjórnmálaflokka þannig að þau mál hafa tekið stórfelldum breytingum til batnaðar.
Sömuleiðis hefur á þeim tíu árum sem liðin eru frá hruni umhverfi þingmanna verið breytt mjög til hins betra. Þannig voru teknar upp reglur um hagsmunaskráningu og siðareglur fyrir þingmenn á árunum eftir hrun sem ekki voru á Íslandi fyrir hrun. Ástæða þess er meðal annars umfjöllun í Rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem fjallað er um viðskiptaumsvif þingmanna á þessum tíma, meðal annars núverandi fjármálaráðherra en einnig annarra þingmanna enda voru slík umsvif ekki óalgeng á þessum tíma.
Vegna þessara nýju reglna liggja nú fyrir upplýsingar um möguleg fjárhagsleg tengsl þingmanna og ráðherra. Þá liggur einnig fyrir, líkt og fram kemur í frétt Stundarinnar um þessa fyrirspurn, að upplýsingar um margþætt umsvif núverandi fjármálaráðherra í viðskiptalífinu samhliða þingmennsku fyrir hrun höfðu komið fram áður en gengið var til síðustu kosninga. Að sama skapi liggur fyrir að núverandi fjármálaráðherra hefur ekki komið að neinum slíkum umsvifum í áratug. Þessar upplýsingar lágu því fyrir þegar Vinstri græn tóku ákvörðun um að mynda núverandi ríkisstjórn. Það sem mestu réð þó við þá ákvörðun var að með þeim sáttmála sem liggur til grundvallar ríkisstjórnarsamstarfinu verður ráðist í þau löngu tímabæru samfélagslega mikilvægu verkefni sem Vinstri-græn lögðu áherslu á fyrir kosningar.
Aflandsfélög á lágskattasvæðum er ein afurð frjálsra fjármagnsflutninga og nýfrjálshyggjuvæðingar alþjóðaviðskipta. Það er og hefur verið mín skoðun að mikilvægt sé að íslensk og alþjóðleg löggjöf taki á skattaskjólum enda grafa þau undan velferðar- og lýðræðissamfélögum. Á árunum eftir hrun voru innleiddar svokallaðar CFC-reglur sem ætlað var að tryggja upplýsingaskráningu um slík félög. Þá beitti ég mér sérstaklega fyrir því að reglur yrðu settar um svokallaða þunna eiginfjármögnun og lagði ítrekað fram frumvörp þess efnis. Slíkar reglur voru leiddar í lög á grundvelli frumvarps frá núverandi fjármálaráðherra þar sem ýmsar aðrar reglur til að sporna gegn skattsvikum voru innleiddar. Frekari lagabreytingar voru gerðar fyrr á þessu ári til að vinna gegn skattsvikum og á þingmálaskrá í nóvember er áætlað frumvarp með frekari breytingum í þessa átt. Þar má m.a. nefna ákvæði um svokölluð CFC-félög sem heimila stjórnvöldum að skattleggja tekjur erlendra félaga sem staðsett eru í skattaskjólum, en eru í íslenskri eigu hér á landi. Sömuleiðis verða reglur um milliverðlagningu og sömuleiðis reglur um frádrátt vaxta vegna lána milli tengdra aðila hertar og gerðar skýrari.
Í frumvarpinu verður einnig að finna hertar reglur um skattlagningu starfsmannaleiga. Þessar breytingar munu án efa gefa skattyfirvöldum frekari tækifæri til að herða róðurinn gegn skattundandrætti og skattsvikum til viðbótar við þau sem lögfest hafa verið á undanförnum árum í tengslum við aðild Íslands að BEPS-aðgerðaáætlun OECD og G20 ríkjanna gegn alþjóðlegri skattasniðgöngu og skattaskjólum. Aukinn fjöldi upplýsingaskiptasamninga milli Íslands og annarra ríkja, m.a. við þekkt skattaskjól, skipta hér einnig miklu máli.
„Í þessum málum eins og flestum öðrum er það mín afstaða að mestu skipti að breyta kerfinu“
Í þessum málum eins og flestum öðrum er það mín afstaða að mestu skipti að breyta kerfinu. Skattaskjól eru afleiðing þess kerfis sem byggt var upp á forsendum nýfrjálshyggju og frjálsra fjármagnsflutninga. Ég hef ekki verið og er ekki hlynnt þeirri afstöðu að smætta kerfislægan vanda í einstök siðferðileg álitamál sem eru afleiðing aukinnar einstaklingshyggju og einstaklingsvæðingar stjórnmálanna. Það eru mun langdrægari áhrif sem hljótast af því að breyta kerfinu sjálfu og það er t.d. fagnaðarefni að baráttan gegn skattaskjólum og vinna til að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu sé orðið eitt af forgangsmálum OECD. Þessi afstaða mín kom raunar fram í viðtali við The Guardian fyrr á þessu ári þar sem ég var spurð um þessi málefni.“
Athugasemdir