Ég hef verið femínískur aktívisti frá því ég man eftir mér. Óþol mitt fyrir mismunun og þörf fyrir að leiðrétta og laga það sem hægt er hefur komið mér í klandur við ótal tilefni. Þegar ég var 11 ára þótti kennurum mínum nóg um þegar ég neitaði að skrifa: „Konan vinnur úti. Konan vanrækir heimili sitt.“ Á háskólaárunum gerðu Röskvuliðar mér ljóst að ég hlyti varla áframhaldandi ráðningu sem lánasjóðsfulltrúi þegar ég hvatti fólk til að kjósa ekki Röskvu eftir að auglýsing frá Goldfinger birtist í kosningabæklingi þeirra. Fyrrum samflokksfólk mitt í Vinstri grænum var líka óspart á ráð um að tala minna um femínisma og meira um allt annað. Það átti að hjálpa mér í baráttunni um efstu sæti á lista og auka fylgi hreyfingarinnar.
Allt þetta fólk vildi mér vel. Kennararnir mínir höfðu áhyggjur af því að óhemjuskapurinn yrði mér til trafala, Röskvuliðar vildu ekki að mínar femínísku skoðanir kæmu í veg fyrir starfsframa og fyrrum félagar mínir í Vinstri grænum vildu að ég leiddi lista og næði góðri kosningu í borgarstjórn.
Í dag rek ég fyrirtæki sem ráðleggur fyrirtækjum og stofnunum um jafnréttismál. Síðastliðinn fimmtudag átti ég fund með tveimur fyrirtækjum sem voru áhugasöm um að kaupa af mér ráðgjöf. Þá um morguninn hófst enn einn fjölmiðlastormurinn, í þetta skiptið vegna Facebookhóps sem ég stýri og hefur gegnt mikilvægu hlutverki í femínískri baráttu undanfarinna ára. Um leið upphófst gamalkunnugt stef: Passaðu þig! Passaðu mannorð þitt, passaðu fyrirtækið og passaðu að eyðileggja ekki viðskiptatækifærin. Þú þarft ekkert endilega að stýra þessum hópi, fjarlægðu þig og láttu eins og þú sért komin á annan stað. Þessi ráð voru einnig veitt af góðum hug.
„Fólk sem vill mér vel hefur áhyggjur af mannorði mínu og geðheilsu“
Fólk sem vill mér vel hefur áhyggjur af mannorði mínu og geðheilsu. Eðlilega, enda hef ég varla opnað munninn öðruvísi en úr því hafi verið gerð æsifrétt, oft á kostnað raunverulegrar merkingar orða minna eða skoðana. Mér hefur því verið ráðlagt að velja mér slagi gaumgæfilega, það þurfi alls ekki að taka þá alla, og umfram allt þurfi ég að passa hvernig ég orða hlutina eða set þá fram. Ráðin eru til komin vegna þess að fólk veit og viðurkennir hversu óvægin umræðan hefur verið gagnvart mér, að nafn mitt sé smellubrella netmiðla og athugasemdakerfin viti fátt skemmtilegra en að níða mig (nema ef vera skyldi Hildi vinkonu mína Lilliendahl). Ég viðurkenni fúslega að umræðan hefur oft valdið mér mikilli vanlíðan, ég er með viðvarandi áfallastreituröskun vegna hennar og hef auðvitað haft talsverðar áhyggjur af nýja fyrirtækinu mínu og mögulegum viðskiptatækifærum í kjölfar umræðunnar um „Karlar gera merkilega hluti“ (KGMH).
Óvægna umræðan sem verndarenglar feðraveldisins, fjölmiðlar og sjálfskipaðir álitsgjafar, stunda og stuðla að um mig og aðrar hugrakkar konur hefur aðeins einn tilgang. Hann er sá að þagga niður í okkur og koma í veg fyrir að aðrar konur taki sér pláss. Hann er sá að styrkja stoðir feðraveldisins með því að hræða konur frá því að storka misréttinu sem þær upplifa á eigin skinni alla daga. Konur vilja (eðlilega) bara alls ekki að myndum af þeim sé dreift um internetið, vinnustaðir þeirra séu dregnir inn í umræðuna og þær kallaðar pilsvargar, brundfés og nasistar.
Þó mér þyki vænt um ráðin frá mínum nánustu get ég ómögulega þegið þau. Ég get ekki bakkað út eða mildað afstöðu mína til óréttlætis heimsins. Ég er sú sem ég er og sú þekking og reynsla sem ég sel er til komin vegna femínísks aktívisma gegnum árin. Slagirnir hafa skilað árangri. Slagir sem ég hef auðvitað ekki tekið ein, en oft í ansi fáliðuðum hópi kvenna. Sem miðaldra og reynslumikil kona lít ég á það sem skyldu mína að standa með og styðja við aðrar konur. Mér þykir vænt um allar þær þúsundir kvenna sem tilheyra KGMH og líta á það sem mikilvægan vettvang til að fá útrás fyrir misréttið sem þær upplifa alla daga. Mér þykir vænt um allar þær hugrökku konur sem standa í stafni kvennabaráttunnar og ég mun standa með þeim gegnum súrt og sætt.
„Nú, þegar konur hafa risið upp gegn þolenda- og drusluskömmun hef ég ákveðið að skammast mín ekki heldur fyrir skoðanir mínar eða femínískar aðgerðir“
Að þiggja ekki ráðin frá fólkinu sem vill mér vel er svo femínískur gjörningur í sjálfu sér enda er mantran um að passa sig kunnuglegt stef í lífi allra kvenna. Við eigum að passa okkur á að vera ekki of drukknar, of sætar, of lengi, of stutt, of langt í burtu, of þetta og of hitt. Við erum aldar upp við að vera á varðbergi og haga okkur í samræmi við mjög misvísandi reglur sem allar eiga það sameiginlegt að aðlaga okkur að ríkjandi venjum, hefðum og hentisemi karllægs samfélags. Rétt eins og það er á ábyrgð kvenna að verða ekki fyrir ofbeldi virðist ég eiga að bera ábyrgð á að verða ekki skotskífa í varnarleik feðraveldisins. En nú, þegar konur hafa risið upp gegn þolenda- og drusluskömmun hef ég ákveðið að skammast mín ekki heldur fyrir skoðanir mínar eða femínískar aðgerðir. Það er ekki hægt að ætlast til þess að konur hagi skoðunum sínum eða aðgerðum að þörfum, vilja og skilningi feðraveldisins. Við berum enga ábyrgð á skilningsleysi eða vandlætingu gamalla karla sem hafa haft það fyrir ævistarf að standa vörð um ofbeldismenn. Við berum ekki ábyrgð á ritstjórnarákvörðunum fjölmiðla, fyrirsögnum þeirra eða virkum í athugasemdum. Við berum ekki ábyrgð því þegar orð okkar eða aðgerðir eru blásin upp til þess eins að skapa hneykslan og miður málefnalega umræðu á samfélagsmiðlum.
Ég ber þó mikla ábyrgð. Ég ber ábyrgð á mörgum (!) lokuðum hópum á samfélagsmiðlum. Ég ber ábyrgð á því að miðla reynslu minni og þekkingu. Ég ber ábyrgð á því að láta ekki andfemínískar fréttir eða athugasemdir þagga niður í mér. Þannig ber ég ábyrgð á að skapa örlítið femínistavænni samfélagsumræðu og gera það auðveldara fyrir komandi kynslóðir að taka erfiða en mikilvæga slagi. Þá ábyrgð skal ég axla með mikilli gleði.
Mér verður ekki breytt en samfélagið má sannarlega breytast.
Ástar- og saknaðarkveðjur frá Hollandi,
Sóley Tómasdóttir
Athugasemdir