Verðmæti þeirra starfsleyfa sem tveimur laxeldisfyrirtækjum voru veitt á norðanverðum Vestfjörðum gætu numið á bilinu 31 til 56 milljörðum króna, ef miðað er við niðurstöður á uppboði á viðlíka heimildum í Noregi síðastliðið sumar. Það er um 100 til 150 sinnum hærra en greitt er fyrir leyfin hér á landi. Til samanburðar var rúmum 19 milljörðum veitt í stofnframkvæmdir í vegagerð á Vestfjörðum á árunum 2005 til 2016.
Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor vekur athygli á þessu í grein í Fréttablaðinu í dag. Þar bendir hann á að í uppboðinu á heimildum til sjókvíaeldis meðfram strandlengju Noregs hafi fjórtán fyrirtæki fengið leyfi og hafi þau greitt einskiptisgreiðslu frá 1,8 milljónum til 3,2 milljóna íslenskra króna til að setja upp kvíar sem afkasti sem svari til framleiðslu eins tonns af sláturlaxi á ári. Miðað við útreikninga Þórólfs má gera ráð fyrir að viðlíka einskiptisgreiðsla fyrirtækjanna sem starfa á Íslandi jafngildi 20 þúsund krónum.
Gæti greitt vegagerð á Vestfjörðum í 10 til 20 ár
Fjármunirnir sem norsku fyrirtækin greiða renna inn í sjóð, Havbruksfondet, sem ráðstafar um 80 prósentum af tekjum sínum til sveitarfélaganna þar sem laxeldi er stungað. „Til samanburðar ráðstafar Umhverfissjóður sjókvíaeldis á Íslandi drjúgum hluta fjármagns síns í styrki til fiskeldisfyrirtækjanna sjálfra eða samstarfsaðila þeirra.“
Þórólfur nefnir að laxeldi kalli á margháttaðar fjárfestingar af hálfu sveitarfélaganna þar sem það fer fram, meðal annars vöktunarferlum vegna starfseminnar, en ekki síður uppbyggingu á innviðum. Því séu sterk rök fyrir því að fara sambærilega leið og farin hefur verið í Noregi hér á landi. Þannig má ætla að verðmæti þeirra leyfa sem Arctic Sea Farm og Fjarðalax hafa fengið í Patreksfirði og Tálknafirði, starfsleyfi fyrir eldi upp á 17.500 tonn, nemi á bilinu 31 til 56 milljörðum króna. Það sé 100 til 150 sinnum hærri upphæð heldur en greidd er til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.
Til samanburðar má nefna að útgjöld vegna stofnframkvæmda í vegagerð á Vestfjörðum námu rúmum 19 milljörðum á árabilinu 2005 til 2016. Mögulegur umframarður af fiskeldinu gæti því greitt vegagerð á Vestfjörðum í 10 til 20 ár.
Athugasemdir