Vinnu lauk við gerð krabbameinsáætlunar fyrir heilbrigðisráðuneytið árið 2016, en áætlunin var aldrei sett í gang. Gildistími hennar var til 2020 en verkefnastjórn hefur aldrei komið saman. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Krabbameinsáætlanir eru algengar í Evrópu og hafa verið innleiddar á öllum Norðurlöndum nema Íslandi. Vinna við íslensku áætlunina hófst 2011 og tók hún fimm ár, með aðkomu helstu sérfræðinga í málaflokknum. Krabbameinsáætlanir miða að því að fækka nýgreiningum krabbameina, draga úr dánartíðni vegna þeirra og bæta lífsgæði einstaklinga með krabbamein með forvörnum og meðferð.
„Þetta er bara sorglegt að svona vinnu skuli daga uppi en því miður er þetta of algengt þegar lagt er af stað í svona mikla vinnu í litlu samfélagi sem er vanburða til að taka heildstæða áætlun og vinna úr,“ segir Ófeigur Tryggvi Þorgeirsson, læknir og formaður hópsins sem vann áætlunina, í viðtali við Fréttablaðið.
Ófeigur segir áætluninni hafa verið stungið í skúffu. „Við Íslendingar erum ekki góðir í að innleiða áætlanir. Ég held að það sé margbúið að sanna þá staðreynd að það er ekki okkar styrkleiki,“ segir Ófeigur.
Krabbamein er að verða algengasta dánarorsök Íslendinga með hækkandi aldri, en um 1.500 manns greinast árlega. Þriðja hver manneskja greinist með krabbamein á lífsleiðinni og hefur sjúkdómurinn mikil áhrif á fjölskyldur þeirra sem greinast.
Ástrós Rut Sigurðardóttir, formaður Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og fyrir aðstandendur, segir að erfitt sé að komast í gegnum frumskóg kerfisins eftir greiningu. Kallar hún eftir stofnun embættis umboðsmanns sjúklinga til að styðja við krabbameinsveika og aðstandendur.
Athugasemdir