Herferð UN Women á Íslandi um óhugnanlega nálægð kynbundins ofbeldis hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum. Myndbandið, þar sem sex karlmenn úr mismunandi mengjum samfélagsins lesa upp reynslusögur kvenna, er með 235 þúsund áhorf auk þess sem um það hefur verið fjallað í öllum helstu fjölmiðlum landsins. Ásamt myndbandinu fóru í dreifingu plaköt af hverjum karli þar sem sá hinn sami fordæmir kynbundið ofbeldi í nafni nástaddrar konu. Síðastgreind nálgun hefur skiljanlega vakið áleitnar spurningar um stöðu kvenna í hugarheimi karlmanna.
Í baráttunni fyrir réttindum kvenna er ekki nýtt að karlar séu minntir á hvernig þær geti hugsanlega tengst öðrum körlum. Hún gæti átt föður, eiginmann, son eða bróður og af virðingu við þá er bannað að beita hana ofbeldi. Í þessu felst að konur sleppa undan barsmíðum, áreiti eða lítillækkun af því að þær þekkja menn – ekki af því þær eru mennskar. Ekkert fær lýst hve niðurlægjandi það er að vera kona og vita að virði mitt sem manneskju er af mörgum ákvarðað út frá því hvernig ég tengist karlmanni.
„Niðurstöðurnar sýna, í stuttu máli, að körlum er alveg sama um konur“
Það kemur því ef til vill á óvart að sjá slíkar setningar í efni frá einum helsta málsvara kvenna um allan heim. En þessi herferð var ekki unnin úr auglýsingalegu tómarúmi. Að baki liggja viðamiklar rannsóknir um viðhorf karla á aldrinum 25–50 ára og niðurstöðurnar sýna, í stuttu máli, að körlum er alveg sama um konur. Í þeirra huga erum við ekkert nema verur sem tölum þá, vinnum með þeim og verðum til úr þeirra sæði. Við erum rifbein Adams. Og hvernig náum við til þannig manna öðruvísi en að minna þá á að allir karlar hafi rifbein?
Ég veit ekki svarið. Eitt augnablik vil ég skora á karla að líta á mig sem manneskju með sama rétt og þeir til að lifa án stöðugs ótta við ofbeldi, neita þeim um þann möguleika að fara aðra leið í átt að afnámi þess. En augnabliki síðar skil ég hvað vandinn er rótgróinn og velti fyrir mér hvort kannski helgi tilgangurinn meðalið. Í því sambandi er mikilvægt að muna að ekki allar konur búa við þau mannréttindi að geta valið hvers vegna þær eru ekki beittar ofbeldi.
En kannski erum við að leita svars við rangri spurningu. Kannski ættum við að vera að spyrja okkur af hverju í ósköpunum, árið 2018 og á Íslandi, karlar geta ekki áttað sig á þessu og breytt því. Hvernig getur samfélagið búið þannig um hnútana að litlir drengir sjái konur sem annað og meira en bekkjarsystur, nágrannakonu eða ömmu?
Athugasemdir