G
eir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi sendiherra Íslands í Washington, hélt því fram í Kastljóssþætti um hrunið að hann hafi verið „sýknaður af öllum efnislegu ákæruatriðum, eins og þú sagðir, öllum alvarlegustu atriðunum“. Þetta kemur illa heim og saman við dóm Landsdóms þar sem Geir var sakfelldur fyrir stjórnarskrárbrot og stórfellt gáleysi í aðdraganda hrunsins.
Þegar vikið var að Landsdómsmálinu í Kastljósi fullyrti spyrill ranglega að Geir hefði verið sakfelldur fyrir það eitt „að halda ekki fundargerðir“. Hið rétta er að Geir var sakfelldur fyrir brot gegn 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skylduna til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.
Geir hefur áður sett fram staðhæfingar sem eru á skjön við dóminn. „Það er sakfellt fyrir eitt smáatriði í þessu og það meira að segja svo smávægilega að það er ekki refsað fyrir það. Og þetta smáatriði er formsatriði. Það er svokallað formbrot.“ Hins vegar kom skýrt fram í niðurstöðu meirihluta Landsdóms að sú háttsemi Geirs að láta farast fyrir að hlíta fyrirmælum 17. greinar stjórnarskrárinnar varð ekki eingöngu til þess að brotin væri formregla, heldur stuðlaði hún að því að ekki var á vettvangi ríkisstjórnarinnar mörkuð pólitísk stefna til að takast á við þann mikla vanda sem Geir hlaut að vera ljós í febrúar 2008.
Í viðtalinu við Geir sagði hann að ákvörðun Alþingis um að ákæra hann hefði ekki verið „góð leið til að gera upp hrunið“. Rætur dómsmálsins hefðu verið pólítísks eðlis. „Menn voru að reyna að hefna sín á gömlum pólítískum andstæðingi og hans flokki,“ sagði Geir í viðtalinu. Þá hélt því fram að með sýknuninni hefði Landsdómur hreinsað hann af áfellisdómum yfir honum sem fram komu í rannsóknarskýrslu Alþingis.
Þetta er athyglisverð túlkun í ljósi þess að í skýrslu rannsóknarnefndar er sérstaklega fjallað um að það hljóti að „veikja starf stjórnvalda verulega“ ef jafn mikilvæg málefni og yfirvofandi efnahagshrun eru ekki rædd á vettvangi ríkisstjórnar. „Rétt er að benda á ákvæði 17. gr. stjórnarskrárinnar í þessu sambandi. Samkvæmt þeim er skylt að ræða nýmæli í lögum og „mikilvæg stjórnarmálefni“ á ráðherrafundum, eða ríkisstjórnarfundum eins og þeir kallast að jafnaði,“ segir í kafla skýrslunnar um ábyrgð, mistök og vanrækslu. Var svo Geir dæmdur fyrir einmitt þetta í Landsdómi, en ekki taldist sannað með óyggjandi hætti að hann hefði brotið lög að öðru leyti.
Athugasemdir