Heiðveig María Einarsdóttir, sjómaður og viðskiptalögfræðingur, tilkynnti í dag framboð sitt til formanns Sjómannafélags Íslands. Framboðið tilkynnti hún á Facebook síðu sinni í dag.
Baráttumál hennar eru að bæta úr því sem hún kallar skort á samstöðu sjómanna og aðgerðarleysi forystunnar.
„Ég vil í framhaldi af þessari ákvörðun örva umræðu meðal sjómanna og kalla á sama tíma eftir áhugasömu fólki til að vinna að og móta stefnu framboðsins.“ segir meðal annars í tilkynningunni.
Heiðveig er á meðal fárra kvenna í félaginu og fyrsta konan til að bjóða sig fram í stjórn félagsins. Hún lýsti yfir framboði sínu í tölvupósti til stjórnar félagsins í maí þar sem hún meðal annars óskaði eftir upplýsingum um hvernig mótframboðum gegn sitjandi stjórn væri háttað og einnig um upplýsingar ársreikninga síðustu þriggja ára. Þrátt fyrir ítrekun fékk hún ekkert svar frá forystunni.
„Ég skal leyfa mér að fullyrða það að það er engin önnur stétt á Íslandi, aðrir en opinberir starfsmenn, sem eru með kjör sín jafn bundin í lög og sjómenn,“ segir Heiðveig í samtali við Stundina. „Það er mikið af lagagreinum sem snerta kjör okkar.“
Stundin fjallaði um umsögn Heiðveigar við veiðigjaldafrumvarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í gær, en þar minnist Heiðveig meðal annars á að lögin snerti kjör sjómanna enn frekar.
Athugasemdir