Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Ráðuneytið mátti ekki leyna upplýsingum um mál Braga

Úr­skurð­ar­nefnd um upp­lýs­inga­mál hef­ur kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu að vel­ferð­ar­ráðu­neyt­ið hafi brot­ið gegn lög­bund­inni upp­lýs­inga­skyldu sinni þeg­ar það synj­aði Stund­inni um að­gang að minn­is­blaði um kvart­an­ir barna­vernd­ar­nefnda. Al­menn­ing­ur hafi átt „ríka hags­muni“ af að kynna sér efni þess.

Velferðarráðuneytið fór á svig við upplýsingalög þegar það hélt upplýsingum frá almenningi um kvörtunarmál barnaverndarnefnda vegna vinnubragða Braga Guðbrandssonar, fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu.

Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem hefur skikkað ráðuneytið til að veita blaðamanni Stundarinnar aðgang að minnisblaði skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu til Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra frá 18. janúar 2018. 

Stundin óskaði eftir skjalinu í febrúar, en þá hafði Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra lýst því yfir að forstjóri Barnaverndarstofu hefði „ekki brotið af sér með neinum hætti“ og ríkisstjórnin hafði jafnframt ákveðið að bjóða Braga fram sem fulltrúa Íslands til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. 

Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál átti almenningur ríka hagsmuni af því að geta kynnt sér upplýsingarnar sem fram komu í minnisblaði ráðuneytisins. Þar er meðal annars fjallað um efnisatriðin í kvörtunum barnaverndarnefndanna, viðbrögð Barnaverndarstofu og hlutverk og ábyrgð ráðuneytisins í málinu. 

„Enda þó minnisblaðið uppfylli öll formleg skilyrði þess að teljast til vinnugagns er um svo umfangsmiklar upplýsingar um atvik málsins að ræða, sem ekki koma fram í þeim bréfum er ráðuneytið kveður fela í sér endanlega niðurstöðu málsins, að ekki þykir rétt að takmarka aðgang almennings að því,“ segir í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. 

„Í ljósi allra atvika málsins að öðru leyti þykir almenningur eiga af því ríka hagsmuni að kynna sér þær upplýsingar sem þar koma fram. Bar því velferðarráðuneytinu að veita kæranda aðgang að því á grundvelli meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.“ 

Ráðherra endurskoðaði eigin niðurstöðu 

Nýlega endurskoðaði velferðarráðuneytið fyrri niðurstöðu sína um að Bragi Guðbrandsson hefði farið út fyrir verksvið sitt í Hafnarfjarðarmálinu svokallaða. Samkvæmt nýrri niðurstöðu Ásmundar Einars Daðasonar, félags og jafnréttismálaráðherra, sem ráðuneytisstjóri og skrifstofustjóri undirrita fyrir hans hönd, voru starfshættir Braga í samræmi við stjórnsýslulög. 

Ráðherra hefur sætt gagnrýni fyrir að hafa ekki sagt sig frá málinu þegar kvörtun barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar undan vinnubrögðum Braga Guðbrandssonar var tekin til meðferðar að nýju, enda kunni fyrri aðkoma hans og undirmanna hans að vekja efasemdir um hvort endurskoðunin hafi farið fram á hlutlægum forsendum og að rýra tiltrú málsaðila, sem og almennings, á því að sú hafi verið raunin. 

Í þessu samhengi hefur meðal annars verið bent á að í apríl síðastliðnum var Ásmundur Einar staðinn að því að hafa haldið því leyndu fyrir velferðarnefnd Alþingis að Bragi hefði verið snupraður af ráðuneytinu fyrir að hafa farið út fyrir verksvið sitt í Hafnarfjarðarmálinu. Þá kom í ljós að Ásmundur hafði ekki upplýst ríkisstjórnina um málið þegar Bragi Guðbrandsson var boðinn fram til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna þann 23. febrúar. 

Skömmu áður, þann 16. febrúar, hafði Ásmundur Einar samið við Braga um að hann yrði áfram á fullum forstjóralaunum, fyrst hjá Barnaverndarstofu og svo hjá velferðarráðuneytinu, meðan hann sinnti störfunum fyrir barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna og yrði jafnframt sérstakur ráðgjafi og tæki að sér einstök verkefni í velferðarráðuneytinu. Ásmundur studdi framboðið eindregið, fór lofsamlegum orðum um Braga og lagði áherslu á það í umræðu um Hafnarfjarðarmálið að öll mál ættu sér fleiri en eina hlið. Loks vakti athygli í sumar þegar Ásmundur Einar lækaði færslu á Facebook um öfundsjúka og eigingjarna barnaverndarstarfsmenn þar sem ýjað var að því að annarlegar hvatir lægju að baki kvörtunum undan störfum Braga. 

Ofan á þetta bætist það sem nú liggur fyrir, að ráðuneyti Ásmundar Einars Daðasonar braut gegn lögbundinni upplýsingaskyldu sinni þegar tekin var ákvörðun um að synja Stundinni um aðgang að minnisblaði um kvartanir barnaverndarnefndanna undan vinnubrögðum Braga. Rökstuddi ráðuneytið synjunina meðal annars með því að vísa til réttinda og verndar Braga sem opinbers starfsmanns. Þær röksemdir standast ekki skoðun að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál. 

„Umfangsmiklar upplýsingar um atvik máls“

Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð sinn þann 28. september síðastliðinn en velferðarráðuneytið hefur ekki afhent Stundinni skjalið þegar þetta er ritað. 

Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni vísaði velferðarráðuneytið annars vegar til þess að umbeðið skjal væri vinnugagn, sbr. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, og því undanþegið upplýsingarétti almennings, og hins vegar til 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga um að upplýsingaréttur um málefni opinberra starfsmanna tæki ekki til „gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti“. Úrskurðarnefndin taldi ljóst að umbeðin gögn lytu ekki að starfssambandi forstjóra Barnaverndarstofu við stofnunina í skilningi 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, enda væri þar ekki að finna upplýsingar um stjórnvaldsákvörðun í máli sem varðar Braga í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. 

Stundin byggði meðal annars á því í kærunni til úrskurðarnefndarinnar að samkvæmt 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga ber stjórnvöldum að afhenda umbeðin vinnugögn ef þar kemur fram endanleg ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar um atvik máls sem ekki komi annars staðar fram. Féllst úrskurðarnefndin á að í minnisblaðinu kæmu fram grundvallarupplýsingar um málsatvik sem ekki hefðu komið fram í bréfum sem birt voru opinberlega og sögð hin formlega niðurstaða kvörtunarmálanna. Fyrir vikið hefði ráðuneytinu borið að afhenda blaðamanni skjalið. 

„Eins og hér háttar til er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að minnisblaðið hafi því að geyma umfangsmiklar upplýsingar um atvik máls sem ekki koma annars staðar fram, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga,“ segir í úrskurðinum. 

„Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga segir að með þessu orðalagi sé einkum vísað til upplýsinga um mikilvægar staðreyndir máls sem af einhverjum ástæðum sé ekki að finna annars staðar, en kunni að hafa haft áhrif á ákvörðunartöku. Rökin að baki þessari reglu séu einkum þau að slíkar upplýsingar geti verið ómissandi til skýringar á ákvörðun og af þeim orsökum sé ekki rétt að undanþiggja þær aðgangi almennings enda þótt þær sé aðeins að finna í vinnuskjölum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að þessi lýsing á að öllu leyti við um efni minnisblaðs skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu til ráðherra, dags. 18. janúar 2018.“ 

Úrskurðarnefndin telur því ljóst að velferðarráðuneytið hefði átt að veita Stundinni aðgang að minnisblaðinu á grundvelli meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga að frátölum þeim hluta minnisblaðsins sem ber yfirskriftina „Tillögur að úrbótum til lengri og skemmri tíma“, enda væri þar að finna umfjöllun sem féll að öllu leyti undir vinnugagnahugtakið. 

Beint til ráðuneytisins að endurskoða vinnubrögð sín

Fram kemur að sömu sjónarmið gildi þó ekki að öllu leyti um annað minnisblað ráðuneytisins til ráðherra sem er dagsett 6. febrúar 2018 og varðar einvörðungu Hafnarfjarðarmálið svokallaða. Þetta minnisblað hafi ekki haft að geyma umfangsmiklar upplýsingar um málsatvik sem ekki komu fram í endanlegri niðurstöðu málsins. Fyrir vikið hafi ráðuneytinu verið heimiltað synja um aðgang að því. 

Úrskurðarnefndin bendir þó á að velferðarráðuneytið tók ekki afstöðu til þess hvort Stundinni yrði veittur aukinn aðgangur að umbeðnum gögnum, sbr. ákvæði 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga, eins og skylt er að gera samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins. „Enda þótt fallist sé á það með ráðuneytinu að heimilt hafi verið að synja beiðni kæranda um aðgang að minnisblaðinu, dags. 6. febrúar 2018, kann því jafnframt að hafa verið heimilt að veita honum aðgang að því á grundvelli sjónarmiða um aukinn aðgang og markmiða upplýsingaréttar almennings, sbr. 1. gr. upplýsingalaga. Því er beint til ráðuneytisins að taka afstöðu til þessa atriðis við meðferð beiðna um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögunum í framtíðinni.“ 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Barnaverndarmál

Barnaníðskæru dagaði uppi fyrir „mjög bagaleg mistök“
FréttirBarnaverndarmál

Barn­aníðs­kæru dag­aði uppi fyr­ir „mjög baga­leg mis­tök“

Al­var­leg mis­tök lög­regl­unn­ar á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og óvenju­leg af­skipti þá­ver­andi for­stjóra Barna­vernd­ar­stofu af Hafn­ar­fjarð­ar­mál­inu urðu til þess að kæra barna­vernd­ar­nefnd­ar vegna meintra kyn­ferð­is­brota fékk ekki lög­mæta með­ferð og lá óhreyfð í meira en tvö ár. „Lög­regla beið eft­ir gögn­um frá barna­vernd sem aldrei komu,“ seg­ir í bréfi sem lög­regla sendi rík­is­sak­sókn­ara vegna máls­ins.
Barn talið óhult hjá föður þrátt fyrir sögu um barnaníð
FréttirBarnaverndarmál

Barn tal­ið óhult hjá föð­ur þrátt fyr­ir sögu um barn­aníð

Rann­sókn á meint­um kyn­ferð­is­brot­um föð­ur gegn barni var felld nið­ur án lækn­is­skoð­un­ar og Barna­hússvið­tals, en í kjöl­far­ið komu fram yf­ir­lýs­ing­ar frá kon­um sem segja mann­inn hafa mis­not­að þær í æsku. Dóm­stól­ar telja að „það þjóni hags­mun­um barns­ins að það njóti meiri og sam­felld­ari um­gengni við föð­ur“ og hafa úr­skurð­að um um­gengni án eft­ir­lits.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár