Brynjar Níelsson og sex aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa aftur lagt fram frumvarp um refsingar fyrir tálmun á umgengni, en slíkt þingmál vakti mikla athygli í fyrra. Vilja flutningsmenn að tálmun varði „sektum eða fangelsi allt að fimm árum“ en að slík brot sæti aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru barnaverndar til lögreglu.
Frumvarpið hefur tekið nokkrum breytingum frá því að það var lagt fram á 146. löggjafarþingi en þar var ekki kveðið á um sektir heldur aðeins fangelsisrefsingu. Nú er gildissvið frumvarpsins jafnframt víðara og einskorðast ákvæðið ekki lengur við þær aðstæður að lögheimilisforeldri tálmi eða takmarki umgengni heldur nær einnig yfir tálmun eða takmörkun á umgengni af hálfu umgengnisforeldris.
Eins og Stundin hefur fjallað um hafa sýslumannsembætti ítrekað kveðið upp umgengnisúrskurði þar sem áhyggjur fagfólks og vísbendingar um kynferðisbrot, jafnvel gögn um framburð barna hjá meðferðaraðilum, eru slegnar út af borðinu sem „tilhæfulausar ásakanir móður“.
Allt fram til ársins 2013 var ofbeldi föður gegn móður almennt ekki talið hafa þýðingu við ákvörðun sýslumanns um umgengni föður við börnin sín. Þá þarf ekki að leita nema örfá ár aftur í tímann til að finna dæmi um að barn sé skikkað til að umgangast foreldri sem hafði verið dæmt fyrir kynferðisbrot gegn því.
Í umgengnisúrskurði sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu kvað upp í fyrra er sú staðreynd að móðir sakaði barnsföður sinn um heimilisofbeldi án þess að það leiddi til ákæru notuð gegn henni til að réttlæta aukna umgengni föðurins við barnið. Í öðrum úrskurði voru vottorð fagfólks og frásagnir barna af meintum kynferðisbrotum föður taldar hafa takmarkað vægi og kveðinn upp úrskurður um aukna umgengni þeirra við föðurinn undir þeim formerkjum að bæta þyrfti upp „tengslarof“ sem hefði orðið milli feðgina.
Við aðstæður sem þessar er algengt að forsjárforeldri virði umgengnisúrskurði sýslumanns að vettugi og neiti að senda barnið sitt til umgengnisforeldris. Yrði tálmunarfrumvarpið samþykkt myndi opnast fyrir þann möguleika að forsjárforeldri yrði dæmt í fangelsi fyrir slíka háttsemi. Það sama myndi gilda í hina áttina, ef umgengnisforeldri skilar ekki barni til forsjárforeldris. Er þetta á meðal ástæðna þess að hugmyndir um refsingar við tálmun eru umdeildar og hafa sætt harðri gagnrýni.
Tálmunarfrumvarpið sem lagt var fram í fyrra átti sér flutningsmenn úr Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum og Bjartri framtíð. Nú eru það hins vegar aðeins þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem standa að frumvarpinu, þau Brynjar Níelsson, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Jón Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason og Páll Magnússon.
Í frumvarpinu er vitnað í barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna og bent á að börn eiga rétt á að þekkja og umgangast báða foreldra sína. Þetta sé mikilvægt fyrir velferð barnsins. Telja flutningsmenn mikilvægt að tálmun fái sömu meðhöndlun barnaverndaryfirvalda og „annars konar vanræksla og/eða ofbeldi gegn barni“.
Athugasemdir