Suður-afríski bankinn Standard tapaði 12,8 milljörðum vegna gjaldþrots Samson eignarhaldsfélags ehf. og þýski bankinn Commerzbank tapaði 23,8 milljörðum.
Skiptum á búi Samson, fjárfestingarfélagi Björgólfsfeðga sem keypti hlut ríkisins í Landsbankanum árið 2002, lauk með úthlutunargerð þann 5. september síðastliðinn.
Um tíu ár eru liðin síðan félagið var lýst gjaldþrota í kjölfar bankahrunsins og yfirtöku ríkisins á Landsbankanum. Hlutaféð í Landsbankanum var helsta eign Samsons sem hafði veðsett hlutinn fyrir tugmilljarða lánum frá Commerzbank og Standard.
Lýstar kröfur í þrotabú Samson námu 77,4 milljörðum króna og fengust 6,5 milljarðar upp í kröfurnar eða 8,6 prósent að því er fram kom í Lögbirtingarblaðinu á miðvikudag.
Að sögn Helga Birgissonar, skiptastjóra þrotabúsins, lýsti Commerzbank 26 milljarða kröfu í búið en Standard lýsti kröfu upp á 14 milljarða. Kröfur Glitnis voru 9 milljarðar og kröfur gamla Landsbankans 5 milljarðar.
„Greiddust að fullu búskröfur að fjárhæð 1.625.223 kr. og forgagnskröfur að fjárhæð kr. 1.703.915. Upp í almennar kröfur sem voru samtals kr. 77.443.122.895 greiddust kr. 6.465.281.540 eða 8,593%. Ekkert fékkst greitt upp í eftirstæðar kröfur,“ segir í tilkynningu um skiptalokin.
Athugasemdir