Einar Þór Sverrisson, stjórnarformaður 365 miðla, segir í yfirlýsingu að Guðmundur Kristjánsson, útgerðarmaður og aðaleigandi Brims, fari fram með dylgjum, vegi að starfsheiðri blaðamanna Fréttablaðsins og að hann umgangist ekki sannleikann eða lög og reglur samfélagsins með réttum hætti.
Þetta harkalega orðalag er tilkomið vegna yfirlýsingar Guðmundar frá því fyrr í dag, í tilefni fréttar Fréttablaðsins um rannsókn Samkeppniseftirlitsins á meintum samkeppnislagabrotum Guðmundar. Í yfirlýsingu Guðmundar kom fram að rétt sé að Samkeppniseftirlitið hafi til skoðunar tvö atriði en ekki fjögur líkt og kom fram í frétt Fréttablaðsins. Þá klikkir Guðmundur út með eftirfarandi setningu: „En vegna forsíðufréttar Fréttablaðsins má geta þessa að stjórnarformaður Fréttablaðsins er einnig lögmaður meirihlutaeigenda Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum hf. og varaformaður stjórnar VSV.“
Einar Þór er afar ósáttur við þetta niðurlag í yfirlýsingu Guðmundar og segir hann Guðmund með þessum orðum gera lítið úr öllum blaðamönnum og ritstjórum Fréttablaðsins, vega að starfsheiðri þeirra og dylgja um að þeir lúti boðvaldi stjórnar varðandi fréttaflutning. Þá segir Einar í sinni yfirlýsingu: „Ég hef oft séð til þess að það fer ekki Guðmundi Kristjánssyni vel að umgangast sannleikann og lög og reglur samfélagsins með réttum hætti. Þann veikleika sinn getur hann ekki yfirfært yfir á aðra.
Um yfirlýsingu Guðmundar verður það eitt sagt að margur heldur mig sig.“
Athugasemdir