Rkstur Heilsumiðstöðvarinnar ehf., fyrirtækis Ásdísar Höllu Bragadóttur, Ástu Þórarinsdóttur og Einars Sigurðssonar sem rekur sjúkrahótel í Ármúla, gæti orðið réttu megin við núllið á yfirstandandi rekstrarári. Fyrirtækið tapaði 128,2 milljónum árið 2017 og 111,5 milljónum árið 2016 en stefnir að því að koma út á sléttu í ár. Þetta kemur fram í ársreikningi sem Heilsumiðstöðin skilaði á dögunum.
Fyrirtækið er aðili að rammasamningi Sjukratrygginga Íslands um hótel- og gistiþjónustu og er allt hlutaféð í eigu einkarekna velferðarþjónustufyrirtækisins Eva Consortium hf. Miðstöðin sameinaðist systurfélagi sínu Heilsu og spa ehf. í fyrra sem einnig er með starfsemi í Ármúla 9. Ásdís Halla er fyrrverandi bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ og stjórnarformaður Klíníkurinnar og Ásta Þórarinsdóttir er stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins.
Árið 2017 var fyrsta heila rekstrarár Heilsumiðstöðvarinnar eftir að umfangsmiklum endurbótum á Ármúla 9 lauk. „Starfsemin einkenndist af því að verulegur árangur náðist í rekstri hótelsins sem skilaði jákvæðri afkomu á árinu en reksturinn af heilsumeðferðum og leiga vegna Klíníkurinnar hefur þau áhrif að rekstrarniðurstaðan er verulega lakari en til stóð,“ segir í skýrslu stjórnar vegna síðasta árs. „Gert er ráð fyrir að árangur af rekstri hótelsins verði áfram góður á árinu 2018 og að tap vegna heilsumeðferðar og leigu Klíníkurinnar verði umtalsvert minna en áður þannig að árið 2018 verði í heildina rekið án taps.“
Samkvæmt rekstrarreikningi námu rekstrartekjur Heilsumiðstöðvarinnar 779,6 milljónum árið 2017. Eignir félagsins voru 312 milljónir og eigið fé neikvætt um 43 milljónir í lok ársins. Alls eru skammtímaskuldir 184,7 milljónir. Laun til stjórnar og framkvæmdastjóra hækkuðu lítillega í fyrra, úr 14,8 milljónum í 15,7 milljónir.
Athugasemdir