Áform um niðurfellingu virðisaukaskatts af bókum hafa verið lögð á hilluna. Þetta kemur fram í greinargerð fjárlagafrumvarps ársins 2019 sem kynnt hefur verið á vef fjármálaráðuneytisins. „Í staðinn er lagt til að tekinn verði upp beinn stuðningur við bókaútgefendur til að mæta því meginmarkmiði að efla íslenska tungu,“ segir í greinargerðinni.
Fram kemur að helsta ástæðan sé sú að nauðsynlegt sé að „viðhalda skilvirkni gildandi VSK-kerfis“. Áformum um afnám virðisaukaskattsins var fagnað með lófaklappi á flokksráðsfundi Vinstri grænna þann 29. nóvember þegar flokksmenn samþykktu stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Kynning á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar stendur nú yfir og hefur frumvarpið verið birt á vef fjármálaráðuneytisins.
Í skattamálum ber hæst að persónuafsláttur mun hækka um 1 prósentustig árið 2019 umfram lögbundna 12 mánaða hækkun vísitölu neysluverðs, semsagt um 540 krónum meira á mánuði en ella hefði verið.
Þá verður hækkun þrepamarka efra skattþreps miðuð við vísitölu neysluverðs í staðinn fyrir vísitölu launa til að auka jafnræði milli tekjuhópa gagnvart skattkerfinu. Þetta kemur fram í kynningarefni fyrir fjárlagafrumvarp ársins 2019 sem birt hefur verið á vef fjármálaráðuneytisins.
Samhliða hækkun persónuafsláttar og tengingu þrepmarka efra skattþreps við vísitölu neysluverðs verða barnabætur hækkaðar um 1,6 milljarð. Það felur í sér 16% hækkun milli áranna 2018 og 2019. Auk hækkunar fjárhæða og viðmiðunarmarka skerðingar barnabóta er í fjárlögum gert ráð fyrir nýju þrepi skerðingar á barnabótum sem er ætlað að tryggja að hækkunin skili sér fyrst og fremst til lágtekju- og lægri millitekjuhópa. Er þetta í anda tillagna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að barnabótum sé beint í auknum mæli að lægri tekjuhópum.
Vaxtabætur hækka einnig, um sem nemur 13% frá áætlaðri útkomu 2018. Lagt er til að tryggingagjald lækki í ársbyrjun 2019 um 0,25 prósentustig og aftur um 0,25 prósentustig í ársbyrjun 2020.
Um þá ákvörðun að afnema ekki bókaskattinn segir meðal annars í greinargerð fjárlagafrumvarpsins: „Í stjórnarsáttmálanum og í fjármálaáætlun 2019–2023 var lýst yfir þeim áformum að afnema VSK af bókum. Við undirbúning lagabreytingarinnar voru markmið hennar nánar greind og meðal annars leitað annarra leiða en þeirrar að taka upp núllþrep í VSK fyrir bókaútgáfu sem dregið hefði úr skilvirkni VSK-kerfisins, auk þess að flækja það. Niðurstaðan er sú að í stað þess að afnema VSK verði tekinn upp sérstakur stuðningur við útgefendur bóka á íslensku. Frumvarp þess efnis er lagt fram samhliða fjárlagafrumvarpinu.“
Athugasemdir