Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Félag Engeyinga rifti samningi við sveitarfélög og var úrskurðað gjaldþrota rétt fyrir þingfestingu skaðabótamáls

Elsta rútu­fyr­ir­tæki lands­ins, sem Kynn­is­ferð­ir keyptu ár­ið 2010, var tek­ið til gjald­þrota­skipta skömmu áð­ur en þing­fest­ing fór fram í skaða­bóta­máli sveit­ar­fé­laga gegn því. „Það eru mjög tak­mark­að­ar eign­ir í fé­lag­inu,“ seg­ir fram­kvæmda­stjóri Kynn­is­ferða.

Félag Engeyinga rifti samningi við sveitarfélög og var úrskurðað gjaldþrota rétt fyrir þingfestingu skaðabótamáls
Frændurnir Jón Benediktsson og Einar Sveinsson eru í hópi stærstu hluthafa Alfa hf sem eiga Kynnisferðir. Jón er stjórnarformaður Kynnisferða og í stjórn ABK, dótturfélags sem nýlega fór í þrot. Mynd: Ómar Óskarsson

Elsta hópferðafyrirtæki landsins, sem keypt var af fjárfestahópi sem samanstendur af nánum ættingjum Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og viðskiptafélögum þeirra, var úrskurðað gjaldþrota á dögunum, rétt fyrir þingfestingu skaðabótamáls sem sveitarfélög höfðuðu gegn félaginu vegna riftunar þess á samningi um akstur milli höfuðborgarinnar og Suðurnesja.

ABK ehf., sem áður hét SBK ehf. en skipti um nafn í fyrra, er í eigu Hópbifreiða Kynnisferða. SBK var stofnað árið 1930 en Kynnisferðir eignuðust allt hlutafé þess árið 2010. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 29. ágúst síðastliðinn og lýkur þar með 88 ára sögu félagsins.

Fyrirtækið var talsvert í fréttum á haustmánuðum 2017 þegar það rifti einhliða þjónustusamningi við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) um akstur milli höfuðborgarinnar og Suðurnesja. 

Stjórn SSS ákvað að höfða mál gegn SBK og átti þingfesting að fara fram í síðustu viku. Skömmu áður bárust sambandinu fregnir af breyttum aðstæðum. 

„Við fengum símtal frá skiptastjóra á mánudegi sem sagði okkur að félagið hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta og það lýst yfir eignaleysi,“ segir Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri SSS, í samtali við Stundina. 

„Við fengum símtal frá skiptastjóra á mánudegi sem sagði okkur að félagið hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta og það lýst yfir eignaleysi“

„Nú munum við bara lýsa kröfu í búið og í framhaldinu treystum við því að farið verði vel þessi mál. Þegar við fórum af stað voru skráðar eignir á fyrirtækið.“ 

SBK skuldar móðurfélaginu

Rekstur strætóleiðar 55 var boðinn út haustið 2014. SBK, nú ABK, átti lægsta tilboðið og undirritaði samning við SSS, en í lok september í fyrra tilkynnti fyrirtækið að það hyggðist rifta samningnum frá og með áramótum.

Haft var eftir Birni Ragnarssyni, framkvæmdastjóra Kynnisferða, í fyrra að ef fyrirtækið hefði ekki gengið út úr samningnum við SSS hefði reksturinn stefnt í þrot.

Nú, um ári síðar, hefur félagið verið úrskurðað gjaldþrota. Í Lögbirtingarblaðinu er skorað á kröfuhafa að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra. Skiptafundur fer fram 28. nóvember næstkomandi.

„Félagið var búið að vera rekið með tapi í þó nokkurn tíma og meðal annars vegna mikils taps á samningi SBK við SSS,“ segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, í svari við fyrirspurn Stundarinnar um málið. „Hvort sem að krafan frá SSS hefði komið eða ekki lá fyrir að félagið þyrfti að fara í þrot.“ 

„Það eru mjög takmarkaðar eignir í
félaginu og eiga Kynnisferðir töluverðar
kröfur á félagið ásamt öðrum“

Hann segir að í raun hafi SSS „hagnast töluvert á því að hafa þennan hagstæða samning við SBK í 2 ár“ og bætir við: „Það eru mjög takmarkaðar eignir í félaginu og eiga Kynnisferðir töluverðar kröfur á félagið ásamt öðrum.  Það verður í höndum skiptastjóra að taka til meðferðar kröfu SSS um bætur vegna riftunar á samningi en við höfum ekki samþykkt þá kröfu.“

Félagið með neikvæða eiginfjárstöðu

ABK ehf., áður SBK ehf., er alfarið í eigu Hópbifreiða Kynnisferða ehf., dótturfélags Kynnisferða ehf. sem er að stærstum hluta í eigu Alfa hf. 

Jón Benediktsson, stjórnarformaður Kynnisferða, er eini skráði stjórnarmaðurinn í ABK ehf. samkvæmt ársreikningi 2017. Tap ABK ehf. nam rúmum 19 milljónum í fyrra.

Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir félagsins 99 milljónum en bókfært eigið fé í árslok 2017 var neikvætt um 24,4 milljónir.

Fram kemur í ársreikningnum að félagið hafi veðsett bifreiðar til tryggingar á skuldum við lánastofnanir. Bókfært verð veðsettra eigna nemi 83,7 milljónum króna og eftirstöðvar áhvílandi lána nemi 90,6 milljónum.

„Sem betur fer sjaldgæft“

Berglind Kristinsdóttirframkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum

„Það er auðvitað óeðlilegt þegar fyrirtæki lýsir því yfir að það ætli ekki að standa við samning sem það hefur gert að undangengnu útboði. Ég held að það sé sem betur fer sjaldgæft að slíkt gerist á Íslandi,“ segir Berglind Kristinsdóttir í samtali við Stundina. 

Hún bendir á að SBK sé gamalgróið fyrirtæki sem eigi sér margra áratuga sögu að baki.

„Það breytir því ekki að niðurstaðan er þessi.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Júlía Margrét Alexandersdóttir
2
Það sem ég hef lært

Júlía Margrét Alexandersdóttir

Ekki hlusta á allt sem heil­inn seg­ir þér

Júlía Mar­grét Al­ex­and­ers­dótt­ir hef­ur lif­að með geð­hvörf­um í 15 ár. Hún hef­ur kljáðst við dekksta lit þung­lynd­is og fund­ið fyr­ir und­ur­vellíð­an í man­íu. Í ferl­inu hef­ur Júlía lært að stund­um á hvorki hjart­að né heil­inn at­kvæð­is­rétt. „Stund­um eru það annarra manna heil­ar og annarra manna hjörtu sem vita best.“

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Sælukot hagnast um tugi milljóna en starfsfólk og foreldrar lýsa skorti
4
Rannsókn

Sælu­kot hagn­ast um tugi millj­óna en starfs­fólk og for­eldr­ar lýsa skorti

Einka­rekni leik­skól­inn Sælu­kot, sem hef­ur feng­ið millj­arð króna í op­in­ber fram­lög síð­asta ára­tug, hef­ur hagn­ast vel og nýtt pen­ing­ana til að kaupa fast­eign­ir fyr­ir stjórn­ar­for­mann­inn. Stjórn­end­ur leik­skól­ans segja mark­mið­ið vera að ávaxta rekstr­araf­gang, en fyrr­ver­andi starfs­menn og for­eldr­ar nem­enda kvarta und­an langvar­andi skorti. Skól­an­um var ný­lega lok­að tíma­bund­ið vegna óþrifn­að­ar og mein­dýra.
Hollt mataræði lykilatriði að góðri heilsu
6
Fréttir

Hollt mataræði lyk­il­at­riði að góðri heilsu

Ax­el F. Sig­urðs­son, sér­fræð­ing­ur í hjarta­lækn­ing­um, hef­ur skoð­að tengsl fæðu og lífs­stíls við sjúk­dóma, einkum hjarta- og æða­sjúk­dóma. Tal­að hef­ur ver­ið um að lífs­stíls­sjúk­dóm­ar séu stærsta ógn­in við heilsu fólks og heil­brigðis­kerfi til næstu ára­tuga. Ax­el seg­ir að fólk geti breytt miklu með hollu mataræði og hreyf­ingu. Fé­lags­leg tengsl séu líka mik­il­væg. Hann ráð­legg­ur hreina fæðu til að sporna við kvill­um.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár