Maður á sextugsaldri, Kjartan Adolfsson, hefur nú í annað sinn verið dæmdur fyrir að brjóta kynferðislega gegn börnum sínum.
Kjartan var dæmdur fyrir Héraðsdómi Austurlands í byrjun mánaðarins í fjögurra ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn dætrum sínum og brot á nálgunarbanni. Sakarefnið var ítrekuð brot gegn dætrum hans þegar þær voru barnungar auk þess að virða ekki nálgunarbann gagnvart annarri þeirra.
Kjartan var ákærður í sjö liðum og var hann sýknaður af þremur þeirra. Kjartan var í dómnum sagður hafa sýnt af sér einbeittan brotavilja og var gert að greiða dætrum sínum miskabætur vegna verulegrar tilfinningaröskunar og andlegra þjáninga, þar með talið áfallastreituröskun. Þeirri eldri greiðir hann 1,5 milljónir króna, en þeirri yngri greiðir hann 3 milljónir króna.
Hlaut áður dóm fyrir brot gegn elstu dótturinni
Áður var Kjartan dæmdur í tíu mánaða fangelsi árið 1991 fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn elstu dóttur sinni, Guðrúnu Kjartansdóttur, sem árangurslaust reyndi að vernda yngri systur sínar fyrir föður sínum. Dætur hans voru allar á aldrinum fimm til sjö ára þegar þær segja föður sinn hafa byrjað að brjóta gegn sér.
Guðrún sagði sögu sína í viðtali við Stundina þann 25. nóvember 2017, en jafnframt var greint frá því að systir Kjartans hefði tilkynnt hann til barnaverndaryfirvalda án árangurs. „Ég hef alltaf haft áhyggjur af systrum mínum og reynt að gera það sem í mínu valdi stendur til að vernda þær,“ sagði Guðrún. „Svo ég varð ekki hissa þegar systir mín kærði pabba, en missti allan þrótt. Þú ert svo vanmáttug. Eftir allt sem ég hef gert til þess að reyna að stöðva hann, kemur þetta samt upp. Ég vil ekki kalla mig fórnarlamb, en ég var fórnarlamb hans í æsku, og það er engu að síður ég sem sit uppi með ábyrgðina gagnvart yngri systkinum mínum. Af því að enginn annar axlar þá ábyrgð. Af hverju sáu stjórnvöld ekki til þess að hann gæti ekki gert þetta aftur?“
„Af hverju sáu stjórnvöld ekki til þess að hann gæti ekki gert þetta aftur?“
Þá sagði systir Kjartans, Kolbrún Jónsdóttir, frá því í samtali við Stundina að hún hefði greint barnavernd frá því að ástæða væri til að ætla að hann bryti gegn börnum sínum að nýju. „Við hringdum í barnavernd vegna þess að við vorum hræddar um að bróðir okkar myndi endurtaka fyrri hegðun,“ sagði Kolbrún, sem fékk þau viðbrögð að ekkert væri hægt að gera. „Hins vegar væru lögin þannig að það væri ekkert hægt að gera fyrr en eftir að hann hefði gert það. Engar forvarnir væru til og engar eftirlitsheimildir í lögunum. Eftir það hefur þetta verið eins og að bíða eftir stórslysi. Þú vonar að ekkert gerist, en ert alltaf viðbúin því. Þú ert svo ofboðslega hjálparvana, alltaf að bíða og lesa á milli línanna, leita að einhverjum merkjum. En það leit alltaf út fyrir að það væri bara hamingja á heimilinu og ég vonaði innilega að það væri raunverulega þannig. Þetta er mjög skrítin staða að vera í.“
27. janúar 2018 birtist svo viðtal við Önnu Kjartansdóttur þar sem hún sagði frá misþyrmingunum sem hún mátti þola í æsku, bæði af hendi föður síns og ofbeldisfullrar stjúpu. Loks staðfestir dómurinn brot gegn þriðju dótturinni, Lindu Bíu Kjartansdóttur.
„Ég vil líka að barnavernd geri meira til þess að hjálpa börnum. Barnavernd á að hjálpa börnum en ekki foreldrum,“ sagði Anna í samtali við Stundina. „Ég var alltaf með falskt bros, sem náði ekki til augnanna. Oft brosti ég vegna þess að ég var við það að bresta í grát.“
Stjúpmóðirin hlaut einnig dóm
Þá var stjúpmóðir þeirra Önnu og Lindu, Tipvipa Arunvongwan, sem fædd er árið 1980, ákærð fyrir að hafa „í refsingarskyni, margendurtekið og á alvarlegan hátt, veist að og ógnað heilsu og velferð“ dóttur sinnar og stjúpdætra, með ofbeldi „sem var til þess fallið að ógna, misþyrma og misbjóða börnunum andlega og líkamlega“.
Dómur féll í héraði í mars 2016 þar sem hún var dæmd í tíu mánaða fangelsi, þar af sjö mánaða skilorðsbundið, fyrir líkamlegar refsingar og misþyrmingar gagnvart börnunum, auk þess sem framkoma hennar þótti vanvirðandi og ógna heilsu þeirra og velferð. Þó var talið að yngsta stelpan, dóttir hennar, hefði fengið betri meðferð en stjúpdæturnar. Sjálf sagðist hún í skýrslutöku hjá lögreglu hafa slegið dóttur sína til málamynda, eða til að gæta jafnræðis gagnvart börnunum og sýna stjúpdætrunum að hún elskaði börnin jafnt.
Anna lýsti því í viðtali við Stundina að hún hefði verið neydd, af stjúpmóður sinni, til að borða skemmdan mat.
Var sýknaður af hluta
Kjartan var sýknaður af þremur ákæruliðum, meðal annars af ítrekuðum alvarlegum kynferðisbrotum gegn dóttur sinni á aldrinum 5 eða 6 ára til tólf ára aldurs, og svo að hafa þuklað á henni þar sem hún var við störf í frystihúsi 15 ára að aldri. Atriðin þóttu ekki sönnuð, en þrátt fyrir það var hann dæmdur fyrir að brjóta alvarlega gegn henni þegar hún var níu til ellefu ára gömul.
Hins vegar var hann sakfelldur fyrir að brjóta gegn annarri dóttur sinni sjö til níu ára gamalli, með því að nauðga henni, meðal annars á gistiheimili.
Síðustu brotin framdi Kjartan árið 2016, þegar hann rauf nálgunarbann með því að fara til móts við dóttur sína í verslunarmiðstöð.
Athugasemdir