Eigendur Samherja greiða sér um 1220 milljóna arð vegna rekstrarársins 2017. Þetta var ákveðið á nýlegum aðalfundi Samherja samkvæmt umfjöllun sem birtist á vef fyrirtækisins fyrir helgi.
Fram kemur að hagnaðurinn af rekstri hafi numið 14,4 milljörðum króna í fyrra og hækkað lítillega milli ára. 8,5 prósent af hagnaðinum renni til hluthafa í formi arðgreiðslna.
Samherji er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Evrópu og í öðru sæti yfir þau fyrirtæki sem ráða yfir mestri aflahlutdeild við Íslandsstrendur. Var samstæðuni skipt upp í innlenda og erlenda starfsemi í fyrrahaust.
Aðaleigendur Samherja eru frændurnir Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson. Eins og Stundin greindi frá í sumar þénaði Kristján um 660 milljónir króna í fjármagnstekjur árið 2017 og Þorsteinn um 434 milljónir.
Samanlagðar tekjur dóttur- og samstarfsfélaga í fimmtán löndum innan samstæðu Samherja námu um 77 milljörðum króna í fyrra en eigið fé fyrirtækisins var 94,4 milljarðar í lok ársins.
Haft er eftir Þorsteini Má á vef Samherja að góð afkoma fyrirtækisins sé ekki sjálfgefin. „Samherji skilaði góðri afkomu á síðasta ári eins og undanfarin ár. Svo góð niðurstaða er ekki sjálfgefin við núverandi aðstæður heldur afrakstur mikillar samvinnu starfsmanna Samherja sem og samstarfsaðila víðsvegar um heiminn. Við gleðjumst að sjálfsögðu yfir því,“ segir hann.
Athugasemdir