Stefán Karl Stefánsson leikari er fallinn frá eftir baráttu við krabbamein undanfarin misseri.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, eiginkona Stefáns Karls, greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.
„Yndið mitt, Stefán Karl Stefánsson, er látinn eftir tveggja ára baráttu við illvígt gallgangakrabbamein. Stefán var fæddur 10. júlí 1975 og varð því 43 ára gamall. Að ósk hins látna verður engin jarðarför og jarðneskum leifum dreift í kyrrþey á úthafi fjær. Fjölskyldan þakkar auðsýndan stuðning og hlýhug á undangengnum árum og sendir hinum fjölmörgu vinum og aðdáendum Stefáns Karls sínar innilegustu samúðarkveðjur.“
Auk þess að hafa starfað sem leikari um árabil var Stefán Karl stofnandi samtakanna Regnbogabörn árið 2002, til stuðnings börnum sem þurft hafa að þola einelti. Aðdragandi þess var að hann varð sjálfur fyrir einelti sem barn og vildi nýta reynslu sína öðrum börnum til liðsinnis.
Á síðustu árum ræktaði Stefán Karl grænmeti og vildi stofnsetja stórfellda grænmetisræktun innandyra, svokallað „kálver“, í stað álvers í Helguvík.
Eftir að hann greindist með krabbamein árið 2016 ræddi Stefán Karl veikindin opinskátt og var hann þakklátur þeim sem sendu honum stuðnings- og batakveðjur.
Í viðtali við Stundina í desember 2016 lýstu Stefán og Steinunn Ólína áhrifum þess fyrir hann og fjölskylduna að hann skyldi greinast með krabbamein sem er í flestum tilfellum banvænt. Aðeins 10 til 20 prósent sem greinast með gallgangakrabbamein geta losnað við meinið með skurðaðgerð.
„Þú verður bara að lifa hvern dag fyrir sig“
Stefán Karl sagði frá því að hann hefði reynt að halda lífi sínu áfram óröskuðu og óháðu krabbameininu að öðru leyti en óumflýjanlegt er. „Að fá svona greiningu er ekkert öðruvísi en aðrir dagar að því leytinu til að þú lifir bara dag fyrir dag. Þú verður bara að gera það, sama hvort þú ert með greiningu á krabbameini eða ekki. Þú verður bara að lifa hvern dag fyrir sig og láta honum nægja sína þjáningu, og reyna bara að láta gott af þér leiða. Láta ekki kæfa þig og banna þér að tjá þig, vera gagnrýninn, vera sanngjarn, vera sjálfum þér samkvæmur og taka líka sénsa og áhættur, gera mistök, læra af þeim, allt þetta. Þetta breytist ekkert, þó þú greinist með krabbamein.“
Athugasemdir