Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi, ber af sér sakir héraðssaksóknara í færslu á Facebook síðu sinni í dag. Júlíus sætir ákæru fyrir peningaþvætti, en hann sagði af sér sem borgarfulltrúi eftir að ljóstrað var upp um aflandsfélag hans í Panamaskjölunum sem geymdi arf foreldra hans sem systkini Júlíusar höfðu leitað.
Júlíus segir engar lagalegar forsendur fyrir ákærunni og segir að héraðssaksóknari hafi komist að þeirri niðurstöðu að ásakanir um illa fengna fjármuni á erlendum bankareikningum standist ekki. „Hann hefur hins vegar birt mér ákæru sem snýr að skattamálum,“ skrifar Júlíus. „Það kom á óvart og eru mér vonbrigði.“
Vinir Júlíusar senda honum kveðjur við færsluna, meðal annars Björn Gíslason, núverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, og Hallur Hallsson blaðamaður. „Þú ert lagður í einelti,“ skrifar Ragnar Guðmundsson, eigandi Hótel Adam á Skólavörðustíg. „Ég er núna í sama bardaga en vegna annara hluta.“
Hótel Adam var lokað í sumar eftir umfjöllun Stundarinnar. Rekstrarleyfi hótelsins var falið bak við vínflöskur og fleiri herbergi voru leigð út en leyfi var fyrir. Fyrrverandi lykilstarfsmaður hótelsins lýsti ömurlegum vinnuaðstæðum sínum í forsíðuviðtali Stundarinnar þar sem hún var ítrekað niðurlægð, svikin og beitt kynferðislegri áreitni. Hún vann mál í héraðsdómi gegn félagi Ragnars sem var gert að greiða henni tæpar þrjár milljón krónur í vangoldin laun.
Færsla Júlíusar í heild sinni:
Undanfarin tvö ár finnst mér eins og ég hafi staðið í veðurbáli. Á mig voru bornar ótrúlegar og fráleitar sakir í æsifréttastíl um að fjármunir á erlendum bankareikningum væru illa fengnir og ekki mín eign. Héraðssaksóknari hefur nú kannað sannleiksgildi málsins og komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé fótur fyrir þeim ásökunum.
Hann hefur hins vegar birt mér ákæru sem snýr að skattamálum. Það kom á óvart og eru mér vonbrigði. Ég tel engar lagalegar forsendur vera fyrir ákærunni og mun auðvitað takast á við hana fyrir dómstólum. Það mál verður útkljáð á þeim vettvangi.
Það kristallast margt í lífinu við mótlæti og átök. Eftir stendur að lokum það sem er mikilvægast: fjölskyldan, vináttan og kærleikurinn.
Athugasemdir