Í Víkverja Morgunblaðsins í dag er gefið í skyn að alnæmisfaraldurinn sem skók samfélag hinsegin fólks á níunda áratugnum hafi ekki verið jafn alvarlegur og talið var. Skrifin hafa valdið mikilli reiði margra og lýsir hinsegin fólk skrifunum sem höggi í andlit hinsegin samfélagsins.
Í pistli Víkverja, sem er nafnlaus að venju, er því haldið fram að hættan af alnæmi sé virðist liðin hjá, lítið og sjaldan sé minnst á það. „Kannski var málið ekki jafn alvarlegt og talið var,“ segir í pistlinum. Síðan tengir pistlahöfundur beint úr skrifum sínum um alnæmi við það að alið sé á ótta í dag þegar kemur að loftslagsmálum og spyr hvort einhver hafi af því hagsmuni að „markaðssetja óttann og ósköpin?“
„Þessi Víkverji á umsvifalaust að koma fram undir nafni og biðjast afsökunar“
Lana Kolbrún Eddudóttir, fyrrverandi formaður Samtakanna ´78, segir þessi skrif vera bylmings kjaftshögg fyrir þá sem lifðu AIDS-tímana, með allri sinni sorg. „Fjölskyldur sem horfðu á eftir kornungum ástvinum í gröfina. Vinir úr hinsegin samfélaginu sem reyndu af veikum mætti að styðja og hjúkra þeim sem voru að deyja. Svo ekki sé minnst á áhugaleysi, fordóma og illsku almennings gagnvart þeim sem smituðust. Ég er miður mín. Þessi Víkverji á umsvifalaust að koma fram undir nafni og biðjast afsökunar. Og svo það sé á hreinu þá hefur ekkert breyst varðandi HIV og AIDS: ef þú veikist og færð ekki lyf, þá deyrðu. Þetta sár er óuppgert í íslenskri samtímasögu.“
Skammarlegt að slá pólitískar keilur með þessum samanburði
Ragnhildur Sverrisdóttir, fjölmiðlafulltrúi og fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu, sendi í dag póst til Morgunblaðsins þar sem hún fordæmir skrif Víkverja harðlega og fer fram á afsökunarbeiðni í blaðinu. „Nei, mannkynið þurrkaðist ekki út í einu vetfangi, en alnæmið er skelfilegur sjúkdómur sem felldi svo marga af minni kynslóð. Því mun ég aldrei gleyma. Og ég - og annað hinsegin fólk - gerir þá kröfu til Morgunblaðsins að ekki sé vaðið yfir minningu þeirra á skítugum skónum og það af ekki merkilegri ástæðu en að reyna að slá einhverjar pólitískar keilur í loftslagsmálum!“ skrifar Ragnhildur.
„Þetta er engan veginn neitt sem er búið eða hefur verið blásið upp óþarflega mikið, það þarf stöðugt að vera fræðsla til staðar“
Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV-Ísland, segir í samtali við Stundina að höfundur Víkverja skrifi þarna af mikilli vanþekkingu og bendir á að bara á síðasta ári hafi 28 manns greinst með HIV-smit hér á landi. Tugir manna hafi látist af völdum alnæmissjúkdómsins frá því hann greindist fyrst á Íslandi. Þá hafa 35 milljónir manna um heim allan látist úr alnæmi. „HIV er mjög alvarlegur sjúkdómur og það hefur ekkert breyst í þeim efnum, ef fólk fær ekki lyf við sjúkdómnum þá deyr það. Þetta er engan veginn neitt sem er búið eða hefur verið blásið upp óþarflega mikið, það þarf stöðugt að vera fræðsla til staðar. Þeir sem fá sjúkdóminn þurfa að taka lyf á hverjum degi alla ævi þannig að þetta er ekki neitt gamanmál. Þessi skrif eru mikið ábyrgðarleysi.“
Athugasemdir