Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins og fyrrverandi framkvæmdastjóri og varaþingmaður Vinstri grænna, hefur ákveðið að gefa kost á sér sem forseti Alþýðusambands Íslands ASÍ. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Drífa hefur birt á Facebook-síðu sinni. Kosið verður í embætti forseta á þingi ASÍ sem haldið verður 24.-26. október næstkomandi.
Í yfirlýsingu Drífu kemur fram að hallað hafi undan fæti í samfélaginu hér heima, sem og erlendis. „Græðgi er talin til kosta og auðurinn hefur safnast á fáar hendur,“ skrifar Drífa og segir grunnskilyrði góðs lífs undirseld spákaupmennsku. Verkalýðshreyfingin eigi í vök að verjast þegar komi að félagslegum undirboðum og réttindabrotum. Upplýsingum um lög, reglur og réttindi sé haldið frá fólki. Skattkerfið hafi verið sveigt í þágu hinna ríku, gegn vinnandi fólki.
„Okkar bíður það verkefni að auka lífsgæði hinna mörgu og stemma stigu við græðgi hinna fáu. Verkalýðshreyfingin er mikilvæg sem aldrei fyrr og hún má ekki bregðast á ögurstundu. Hér á landi starfar ein sterkasta verkalýðshreyfing heims og það er mikið ábyrgðahlutverk að ná að sameina hana um hag okkar allra. Það verður mikilvægasta verkefni næsta forseta ASÍ,“ skrifar Drífa og lýsir því yfir að hún gefi kost á sér í stól forseta.
Drífa sagði sig úr Vinstri grænum í nóvember síðastliðnum, sökum andstöðu við stjórnarsamstarf flokksins við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Í pistli sem Drífa birti þá sagði hún að í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn myndu Vinstri græn neyðast til að verja ýmis konar óhæfu og mörkin í þeim efnum myndu færast til, líkt og í ofbeldissambandi. „Þetta verður eins og að éta skít í heilt kjörtímabil, ef stjórnin endist svo lengi. Með ákvörðuninni um stjórnarviðræður setti flokkinn niður, trúverðugleikinn laskaðist verulega og vinstrið á Íslandi mun eiga erfitt uppdráttar næstu árin og áratugina.“
Drífa er þar með önnur til að gefa kost á sér í forsetastólinn en Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri Afls starfsgreinasambands á Austurlandi, hafði áður gefið út að hann gæfi kost á sér.
Drífa tók við starfi framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins árið 2012 en starfaði áður meðal annars sem framkvæmdastjóri Vinstri grænna og Samtaka um kvennaathvarf. Hún er menntaður viðskiptafræðingur, með meistaragráðu í vinnurétti frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð en hún er einnig menntaður tækniteiknari.
Athugasemdir