Eins og fram hefur komið í fyrri skrifum mínum um Alzheimer-sjúkdóminn hér á Stundinni, hafa orðið mikil straumhvörf í skilningi, rannsóknum og meðhöndlun á þessum illvíga sjúkdómi á allra síðustu árum. Ég hef fylgst nokkuð með þróun þessara mála undanfarin fjögur ár, þ.e. frá sumri 2014. Óhætt er að fullyrða að á þeim tíma hefur margt gerst. Allt fram undir síðustu aldamót voru læknavísindin ekki mjög upptekin af þróun sjúkdómsins, sem oftar en ekki var skilgreindur sem óþægilegur en þó eðlilegur fylgifiskur öldrunar ( elliglöp ) og meðhöndlaður sem slíkur. Og það er ekki mörg ár síðan að tekist var á um það á læknaráðstefnum, hvort skilgreina bæri Alzheimer sem sérstakan sjúkdóm yfirhöfuð. Um það er ekki deilt lengur.
Reynsla fortíðarinnar sýnir að tíðni Alzheimer-greininga eykst með hækkandi lífaldri. Framreiknaðar afleiðingar þessa, miðað við að þessi þróun haldist óbreytt áfram, munu valda gífurlegum vandamálum í framtíðinni, sem brýnt er að finna lausn á áður en þau verða óyfirstíganleg. Eins og háttar til um alla sjúkdóma er lækning besta lausnin, en hvað Alzheimer sjúkdóminn varðar er hún ekki í augsýn.
Vilja breyta greiningarviðmiðum
Þeir vísindamenn sem mest hafa stundað Alzheimer-rannsóknir hafa flestir róið á hefðbundin mið í leit að lækningu, þ.e. með leit að heppilegum, virkum efnasamböndum til þess að framleiða lyf, sem vinna gegn framgangi sjúkdómsins. Þessi hefðbundna aðferð lyfja- og læknisfræðirannsókna hefur ekki reynst árangursrík hingað til þar sem Alzheimer-sjúkdómurinn er annars vegar.
Rannsóknir af þessu tagi eru jafnan mjög umfangsmiklar og kostnaðarsamar, svo mjög, að lyfjafyrirtæki sem stundað hafa rannsóknir á tilraunalyfjum sem vænleg þóttu til árangurs, hafa hætt þeim, jafnvel þó að vottunarstofnunin bandaríska, FDA ( U.S. Food and Drug Administration ), hafi gengist inn á vissa eftirgjöf í tilraunaferlinu og gefið út svo nefnda hraðvottun. Þá telja æ fleiri vísindamenn á þessu sviði að vandinn verði ekki leystur með einu lyfi heldur muni blanda fleiri lyfja þurfa að koma til.
Öll þau mistök og vandamál, sem fylgt hafa lyfjarannsóknum í tengslum við Alzheimer-sjúkdóminn síðustu ár hafa svo leitt af sér nýjar hugmyndir um aðkomu vísindamanna að þessu rannsóknaverkefni. Ágætt dæmi hér um eru ný tilmæli National Institute on Aging og US Alzheimer Association í Bandaríkjunum til rannsóknaaðila sem fást við Alzheimer-sjúkdóminn og birtust í riti US Alzheimer Association í Chicago í apríl 2018.1 Í tilmælunum er lagt til að greining sjúkdómsins miðist eingöngu við sannanleg, læknisfræðileg einkenni, eins og erfðavísa og breytingar eða rýrnun á heila, en horfið verðii frá greiningu út frá huglægum þáttum og einkennum á borð við breytta hegðun og minnistap, enda eru þessir þættir ekki sértækir fyrir Alzheimer-sjúkdóminn heldur fylgifiskar margra sjúkdóma. Með þessari breytingu á greiningarviðmiðum, má ætla að lyfjarannsóknir verði hnitmiðaðri, en hvort þær leiði af sér virk Alzheimer-lyf er önnur saga.
Engin ný, áhrifarík lyf í augsýn
Því miður hafa margir sem fengist hafa við Alzheimer-rannsóknir á undanförnum árum sett niðurstöður rannsókna sinna fram með þeim hætti, að ætla mætti að framleiðsla og markaðssetning nýrra og áhrifaríkra lyfja sé á næsta leiti. Með þessari óábyrgu framsetningu skapa þeir ótímabærar væntingar og falsvonir meðal Alzheimer-sjúklinga og aðstandenda þeirra. Þeir sem betur þekkja til – og heiðarlegri eru – reikna með að í það minnsta áratugur líði áður en virk lyf gegn Alzheimer geta orðið að veruleika og aðgengileg almenningi. Viðtal við sérfræðinga um þetta efni í Forbes Medicine tímaritinu birtist í febrúar 2018 undir yfirskriftinni Hversu nærri erum við lækningu við Alzheimer-sjúkdómnum?2
Í greininni var Sai Janani Ganesan frá Kaliforníuháskóla Í San Francisco (UCSF) spurður, eftir hversu mörg ár megi búast við að sjá lækningu á Alzheimer-sjúkdómnum. Ganesan svaraði því til, að engin lyf séu aðgengileg í dag, sem stöðvað geta eða hægt varanlega á þróun sjúkdómsins. Hann sagði einnig óraunhæft að ætla að þjóðaráætlun Obamas, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, um að leita og finna lækningu við Alzheimer fyrir árið 2025, gangi eftir. Það tekur nefnilega að meðaltali um 10 ár fyrir ný lyf að fara í gegnum tilraunaferli FDA, segir Ganesan, og ekkert vænlegt lyf sem mögulega geti læknað Alzheimer sé þar í skoðun í dag.
Þessar upplýsingar eru ekki uppörvandi. Því er ekki að undra að margir vísindamenn eru nú farnir að huga að öðrum lausnum á vandamálum tengdum heilabilun og Alzheimer, jafnvel þó að þær séu ekki eins afgerandi og fljótvirkar og gert var ráð fyrir í upphafi.
Meðferð Alzheimersjúkra
Auðvitað vona allir að þægilegar leiðir eins og lyfjataka verði brátt almenn lausn Alzheimervandans. Þar sem lyfjaþróun hefur gengið mjög illa og aragrúi fólks er með þennan langvinna og illviga sjúkdóm er hins vegar afar brýnt að hefja vitræna stefnumótun og hagfellda þróun meðferðarúrræða fyrir Alzheimersjúka hið fyrsta. Þetta er ekki síst nauðsynlegt í ljósi þess að ekki er víst yfirhöfuð, hvort lyfjataka ein og sér muni nokkru sinni duga til að lækna sjúkdóminn eða halda honum niðri.
Áhugavert er að nú eru vísindamenn í auknum mæli farnir að horfa til lausna sem byggja fyrst og fremst á breyttum lifnaðarháttum, eins og fram kom á alþjóðaþingi Alzheimer-samtakanna ( AAIC ) í London 2017. Rannsóknaniðurstöður sem þar voru kynntar auka skilning á áhættuþáttum Alzheimer-sjúkdómsins og annarra heilabilunarsjúkdóma, og varpa ljósi á möguleikana á að koma í veg fyrir þá með breyttum lífsstíl. Niðurstöðurnar voru kynntar í skýrslu alþjóðlegs, 24 manna hóps Alzheimer-sérfræðinga á vegum læknatímaritsins Lancet. Þar kemur fram að sérfræðingahópurinn áætlar að mögulega megi koma í veg fyrir allt að þriðjung allra heilabilunartilfella með breyttum lifnaðarháttum.3
Á sömu ráðstefnu kynntu bandarísku Alzheimer-samtökin nýtt tilraunaverkefni sem einmitt gengur út á breytta lifnaðarhætti. Verkefnið ber heitið US POINTER (PrOtect through a lifestyle INTErvention to Reduce risk)4. Leggja samtökin fram 20 miljónir Bandaríkjadala í rannsóknaverkefnið, sem ætlað er að prófa gagnsemi margháttaðra lífsháttabreytinga með það að markmiði að koma í veg fyrir andlega hrörnun og heilabilun. 2.500 einstaklingar, sem þegar eiga á hættu að verða fyrir vitsmunalegri hrörnun, taka þátt í tilraunaverkefninu. Næsta alþjóðaþing AAIC fer fram í Chicago í þessum mánuði. Verður fróðlegt að fylgjast með þeim áherslum, sem þar verða efst á baugi.
Þeir tveir fræðimenn sem ég hef kynnt í fyrri greinum mínum á þessum vettvangi; þeir Dale Bredesen, prófessor við háskólann í Suður Kaliforníu og Michael Nehls, sameindalíffræðingur í Freiburg í Þýskalandi, eru einmitt einarðir talsmenn lífsháttabreytinga í baráttunni við Alzheimer.
Margar rannsóknir hafa sýnt fram á hægfara þróun sjúkdómsins, sem getur tekið áratugi áður en sýnileg einkenni hans koma í ljós. Nútíma greiningartækni gerir kleift að fylgjast sífellt betur með þessari þróun. Þetta hæga ferli er ein meginundirstaða kenninga þeirra Bredesens og Nehls. Báðir leggja þeir áherslu á að ef sjúkdómurinn er enn á fyrstu stigum, séu batahorfur góðar og að með réttri meðhöndlun megi ráðast að orsökum Alzheimer-sjúkdómsins og færa heila og heilastarfsemi sjúklingsins aftur í fyrra horf.
Má í raun líkja þessu við endurhæfingu, sem nú er t.d. talin ómissandi hluti af lækningu fjölmargra annarra sjúkdóma. Og eins og títt er um endurhæfingu, þá byggir þessi lækningaaðferð umfram allt á breytingu á lifnaðarháttum sjúklinganna.
Finger-rannsóknin
Stærsta og þekktasta rannsóknin á öldrun og heilabilunarsjúkdómum er mjög viðamikil norræn rannsókn, sem hófst árið 2009. Finnskir vísindamenn leiddu rannsóknina, sem fékk nafnið FINGER-rannsóknin (Finnish Geriatric Intervention Study to Prevent Cognitive Impairment and Disability).
Hún fólst í víðtækri athugun á áhrifum breyttra lífshátta á þróun öldrunar. Horft var til mataræðis, líkamsæfinga og hugarþjálfunar; hætta á æðasjúkdómum var samviskusamlega skráð, sem og aðgerðir sem miðuðu að því að koma í veg fyrir vitsmunalega hrörnun aldraðra einstaklinga í áhættuhópi vegna heilabilunar. Valdir voru af handahófi 2654 einstaklingar á aldrinum 60 – 70 ára og stóð rannsóknin í um tvö ár.
Niðurstöður þessarar langtímarannsóknar benda í skemmstu máli til þess, að breyttir – og bættir – lífshættir geti viðhaldið eða bætt andlega og vitsmunalega heilsu eldra fólks í áhættuhópum vegna Alzheimers og annarra heilabilunarsjúkdóma.5 Rannsókninni hefur verið haldið áfram undir stjórn hins þekkta finnska heilabilunar-sérfræðings, prófessors Miia Kivipelto við Karolinsku stofnunina í Stokkhólmi.
Segja má að viss samhljómur sé milli FINGER-rannsóknarinnar og rannsóknar Dale Bredesen nokkrum árum síðar. FINGER-rannsóknin beindist reyndar almennt að áhrifum lífstílsbreytinga á þróun öldrunar, en rannsókn Bredesen beindist sérstaklega að lækningu á Alzheimer-sjúkdómnum. Hvað áhrif á heilastarfsemina varðar er þar vissulega samræmi.
Eins og áður hefur verið frá greint gerði Bredesen endurhæfingarrannsókn á Alzheimersjúklingum Níu af tíu sjúklingum fengu það mikinn bata að þeir gátu tekið upp fyrri störf á ný. Einungis sá sem var með sjúkdóminn á lokastigi fékk lítinn sem engan bata. Undirtektir vísindasamfélagsins voru þó litlar. enda var úrtak rannsóknarinnar ekki nægilega stórt. Eins má gera ráð fyrir að óhefðbundin meðferðarform eins og iðkun jóga og hugleiðslu þyki ekki áhugaverð.
Þannig er svo staðan í dag. Þessi örtilraun Bredesens er sú eina, enn sem komið er, sem bendir til þess að hægt sé að snúa þróun Alzheimer-sjúkdómsins við. Í raun er margt í meðferðaráætlun Bredesen áþekkt fjölmörgum endurhæfingaraðferðum og þar sem Bredesen gerir ráð fyrir að heimilislæknir viðkomandi sjúklings geti stjórnað meðferðinni ætti að vera tryggt að hún verði hagfelld og ekki bundin við efnameiri einstaklinga eingöngu. Þar með er hægt að útiloka að Bredesen hafi í hyggju að hagnast ótæpilega á aðferðum sínum. Sem fyrr segir eru nú ýmis teikn á lofti um að aðrir vísindamenn taki að nálgast vandamálið á svipuðum forsendum og þeir Bredesen og Nehls. Því gætu niðurstöður AAIC í Chicago í lok þessa mánaðar orðið býsna áhugaverðar.
Þó að þróun Alzheimerlyfja hafi ekki gengið að óskum hafa orðið miklar framfarir í greiningu á Alzheimer upp á síðkastið. Þær munu ef til vill gera það mögulegt innan tíðar að greina sjúkdóminn mörgum árum fyrr en áður var hægt og jafnvel löngu áður en fyrstu einkenni koma í ljós. Bredesen mælir einmitt með því að meðhöndlun hefjist eins snemma og mögulegt er og helst áður en einkenni birtast.
Ísland og Alzheimer
Rétt er hér að minna enn og aftur á, að Alzheimer er sjúkdómur sem ber að leita lækningar á. Vilji nú svo vel til að breyttir og hollari lífshættir gefi góðan árangur á því sviði er hér um gríðarlega jákvæð áhrif á almenna lýðheilsu að ræða, með öllum þeim kostum sem því fylgir. Upphaflega var litið á aðferðina sem millibilslausn þar til virk lyf gegn Alzheimer kæmu fram. Margt bendir þó til þess að meðferð þeirra Bredesens og Nehls hafi mun víðtækari og róttækari áhrif en svo, auk þess sem hún getur aldrei gert annað en bætt almennt heilsufar hvers þess sem henni fylgir. Því er það vel þess virði, að freista þess að komast að því með óyggjandi hætti, hvort aðferð þeirra geti í raun komið í veg fyrir og/eða stöðvað framgang Alzheimer-sjúkdómsins og jafnvel læknað hann og gert sjúklingum kleift að enduheimta fyrri vitræna getu.
Lengi hefur verið talið að dvöl í heimahúsum, með sínum nánustu, geri heilabiluðum gott, og því æskilegt að það ástand vari eins lengi og hægt er. Um leið og þetta gagnast sjúklingunum, sparar þetta heilbrigðiskerfinu og sameiginlegum sjóðum landsmanna umtalsvert fé. Sé í raun hægt að hægja á og jafnvel lækna þennan sífellt algengari sjúkdóm með breyttum lifnaðarháttum er einnig komin fram ákveðin lausn á gífurlegum fjárhagsvanda, sem annars blasir við heilbrigðiskerfinu og lýst hefur verið í erlendum framtíðarspám um þróun sjúkdómsins.
Framtíðarsýn og von höfundar þessarar greinar er sú, að stjórnvöld skoði möguleikann á að taka þátt í tilraunum byggðum á kenningum þeirra Bredesens og Nehls, leiti leiða til snemmgreiningar sjúkdómsins og komi upp aðstöðu til sértækrar meðhöndlunar yngri Alzheimersjúklinga sérstaklega – einkum þeirra, sem tekist hefur að greina, þótt algeng og áberandi einkenni hafi enn ekki komið fram. Takist að greina og stöðva Alzheimer strax á frumstigi gætu vandamálin vegna hans nefnilega verið leyst til framtíðar.
Sjá heimildir: https://sites.google.com/site/alzheimersjukir/home
Athugasemdir