Kaþólska kirkjan meinaði brúðhjónum um að halda veraldlega giftingarathöfn á Landakotstúni í byrjun mánaðar. Staðurinn er skilgreindur sem almenningsgarður á vef Reykjavíkurborgar og er með stærri og opnari útivistarsvæðum miðbæjarins en jörðin er í eigu kirkjunnar.
„Þetta er ekki vígslustaður. Túnið sjálft er ekki vígslustaður og ég get nú ekki mikið meira sagt um þetta mál,“ sagði Patrick Breen, einn af prestum Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, þegar Stundin hafði samband við hann.
Viðbrögð kirkjunnar við beiðni brúðhjónanna komu þeim í opna skjöldu. „Við höfðum samband við Reykjavíkurborg í ljósi þess að þetta er almenningsgarður. Þau sögðu að þetta væri gott og blessað sín vegna en bentu á að Kaþólska kirkjan ætti allt landið,“ segir brúðguminn í samtali við Stundina.
„Við viljum ekki að það sé vígslustaður
fyrir hvaða trúfélag sem er“
„Þegar ég hafði samband við kirkjuna bauð presturinn mér í kaffi til að ræða þessa hugmynd. Svo reyndist nú vera ósköp lítið að ræða og ég fékk ekki einu sinni kaffi. Þeim þótti ekki boðlegt að vera með heiðnar athafnir á landareignum kirkjunnar, svo við fundum bara betri stað.“
Landakotstún liggur að Túngötu, Hólavallagötu og Hávallagötu, en þar er að finna leikvöll og grasreit með fallegu útsýni yfir miðborgina. Hefur Kaþólska kirkjan átt jörðina frá 1860 og verið gert ráð fyrir því að túnið sé óáreitt í skipulagi Reykjavíkur frá 1926. „Vissulega er Kaþólska kirkjan eigandi landsins,“ segir Patrick Breen. „Við viljum ekki að það sé vígslustaður fyrir hvaða trúfélag sem er.“
Athugasemdir