Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, faldi færslu af Facebook tímalínu sinni þar sem hann gagnrýndi kjarabaráttu ljósmæðra. „Ljótleiki kjarabaráttunnar á sér engin takmörk,“ skrifaði Ásmundur og birti mynd af forsíðu Fréttablaðsins í dag.
Á forsíðunni er mynd frá undirbúningi samstöðufundar með ljósmæðrum þar sem ólétt kona býr til mótmælaskilti. Á skiltinu stendur „Helvítis fokking fæðingar.“
Þegar blaðamaður náði í Ásmund neitaði hann að ræða við Stundina. „Nei ég tala ekki við ykkur. Gangi þér vel, bless.“
„Ásmundur hinna mörgu kílómetra“
Fjöldi fólks hafði skrifað athugasemdir við færslu Ásmundar eða deilt henni með gagnrýnum skilaboðum. „Ljótleiki sjálftökunnar á sér engin takmörk!“ skrifar Ingimar Karl Helgason, samskiptastjóri Öryrkjabandalags Íslands.
Annar sem deilir færslunni er Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. „Kæri Ásmundur hinna mörgu kílómetra og launaðra nefndarstarfa sem þú mætir ekki í af því að þú sinnir öðrum störfum á meðan,“ skrifar Björn Leví. „Þú sem talar fyrir bættum kjörum eldri borgara en greiðir atkvæði gegn þeim. Takk fyrir að vera þú og sýna svo skýrt og greinilega hvað er að í íslenskum stjórnmálum. Vona að þér vegni vel í framtíðinni, bara á einhverjum öðrum vettvangi. /passive agressive“.
Athugasemdir