Guðmundar- og Geirfinnsmálið verður tekið fyrir þann 13. september klukkan níu í dómsal I í Hæstarétti. Þetta kemur fram í dagskrá Hæstaréttar sem finna má á vef réttarins.
Davíð Þór Björgvinsson, varaforseti Landsréttar, er settur ríkissaksóknari í málinu og mun hann fara fram á sýknu eins og verjendur. Sakborningar málsins eru Albert Klahn Skaftason, varinn af Guðjóni Ólafi Jónssyni lögmanni, Kristján Viðar Júlíussson, varinn af Jóni Steinari Gunnalaugssyni, fyrrverandi hæstaréttardómara, Guðjón Skarphéðinssson, varinn af Ragnari Aðalsteinssyni lögmanni, Tryggvi Rúnar Leifsson, varinn af Jóni Magnússyni lögmanni og Sævar Marinó Ciesieslki, varinn af Oddgeiri Einarssyni.
Endurupptökunefnd komst að þeirri niðurstöðu að ekki væru skilyrði til endurupptöku á þætti Erlu Bolladóttur í málinu og því er hún ekki meðal sakborninga í málinu sem rekið verður í september. Erla hlaut þriggja ára fangelsisdóm fyrir að bera sakir á Einar Gunnar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen vegna dauða Geirfinns Einarssonar ásamt smyglbrotum.
Athugasemdir