Allir 48 forstöðumenn ríkisstofnana utan einn sem Kjararáð úrskurðaði um launahækkanir til 14. Júní síðastliðinn fá yfir eina milljóni króna í mánaðarlaun sé tekið tillit til fastra greiðslna vegna yfirvinnu. Aðeins forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands fær undir milljón á mánuði en heildarlaun hans eru 980.992 krónur þegar allt er tiltekið.
Kjararáð fundaði í síðasta sinn 14. júní síðastliðinn en ráðið var lagt niður með lögum nú um mánaðarmótin. Á fundinum voru laun til handa 48 forstöðumönnum ríkisstofnana ákvörðuð. Um var að ræða erindi frá forstöðumönnum sem bárust ráðinu á árunum 2016 og 2017, utan tvö sem voru eldri. Umfjöllun um erindin hófust, eftir því sem segir í úrskurðinum, fyrir 1. janúar síðastliðinn og var ráðinu því skylt að ljúka umfjöllun um þau með úrskurði fyrir þann tíma sem ráðið var lagt niður.
Meðaltalshækkun umræddra 48 forstöðumanna nemur um 10,8 prósentum að því er kemur fram í Morgunblaðinu. Þrettán þeirra fá, eftir hækkunina, yfir eina milljón á mánuði í grunnalaun. Hækkunin er aftuvirk og gildir frá 1. desember á siðasta ári.
Forstjóri Landspítala með 31 milljón á ári
Forstjóri Landspítalans fær hæst laun af forstöðumönnunum 48, 1.294.693 krónur í grunnlaun. Þar að auki fær hann viðlíka upphæð, 1.292.220 krónur í greidda í fasta yfirvinnu á mánuði en samkvæmt úrskurði Kjararáðs skal greiða honum 135 einingar á mánuði fyrir alla yfirvinnu er starfinu fylgi. Það jafngildir því að Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, fái greiddar um 60.000 krónur í yfirvinnu fyrir hvern virkan dag mánaðarins og 42 þúsund krónur á hverjum degi. Heildarlaun Páls nema 2.586.913 krónum á mánuði þegar grunnlaun og yfirvinna er saman tekin. Árslaun Páls nema því alls ríflega 31 milljón króna.
Enginn forstöðumaður fær viðlíka fjölda eininga ákvarðaða í fastar yfirvinnugreiðslur eins og forstjóri Landspítala. Einingar eru 1 prósent af launaflokki 136 í launatöflu kjararáðs nr. 502 og jafngilda nú 9.572 krónum. Næstur Páli Matthíassyni í þeim efnum kemur Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, en honum skal greiða 50 einingar á mánuði í fasta yfirvinnu. Það jafngildir 478.600 krónum á mánuði og heildarlaun Páls Gunnars eru því 1.649.043 krónur.
Meiri yfirvinna hjá forstjóra Samkeppniseftirlitsins en ríkislögreglustjóra
Rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, fær eftir úrskurðinn næst hæstu grunnlaunin, 1.251.843 krónur. Að auki fær hann greiddar 40 einingar í yfirvinnu mánaðarlega, jafngildi 382.880 króna. Samanlagt fær því Jón Atli greiddar 1.634.723 krónur á mánuði.
Þriðju hæstu grunnmánaðarlaunin fær forstjóri Vegagerðarinnar en þau eru eftir ákvörðun kjararáðs nú 1.210.442 krónur. Að auki fær forstjóri Vegagerðarinnar greiddar 40 einingar á mánuði í yfirvinnu, 382.880 krónur og hefur því samtals í laun 1.593.322 krónur á mánuði.
Athygli vekur að ríkisslögreglustjóri, Haraldur Johannessen, hefur sömu grunnlaun og Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, en fær hins vegar færri einingar í yfirvinnu. Haraldur fær úrskurðaðar 45 einingar í fasta yfirvinnu, jafngildi 430.740 króna, sem eru 47.860 krónum lægri yfirvinnugreiðslur en Páll Gunnar.
Athugasemdir