Laun forstjóra opinberra fyrirtækja hafa hækkað gríðarlega á undanförnum árum eins og sjá má af svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Þorsteins Víglundssonar, þingmanns Viðreisnar.
Fram til 1. júlí 2017 ákvaðaði kjararáð laun hjá forstjórum Isavia, Íslandspósts, Kadeco, Landsbankans, Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarðar og Rarik. Með lögum sem sett voru árið 2017 var hins vegar ákvörðunarvald um laun forstjóranna flutt frá kjararáði til stjórna fyrirtækjanna.
Laun forstjóra Íslandspóst nema í dag 1.795 þúsund krónum á mánuði. Þau hafa hækkað um 25 prósent á því eina ári sem liðið er síðan stjórn félagsins fékk ákvörðunarvald yfir laununum. Þá hafa launin hækkað um rúm 51 prósent á fimm árum en árið 2014 námu þau um 1.186 þúsund krónum.
Forstjóri Landsbankans er Lilja Björk Einarsdóttir og tók hún við starfinu í janúar 2017, en Steinþór Pálsson hafði sinnt því frá 2010. Á einu ári hafa laun Lilju hækkað um 56 prósent, farið úr 2.089 þúsund krónum í 3.250 krónur. Þá hafa launin hækkað rúm 105 prósent á fimm árum en árið 2014 voru þau um 1.583 þúsund á mánuði.
Forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, hefur hækkað mest síðan ákvörðunarvaldið var fært frá kjararáði til stjórna opinberra félaga. Á einu ári hafa laun hans hækkað um 58 prósent, en í dag eru þau 3.294 þúsund á mánuði. Þá hafa launin hans nánast tvöfaldast á fimm árum, en þau námu 1.691 þúsund krónum árið 2014.
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, hefur hækkað um 36 prósent síðan breytingin varð. Þá hafa laun hans hækkað um tvö þriðju á fimm ára tímabili. Í dag nema laun hans um 2.380 þúsundum króna en árið 2014 voru þau 1.437 þúsund krónur.
Einn forstjóri opinbers fyrirtækis hefur lækkað í launum síðan breytingin varð og tvær stjórnir fyrirtækja hafa veitt umtalsvert minni hækkanir en til dæmis stjórn Landsvirkjunar. Hjá Kadeco, þróunarfélagi Keflavíkurvallar, hafa laun forstjórans lækkað um 16 prósent frá breytingunni en á fimm ára tímabili nemur launalækkunin um tvö prósent. Forstjóri Orkubús Vestfjarðar hefur hækkað um tvö prósent frá breytingunni en forstjóri Rariks um sex prósent.
Athugasemdir