Ármann Kr. Ólafsson, bæjaststjóri Kópavogs, lagði til á fundi bæjarstjórnar í gær að laun kjörinna fulltrúa, og þar með talin hans eigin laun, yrðu lækkuð um 15 prósent. Tillögunni var vísað til forsætisnefndar Kópavogsbæjar.
Í greinargerð með tillögunni segir að í kjölfar úrskurðar kjararáðs um kjöt þingmanna í lok árs 2016 hafi bæjarstjórn Kópavogs samþykkt að hækka laun kjörinna fulltrúa og bæjarstjóra. Hækkunin hafi þó ekki tekið mið af úrskurði ráðsins heldur hafi tekið mið af þróun launavísitölu og hún því verið lægri en ella. „Engu að síður hefur komið fram gagnrýni á launaþróun þessara aðila sem og kjör annarra kjörinna fulltrúa í landinu m.a. af hálfu forystufólks á vinnumarkaði. Því er lagt til að launin lækki í upphafi kjörtímabils um 15% frá því sem þau eru nú.“
Laun Ármanns eru nú 2.159.670 krónur og hafa hækkað um tæp 58 prósent frá upphafi síðasta kjörtímabils. Þá voru laun hans 1.368.783 krónur. Þar fyrir utan fær Ármann bílastyrk upp á 137.500 krónur á mánuði. Þá situr Ármann einnig í stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og fær fyrir það greiddar 130.604 krónur á mánuði. Alls hefur Ármann því 2.427.774 krónur í laun mánaðarlega.
Yrði tillaga Ármanns samþykkt má gera ráð fyrir að hún lúti einungis að föstum launum hans, það er launum hans sem bæjarstjóri. Verði þau lækkuð um 15 prósent fengi Ármann greiddar 1.835.720 krónur í mánaðarlaun og fengi því samtals 2.103.824 krónur í launagreiðslur á mánuði.
Til samanburðar eru laun Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, ákvörðuð af kjararáði, 2.021.825 krónur á mánuði.
Athugasemdir