Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Mæður heyra börn gráta í myrkri næturinnar

El­iza­beth War­ren, öld­ung­ar­deild­ar­þing­mað­ur á banda­ríska þing­inu, lýs­ir upp­lif­un sinni af því þeg­ar hún fór og kynnti sér að­stæð­ur inn­flytj­enda sem hald­ið er í búr­um og ör­vænt­ingu mæðra sem skild­ar eru frá börn­um sín­um vegna stefnu rík­is­stjórn­ar Trump Banda­ríkja­for­seta.

Mæður heyra börn gráta í myrkri næturinnar
Haldið í búrum Hundruðir á hundruðir ofan af innflytjendum hafa verið teknir höndum í Bandaríkjunum, þeim haldið án dóms og laga og aðskilin frá börnum sínum og fjölskyldum. Allt er þetta gert í nafni stefnu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um ekkert umburðarlyndi gagnvart ólöglegum innflytjendum. Mynd: Youtube

Elizabeth Warren, öldungardeildarþingmaður á Bandaríkjaþingi, fór síðastliðinn sunnudag til McAllen í Texas til að kynna sér afleiðingar stefnu Donalds Trump Bandaríkjaforseta í innflytjendamálum. Hún birti í gær Facebook-færslu um upplifunina. Skrif Warren fara hér á eftir í þýðingu og staðfærslu Stundarinnar. Millifyrirsagnir eru Stundarinnar.

Síðastliðinn sunnudagsmorgun flaug ég til McAllen í Texas til að kynna mér hvað hefur í raun og veru komið fyrir fjölskyldur innflytjenda sem stíað hefur verið í sundur af ríkisstjórn Trumps.

„Eitt er víst: Krísuástandið við landamæri okkar stendur enn.“

Ég hélt beinustu leið af flugvellinum til miðstöðvar tolla- og landamæragæslu McAllen (CBP) sem er miðpunktur „zero-tolerance“ stefnu Donalds Trumps, ekkert umburðarlyndi. Þangað færa landamæraverðir innflytjendur án pappíra áður en þeim er ýmist sleppt aftur, þeir fluttir út landi, afhentir innflytjendaeftirlitinu eða, þegar um er að ræða fylgdarlaus börn eða börn sem hafa verið skilin frá foreldrum sínum, þau sett í hendur barnaverndar.

Elizabeth WarrenÖldungardeildarþingmaðurinn lýsti ferð sinni til McAllen í Texas þar sem hún kynnti sér hinar hörmulegu afleiðingar sem stefna Donalds Trumps í innflytjendamálum hefur haft.

Af götunni lítur miðstöð CBP út eins og hvert annað vöruhús í iðnaðarhverfi. Það gefur engin fyrirheit um hryllingin sem fer fram innan dyra. Áður en við gátum farið inn krafðist CBP þess að við horfðum á áróðursmyndband stjórnvalda. Það er engin önnur leið til að lýsa því, það var eins og kvikmyndastikla, uppfullt að dramatískum leiklestri um „hina ólöglegu“ sem kæmu yfir landamæri okkar, toppað með óhugnanlegum myndum sem lýstu ógnunum sem stöfuðu af innflytjendum í Bandaríkjunum, allt frá glæpaklíkum til húðútbrota. Hetja myndbandsins var CBP sem, eftir því sem sagt var í myndbandinu, hefðu unnið þrekvirki við að draga úr komu innflytjenda.

Vöruhús fyllt af búrum

Að því loknu lýsti starfsmaður því sem við ættum í vændum. „Þau hafa aðskilda klefa. Ég kalla þetta klefa, ég veit raunar ekki hvað þeir kalla þá.“ Augljóslega hafði viðkomandi fengið minnisblaðið þar sem lögð var áhersla á að kalla þetta ekki sínu rétta nafni: búr. Við hverri einustu spurningu sem ég spurði var flókið og ruglingslegt svar, sem leiddi af sér fleiri spurningar. Jafnvel einföldustu spurningar eins og hversu lengi fólki væri haldið. „Enginn er hér lengur en 24 tíma. Jæja, kannski 24 til 48 tíma. Hámark 72 tíma.“ Og einnig: „Engin börn eru skilin frá. Eða sko, nema eldri börn.“

Vöruhúsið er mikill geimur, með steyptu gólfi og hátt til lofts. Það er fullt af búrum. Búrum fyrir karlmenn. Búrum fyrir konur. Búrum fyrir mæður með ungabörn. Búrum fyrir stúlkur. Búrum fyrir drengi.

Lykt af svita og ótta

Ólyktin, lykt af svita og ótta, skellur á manni um leið og dyrnar eru opnaðar. Fyrstu búrin eru full af karlmönnum. Þau eru 3,5 til 4,5 metra há og það er þröngt. Ég efast um að allir mennirnir gætu lagst niður í einu. Það er klósett aftast í búrinu bak við smávegg en engin aðstaða til að þvo sér eða fara í sturtu. Einn mannanna æpti aftur og aftur: „Sturtu, gerið þið það. Bara sturtu.“

Ég spurði mennina sem haldið var í búrunum hvaðan þeir væru. Nálega allir voru frá El Salvador, Gvatemala eða Hondúras. Þá spurði ég þá hverstu lengi þeim hefði verið haldið þarna og svörin voru af öllu tagi, allt frá nokkrum dögum og allt að tveimur vikum (72 tímar hámark?). Fulltrúar CBP flýttu sér að leiðrétta mennina sem þeir höfðu í haldi, og héldu því fram að svör þeirra gætu ekki verið rétt. Sérfræðingurinn minn í innflytjendamálum í þessari ferð talar fullkomna spænsku og gekk úr skugga um að mennirnir hefðu skilið spurninguna. „Hversu lengi hafið þið verið í þessari byggingu?“ Svör þeirra breyttust ekkert. Búr eftir búr. Sömu spurningarnar, sömu svörin.

„Þau höfðu ekkert, engar bækur, engin leikföng, ekkert við að vera. Þau litu út eins og þau hefðu lent í sprengjuregni.“

Því næst komum við inn á svæðið þar sem börnin voru í haldi. Búrin þar voru stærrri en ennþá fleiri í þeim. Í miðju búranna er varðturn, kannski fjögurra metra hár, þaðan sem hægt er að fylgjast með börnunum. Stúlkum er haldið saman í stóru búri. Börnin sögðu okkur að þau hefðu komið til Bandaríkjanna með fjölskyldum sínum og að þau vissu ekki hvert hefði verið farið með þær. Ellefu ára gömul, tólf ára. Lokuð inni í búrum með ókunnugum. Mörg þeirra höfðu ekki talað við foreldra sína. Þau vissu ekki hvar þau væru eða hvað yrði um þau. Börnin voru þögul. Það var miðdegi og þau sátu bara. Sum sátu á þunnum mottum með álteppi dregin yfir höfuð sér. Þau höfðu ekkert, engar bækur, engin leikföng, ekkert við að vera. Þau litu út eins og þau hefðu lent í sprengjuregni.

Konur með ungabörn í búrum

Síðan komum við að stórum búrum þar sem voru konur og smábörn. Konur að gefa ungabörnum brjóst.

Þegar við komum til þeirra spurði ég hví þær hefðu yfirgefið heimalönd sín. Ung móðir með fjögurra ára gamalt barn sagði að sér hefði verið hótað og ógnað af glæpagengi í El Salvador. Hún hefði gefið lögregluþjóni vatn að drekka og gengið hefði þar með sannfærst um að hún væri á bandi lögreglunnar. Eftir því sem hún sagði lengur frá, því órólegri varð hún. Hún sagði að henni myndi aldrei detta í hug að hjálpa lögreglunni, hún skyldi áhættuna en glæpagengið hefði verið sannfært um að hún væri með lögreglunni í liði. Hún seldi allt sem hún átti og flúði með son sinn til Bandaríkjanna.

Eitt af því sem þú sérð ekki í CBP miðstöðinni eru feður með börnin sín. Eftir að hafa þrýst á fulltrúa CBP útskýrðu þeir að karlmönnum sem ferðuðust með börnum væri sjálfkrafa sleppt úr miðstöðinni. Það væru einfaldlega ekki nægjanlega mörg búr þar til að halda þeim. Konur með ungabörn hins vegar, þeim mætti halda út í hið óendanlega. Ég þrýsti á fulltrúana hvað þetta varðaði ítrekað. Eina svarið sem ég fékk var að með því væri verið að verja „öryggi mæðra og barna“.

Flúði til að forða syni sínum frá glæpagengi

CBP sagði að feður með börn, ólettar konur, mæður barna með sérþarfir og aðrir „heppnir“ sem sleppt væri úr miðstöðinni væru sendir til hjálparstofnunar kaþólsku kirkjunnar. Þangað fór ég næst. Systir Norma, starfslið hennnar og sjálfboðaliðar eru sannarlega að vinna guðs verk. Hjálparstofnunin útvegar mat, sturtuaðstöðu, hrein föt og lyf handa þeim sem á þurfa að halda. Þar er reynt að útskýra hið flókna ferli fyrir fólkinu og sjálfboðaliðar hjálpa því að komast í rútu til ættingja í Bandaríkjunum.

Systir Norma kynnti mig fyrir föður og unglingssyni hans frá Hondúras. Faðirinn sagði að glæpagengi hefði verið á hælum sonar hans, heimtandi að hann gengi til liðs við þá. Eina leiðin fyrir drenginn til að sleppa var að leggja á flótta. Maðurinn yfirgaf eiginkonu sína og fjórar dætur í Hondúras til að koma syni sínum til Bandaríkjanna. Eina áætlunin sem hann hafði var að finna sér vinnu til að geta sent peninga heim til fjölskyldunnar. Frændi hanns býr í New Jersey og því sendu CBP pappíra til innflytjendaskrifstofunnar í New Jersey. Fljótlega myndu feðgarnir leggja upp í hina löngu rútuferð þangað.

Hjálparstofnun Kaþólsku kirkjunnar í Rio Grande dalnum veitir neyðaraðstoð til handa fólki af öllum trúarbrögðum og bakgrunni en vegna neyðarástandsins á svæðinu er hjálparstofnunin komin út á ystu nöf. Fengi hún meira fjármagn og fleiri sjálfboðaliða, myndu hún með gleði hjálpa fleiru fólki.

Ég spurði systur Normu um konurnar og börnin sem væru í ótímabundnu haldi. Hún sagði að þau myndu með gleði taka á móti þeim, fæða þau og klæða og koma þeim upp í rútu á leið til ættingja sinna, ef þeim væri aðeins sleppt. „Þetta er siðferðisleg skylda okkar, við erum öll hluti af fjölskyldu manna.“

Skilgreiningin aðeins foreldri og barn

Að þessu loknu hitti ég lögfræðinga sem eru í auga stormsins hvað varðar aðskilnaðinn. Ég lýsti fyrir þeim því sem ég hefði séð fram til þessa í McAllen og ræddi framkvæmd sameiningu foreldra og barna. Lögfræðingarnir staðfestu hins vegar það sem ég óttaðist mest. Trump-stjórnin er kannski að „sameina“ fjölskyldur en skilgreining þeirra á fjölskyldu er eingöngu foreldri og barn. Sem dæmi, ef 9 ára gamalt barn kemur yfir landamærin með 18 ára gamalli systur sinni, eða frænku, frænda, afa eða ömmu, eða nokkrum þeim sem ekki er forráðamaður barnsins samkvæmt pappírum, þá eru viðkomandi ekki talin vera fjölskylda og þau aðskilin.

Mæður og börn eru talin vera „sameinuð“ ef þeim er haldið í sömu gríðarstóru byggingunni, jafnvel þó þau sé læst inni í mismunandi búrum og hafi engan aðgang að hverju öðru. Í veröld CBP og innflytjendaeftirlitsins eru það sem sagt þannig sem 10 ára gamlar stúlkur, læstar inni í stórum búrum, eru „ekki aðskildar“ frá mæðrum sínum sem eru læstar inni í búrum annars staðar í byggingunni.

Þegar kemur að því að „sameina“ fjölskyldur líta stjórnvöld hugsanlega á það sem fjölskyldusameiningu þegar barn er sent til fjarskyldra ættingja sem það hefur aldrei hitt, en ekki til foreldra sinna. Dæmi eru um að sumir ættingjar séu óviljugir að krefjast þess að fá börnin til sín, því það byði heim þeirri hættu að innflytjendaeftirlitið færi að kanna þeirra eigin fjölskyldur. Foreldrar eru svo örvæntingarfullir að þeir gefa jafnvel upp á bátinn rétt sinn á hæli til að fá börn sín til sín á nýjan leik.

Kerfi til að hafa uppi á fjölskyldumeðlimum sundraðra fjölskyldna er óþekkt, ef það er yfirhöfuð til staðar. Sérfræðingur sem ég ræddi við óttast að í tilfellum sumra fjölskyldna sé ein einasta ljósmynd hugsanlega einu gögnin sem yfirvöld hafi í höndunum til að sameina þær á ný. Ég vona innilega að þetta sé rangt.

Fólki haldið í fangelsi

Eftir því sem á daginn leið kviknuðu enn fleiri spurningar hjá mér um það hvernig stjórn Trumps hyggst leysa krísuna sem hún hefur skapað við landamærin. Svo síðasti áfangastaður minn þennan dag var Port Isabel fangelsið, sem er um það bil í klukkutíma fjarlægð austur af McAllen. Það er eitt stærsta fangelsið í Texas.

Þjóðaröryggisstofnunin hefur kynnt hluta af áætlun sinni um sameiningu fjölskyldna, meðal annars að Port Isabel verði „miðstöð fjölskyldusameiningar og flutninga fyrir fullorðna sem eru í þeirra haldi.“

„Höfum eitt á hreinu: Port Isabel er ekki sameiningar miðstöð. Það er fangelsi. Fangelsi.“

Það er ekkert óskýrt í þessu. Ég hitti yfirmann fangelsisins. Hann sagði ítrekað að hann hefði ekki pláss fyrir börn, að hann hefði engin úrræði til að sjá fyrir þeim og hefði engar áætlanir um að börn kæmu inn fyrir veggi fangelsisins. Þegar ég krafðist svara um hver áætlunin um sameiningu fjölskyldna eiginlega væri, giskaði hann á að yfirvöld myndu flytja börnin eitthvað, enn sannarlega ekki í sitt fangelsi. Þegar ég spurði hversu langan tíma það myndi taka giskaði hann á vikur, en sagði að það væri yfirvalda að ákveða. Hann sagðist hafa starfi að sinna: Að halda mæðrum og feðrum í haldi þangað til að hann fengi skipanir um að senda þau eitthvert annað. Annað ekki.

Aftur: Þetta er fangelsi, ekki miðstöð sameiningar.

Við fórum um fangelsið. Það er gríðarstórt, fjöldi bygginga einangraðar fjarri mannabyggð. Við fórum ekki í þann hluta sem karlmönnunum er haldið í en konunum er haldið í stórri byggingu fullri af kojum, með steinsteyptu útisvæði. Það er læst, tví-, þrílæst. Háar girðingar girða allt af, með gaddavír efst og við taka aðrar girðingar, einnig með gaddavír efst.

Skelfilegar sögur

Níu mæður voru færðar inn til okkar, konur sem höfðu samþykkt að ræða við okkur. Ég trúi ekki að þær hafi verið sérvaldar fyrir þennan fund því allt sem þær höfðu að segja var skelfilegt. Hver og ein lýsti því hvernig þær hefðu komið yfir landamærin, verið teknar og fluttar í miðstöð þar sem þær voru aðskildar frá börnum sínum. Í öllum tilvikum lugu yfirvöld að þeim um hvert ætti að flytja börnin þeirra. Engin þeirra, utan ein, hafði fengið að ræða við börnin sín eftir að þau voru aðskilin. Og engin þeirra vissi hvar þau voru núna.

„Ég fékk ekki að kveðja, ég fékk aldrei að kveðja hann“

Þegar þau voru aðskilin var flestum mæðranna sagt að börnin myndu koma aftur til þeirra. Einni kvennanna hafði verið haldið í „ísskápnum“, miðstöð sem er kölluð svo því þar er afar kalt. Þegar fulltrúar yfirvalda komu og tóku barnið af henni var henni sagt að það væri einfaldlega of kalt fyrir það og það ætti bara að halda hita á barninu hennar þar til hún yrði flutt annað. Þetta var um miðjan júní. Hún hefur ekki séð barnið sitt síðan.

Ein mæðranna var í haldi með barni sínu. Þau voru sofandi saman á gólfinu í einu búrinu þegar hún var rifin í burtu klukkan þrjú að nóttu. Síðast sá hún sjö ára gamlan son sinn sofandi á steinsteyptu gólfinu. Hún grét og sagði ítrekað: „Ég fékk ekki að kveðja, ég fékk aldrei að kveðja hann.“ Þetta var í byrjun júní og hún hefur ekki séð son sinn síðan.

Jafnvel þó að starfsmenn CBP í miðstöðinni hafi sagt mér að mæður barna með sérþarfir yrðu leystar úr haldi ásamt börnum sínum, hafði ein mæðranna sem ég ræddi við í fangelsinu verið skilin frá barni sínu sem hafði sérþarfir. Hún lýsti barninu sínu, sem hefur vanþroskaða fætur og á afar erfitt með gang. Önnur mæðranna lýsti því að í fangelsinu væri móðir sem hefði afar miklar áhyggjur af barni sínu, sem hefði verið skilið frá henni, sökum þess að barnið væri heyrnarlaust og gæti ekki talað.

Konurnar sem ég hitti voru í áfalli, kjökrandi og sárbændu mig um hjálp. Þær skilja ekki hvað hefur komið fyrir þær og þær grátbáðu um að fá að sameinast börnum sínum.

Þau sem eru í haldi geta hringt símtöl gegn gjaldi en allar eigur þeirra eru gerðar upptækar þegar þau eru hneppt í varðhald. Eina leiðin til þess að verða sér út um peninga er ef einhver getur fært peninga inn á reikninga þeirra. Ég spurði hvort fólk eða líknarfélög gætu lagt fram peninga til að þau gætu hringt í fjölskyldur sínar eða lögfræðinga, en þær neituðu því. Sá sem vildi láta peninga af hendi rakna þyrfti að hafa undir höndum kennitölu hvers eins og einasta sem haldið væri í fangelsinu og yfirvöld væru augljóslega ekki tilbúin til að láta þær upplýsingar af hendi.

Baráttunni fjarri lokið

Þrír ungir lögfræðingar voru í Port Isabel á sama tíma og við. Lögfræðingarnir sögðu okkur að mál umbjóðenda þeirra, fólksins sem þeir hefðu rætt við í fangelsinu, væru sterk og miklar líkur á að það ætti rétt á hæli í Bandaríkjunum. Hins vegar væri ferlið þannig að möguleikinn á hæli fælist í frammistöðu fólks í einu einasta símtali við innflytjendayfirvöld, þar sem fólk þyrfti að færa rök fyrir því af hverju það ætti rétt á fá hæli. Ein fyrsta spurningin sem allar mæður fengju væri: „Hefur þú verið skilin frá barni þínu?“ Fyrir sumar mæðurnar þarf ekki meira til en þessa spurningu svo að þær brotni saman. Lögfræðingarnir óttast að þessar konur séu í svo viðkvæmu ástandi að þær séu alls ekki í standi til að færa fram sannfærandi rök fyrir máli sínu. Þær séu bjargarlausar því þær hafi misst börn sín og vilji ekkert annað en að fá þau til sín á nýjan leik.

Heimsóknin í Port Isabel tók meira en tvo tíma, umtalsvert lengur en þau þrjú korter sem búið var að lofa okkur. Þegar við loks fórum í háttinn þetta kvöld hugsaði ég um nokkuð sem mæðurnar höfðu sagt mér, nokkuð sem á eftir að ásækja mig lengi.

Mæðurnar sögðu að þær heyrðu börn gráta í nóttinni.

Þetta snýst ekki um stjórnmál. Þetta snýst ekki um Demókrata eða Repúblikana. Þetta snýst um manneskjur. Börnum er haldið í búrum, á þessari stundu. Börn eru dreifð um landið allt. Og mæður heyra börnin gráta í myrkri næturinnar.

Ég er enn að melta allt sem ég sá og varð vitni að en ég ég vildi að þið heyrðuð alla söguna. Baráttunni fyrir þessi börn og fjölskyldur þeirra er ekki lokið, því fer fjarri.

 

 

 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Viðskiptaáætlun Carbfix: Földu áform sín fyrir íbúum
1
Rannsókn

Við­skipta­áætl­un Car­bfix: Földu áform sín fyr­ir íbú­um

Fyr­ir­ætlan­ir Car­bfix eru mun um­fangs­meiri en fram hef­ur kom­ið. Stefnt er að því að dæla nið­ur allt að 4,8 millj­ón­um tonna af kol­díoxí­ði (CO2) og fyr­ir­tæk­ið von­ast til þess að velta hátt í þrjú hundruð millj­örð­um á full­um af­köst­um. Það er hærri upp­hæð en stærsta fyr­ir­tæki lands­ins velt­ir í dag. Á með­al við­skipta­vina er fyr­ir­tæki sem framdi glæp gegn mann­kyni og vill dæla nið­ur CO2 á Ís­landi.
Grátbað um myndatöku fyrir barnið sem leiddi í ljós heilaæxli
4
ViðtalMóðursýkiskastið

Grát­bað um mynda­töku fyr­ir barn­ið sem leiddi í ljós heila­æxli

Mán­uð­um sam­an þurfti Hrund Ólafs­dótt­ir að grát­biðja lækni um að senda Sigrúnu, dótt­ur henn­ar, í mynda­töku vegna al­var­legra veik­inda sem voru skil­greind sem mígreni. „Barn­ið bara kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist.“ Þeg­ar hún loks fékk ósk sína upp­fyllta kom í ljós fimm sentí­metra stórt æxli í litla heila Sigrún­ar.
Ríkið kaus að stíga ekki inn í kaupin á ISNIC
6
Viðskipti

Rík­ið kaus að stíga ekki inn í kaup­in á ISNIC

Sjóð­stjóri hjá Stefni seg­ir að samn­ing­ar um kaup sjóðs­ins SÍA IV á meiri­hluta í fé­lag­inu In­ter­net á Ís­landi hf., sem sér um ís­lenska lands­höf­uð­slén­ið og hef­ur greitt rúm­lega einn millj­arð til hlut­hafa sinna frá ár­inu 2011, hafi náðst í sept­em­ber. Rík­is­sjóð­ur hafi svo til­kynnt í des­em­ber að for­kaups­rétt­ur rík­is­ins, sem skrif­að­ur var inn í lög fyr­ir nokkr­um ár­um, yrði ekki nýtt­ur. Verð­ið sem sjóð­ur­inn greið­ir fyr­ir 73 pró­senta hlut í fé­lag­inu fæst ekki upp­gef­ið.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Viðskiptaáætlun Carbfix: Földu áform sín fyrir íbúum
1
Rannsókn

Við­skipta­áætl­un Car­bfix: Földu áform sín fyr­ir íbú­um

Fyr­ir­ætlan­ir Car­bfix eru mun um­fangs­meiri en fram hef­ur kom­ið. Stefnt er að því að dæla nið­ur allt að 4,8 millj­ón­um tonna af kol­díoxí­ði (CO2) og fyr­ir­tæk­ið von­ast til þess að velta hátt í þrjú hundruð millj­örð­um á full­um af­köst­um. Það er hærri upp­hæð en stærsta fyr­ir­tæki lands­ins velt­ir í dag. Á með­al við­skipta­vina er fyr­ir­tæki sem framdi glæp gegn mann­kyni og vill dæla nið­ur CO2 á Ís­landi.

Mest lesið í mánuðinum

Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
1
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
„Þetta er eins og að búa í einbýlishúsi“
3
VettvangurHjólhýsabyggðin

„Þetta er eins og að búa í ein­býl­is­húsi“

Berg­þóra Páls­dótt­ir, Bebba, hef­ur un­un af því að fá gesti til sín í hjól­hýs­ið og finnst þetta svo­lít­ið eins og að búa í ein­býl­is­húsi. Barna­börn­in koma líka í heim­sókn en þau geta ekki far­ið út að leika sér í hjól­hýsa­byggð­inni í Sæv­ar­höfð­an­um: „Þau skilja ekki af hverju við vor­um rek­in úr Laug­ar­daln­um og sett á þenn­an ógeðs­lega stað.“
Innsæi Karenar öskraði: „Það er eitthvað að“
4
ViðtalMóðursýkiskastið

Inn­sæi Kar­en­ar öskr­aði: „Það er eitt­hvað að“

Þeg­ar Kar­en Ösp Frið­riks­dótt­ir lá sár­kval­in á kvenna­deild Land­spít­ala ár­ið 2019 var hún sök­uð um verkjalyfjafíkn. Hún hafði þá ver­ið verkj­uð síð­an hún var níu ára. Geð­lækn­ir leiddi að því lík­um að verk­ir henn­ar tengd­ust gervióléttu. Tveim­ur ár­um síð­ar fékk hún loks stað­fest­ingu á því að hún væri með lík­am­leg­an sjúk­dóm. Hún von­ar að heil­brigðis­kerf­ið og sam­fé­lag­ið læri af henn­ar sögu.
Viðskiptaáætlun Carbfix: Földu áform sín fyrir íbúum
5
Rannsókn

Við­skipta­áætl­un Car­bfix: Földu áform sín fyr­ir íbú­um

Fyr­ir­ætlan­ir Car­bfix eru mun um­fangs­meiri en fram hef­ur kom­ið. Stefnt er að því að dæla nið­ur allt að 4,8 millj­ón­um tonna af kol­díoxí­ði (CO2) og fyr­ir­tæk­ið von­ast til þess að velta hátt í þrjú hundruð millj­örð­um á full­um af­köst­um. Það er hærri upp­hæð en stærsta fyr­ir­tæki lands­ins velt­ir í dag. Á með­al við­skipta­vina er fyr­ir­tæki sem framdi glæp gegn mann­kyni og vill dæla nið­ur CO2 á Ís­landi.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár