Um nokkra hríð hef ég velt fyrir mér margs konar siðferðilegum hugmyndum sem lúta að skyldum okkar, kröfum og öðru sem við getum notað sem ramma um sjálfið eða sem mælistikur frelsis og hafta. Og þessar vangaveltur mínar hafa tekið á sig skýra mynd þegar ég hef fylgst með umræðum um málefni flóttamanna og innflytjenda nú í seinni tíð.
Ég hef notið þeirrar gæfu að fylgjast með umræðunni bæði á Íslandi og á Ítalíu. Svo hef ég náttúrlega skoðað þessa umræðu í öðrum löndum – einkum í Evrópu og Ameríku. En umræðan sú arna hefur meira og minna snúist um rökvillur og hártoganir, þar sem klisjur, plebbamennska og lýðskrum hefur verið sterkasti álitsgjafinn. Fáfræði, græðgi, illmælgi, mannvonska og yfirleitt allir lestir manna birtast og magnast þegar fólki finnst sem óboðinn gestur sé að gera sig breiðan í gættinni. Það sem stendur framförum fyrir þrifum er oftar en ekki sótt í trúarbrögð, fáfræði og ranghugmyndir. Okkur er sagt að allt sé annaðhvort svart eða hvítt. En staðreyndin er þó sú að um er að ræða óendanlega flóru grárra tóna. Við höfum í seinni tíð upplifað það að menn ala á hatri með hræðsluáróðri; bókstaflega kenna ungviði að hata og hatrið er sett fram sem stjórntæki, leið til að afvegaleiða ungmenni í þágu ótta og í þágu þess að kenna að þeir sem ekki eru nákvæmlega einsog við, séu í raun og veru hættulegir.
„En umræðan sú arna hefur meira og minna snúist um rökvillur og hártoganir, þar sem klisjur, plebbamennska og lýðskrum hefur verið sterkasti álitsgjafinn“
Við reisum réttindi okkar og skyldur á rökum og reynum þannig að koma í veg fyrir óæskileg frávik. Reynslan af tilteknum réttindum og skyldum getur þó gefið tilefni til endurskoðunar. Hver endurskoðun hlýtur þó ávallt að snúast um það fyrst og fremst að auka samræmi á milli réttinda og skyldna.
Réttindi og skyldur
Það sem upp úr stendur, er að við viljum sýna umburðarlyndi. En við viljum ekki umbera það að gestir okkar hampi réttindum sínum en láti skyldurnar eiga sig.
Nýlega lokuðu Austurríkismenn nokkrum moskum og ráku úr landi menn sem sagðir eru ota óæskilegum áróðri að fólki í nafni trúar. Hér hefur gestgjafinn ákveðið að koma í veg fyrir að gesturinn vaði um á skítugum skónum. Krafa gestsins er sú, að hann fái að nota eigin trúarskoðanir til að sverta trúarskoðanir gestgjafans. Gesturinn telur siðvit sitt hafið yfir siðvit gestgjafans. Þetta sættir gestgjafinn sig ekki við. Hann er ekki að leggja mat á það hvort ein skoðun sé hinni betri. Hann miðar einungis við stöðu mála einsog hún er á tilteknum stað og á tiltekinni stund. Hann veit að kannski mun hann þurfa að endurskoða sínar reglur og sínar venjur. En þá endurskoðun ætlar hann að reisa á sínum forsendum.
Í Belgíu er algengasta nafn nýbura sótt í arabískan menningarheim.* Evrópskar konur eru uppteknar við að auka frama sinn og þeim er síst umhugað um fjölgun, á meðan systur þeirra frá múslimasamfélögum hafa það markmið að eignast eins mörg börn og frekast er unnt. Í London eru múslímar fjölmennir og hefur fjölgað afar hratt síðustu áratugina. Það sama má segja um margar aðrar borgir í Evrópu.
Ég er ekki að fordæma þessa þróun, einungis að benda á stöðuna og leita leiða til að finna lausnir á vanda sem stöðugt blasir við. Vanda sem er til kominn vegna árekstra ólíkra menningarheima.
Ein menning ekki annarri æðri
Hér kem ég kannski brátt að kjarna pistilsins. En egypskur maður – sem ég ræddi nýverið við – sagði mér nokkrar staðreyndir sem fengu mig til að skoða tengslin á milli gesta og gestgjafa. Hann sagði mér að í sínu heimalandi hefðu nær öll ungmenni klæðst ósköp venjulegum vestrænum klæðnaði í nokkra áratugi og fram yfir 1970. Reyndar er hið sama að segja um Afganistan, Írak og fleiri lönd. En síðan gerðist það meðal Egypta að þeir fóru í stórum stíl að vinna í Sádi-Arabíu og heim á leið héldu þeir með áhrif sem breyttu klæðaburði ungmenna þannig að núna eru margir skólar nánast einsog vestrænt yfirbragð hafi verið þurrkað út. Sömu sögu er að segja frá mörgum öðrum löndum þar sem menn þykjast vera að halda í hefðir sem sagðar eru sóttar í helga ritningu. Þessi maður segir mér að stefna flestra múslímskra ungmenna sem koma til Evrópu sé fyrst og fremst sú að eyða vestrænni menningu; að boða skrumskælda trú sem hefur ekkert með hinn sanna móral múhameðstrúar að gera. Betra líf á betri stað er ekki það sem áhugann vekur. Og það skemmtilega við þau samtöl sem ég hef átt við þennan göfuga mann er, að ég trúi því sem hann segir, vegna þess að maðurinn er fordómalaus, hann er afar vel menntaður og hann gerir sér grein fyrir því að skrumskæld trúarbrögð, hatur og afvegaleidd ungmenni geta ýtt af stað bylgju sem erfitt verður að stöðva. Maður þessi segir mér að verstu afleiðingar ágangsins verði brátt í sjónmáli.
Hér er ég ekki að halda því fram að ein tegund menningar sé hinni æðri. Ég tek einungis upp þráð sem mér þykir æskilegt að rýna í. Og hér langar mig að leyfa lesendum að skoða einfaldar pælingar. En ég vil meina að vangaveltur mínar fari afar nálægt því að vera reistar á siðferðilegum jafningjagrunni.
Samskipti byggð á virðingu
Í byrjun hafði ég einungis í hyggju að setja fram einfalda reglu til að skýra fyrir börnum nokkur hugtök sem hafa með mannleg samskipti að gera. En svo varð mér ljóst að tilgátur mínar mætti setja fram sem einfalda reglu. Regla þessi kallast gestgjafareglan og fjallar um ákjósanlega leið til að skoða þær aðstæður sem við erum í hverju sinni. Hún sækir mátt sinn í aðlögunarhæfni okkar, gagnrýna hugsun og ígrundun viðhorfa. En samtímis er grunnur hennar sóttur í virðingu; leið til að sýna öðrum virðingu, sýna hugmyndum virðingu og síðast en ekki síst, leið til að sýna okkur sjálfum þá virðingu sem við eigum skilið.
„Boð og bönn gestgjafans ber að virða í einu og öllu“
Þegar við skoðum réttindi og skyldur í okkar eigin samfélagi, er kannski ekki nóg að segja sem svo að rétt sé einvörðungu að taka tillit til þess að sinn er siður í landi hverju. Við getum ekki látið þar við sitja. Við höfum ólík viðhorf og getum dregið á eftir okkur langan slóða af hinu og þessu sem við sjálf teljum að við eigum að hafa leyfi til að gera hvar sem við erum. Ég tel þó að krafa okkar til okkar sjálfra ætti fyrst og fremst að felast í þeim grunnþætti sem gestgjafareglan er. En ég held að hægt sé að yfirfæra þá reglu á yfirleitt allt sem í mannlegum samskiptum kann að leynast. Og reglan er þessi: Boð og bönn gestgjafans ber að virða í einu og öllu.
Ég nefni þessa reglu hér og vil að litið sé á hana sem einfalda hugmynd að leið til skoðanaskipta. Hér er gengið útfrá því að reglur gestgjafans séu ófrávíkjanlegar og að gestgjafinn skuli koma fram við gesti sína einsog hann vill að þeir komi fram við hann sjálfan. Og þá held ég að einfaldast sé að tala um tilslökunarleysi þegar kemur að því að framfylgja því sem gestgjafinn hefur ákveðið. Við lítum hvort eð er á margt í okkar kerfi skyldna og krafna sem reglur án frávika.
Ég ætla ekki frekar að fara í saumana á hártogunum eða teygja lopann varðandi mat á frávikum reglunnar. Þess í stað vil ég yfirfæra gestgjafaregluna t.d. á reglur sem innflytjendur eiga að framfylgja. Og hér er nærtækt að tengja umræðuna fordómum eða fordómaleysi sem alltaf kemur upp þegar flóttamenn biðja um hæli eða þegar fólk af erlendum uppruna flytur til Íslands.
Útópía fjölmenningar
Ég hef alla mína tíð lifað við þá bjartsýni, að allir menn geti verið vinir, að öll séum við jafningjar. En hef síðan komist að þeirri niðurstöðu, að það hugsa ekki allir menn einsog ég. Fólk sækir t.d. vitrun sína og vitneskju í trú og kemst að þeirri niðurstöðu að í gegnum sinn guð teljist það öðru fólki æðra. Eða segir að einn guð sé öðrum betri, að siðvenjur - sem eru sagðar komnar frá tilteknum guði - meitlaðar í stein eða skráðar á gulnuð blöð séu æðri þeim venjum sem meðaljón á Íslandi telur réttast að fylgja.
Ég hef lengi predikað þá skoðun mína að allir menn megi hafa sína trú. En ég vil gera þá kröfu að menn láti sér nægja að iðka trú í einrúmi. Trú getur aldrei verið annað en fyrstu persónu upplifun. Og ætti því að vera bundin manni en ekki mönnum. Trú er og verður persónuleg og henni verður aldrei þröngvað upp á fólk nema það taki sjálft við henni. Eða að henni sé otað að fólki í formi laga og reglna, þannig að refsivert getur talist að fara ekki að orðum tiltekinna trúarbragða.
Bönnum geitfórnir og umskurð
Segjum sem svo að við stöndum frammi fyrir þeim vanda að samþykkja eða banna eitthvert atferli eða venju sem tiltekinn innflytjandi vill taka með sér inn í okkar samfélag og inn í okkar menningu. Á hvaða forsendum eða með hvaða hætti getum við leyft eða bannað það sem viðkomandi einstaklingur vill aðhafast? Tökum hér sem dæmi atferli sem eru af trúarlegum forsendum. En fyrst spyrjum við: Hvað gerum við ef fólk gerir kröfu um að fá að klæðast með tilteknum hætti, vill færa fórnir, byggja sér bænahús eða framkvæma eitthvað annað sem það hafði fullt leyfi til að framkvæma í heimalandinu.
Við þurfum ekki að vera fordómafull þótt við segjum sem svo, að við viljum ekki leyfa fólki að byggja nýja tegund bænahúsa á Íslandi. Við getum einfaldlega skákað í skjóli þess að utanaðkomandi leiðir til trúarbragðaiðkunar falli einfaldlega ekki að okkar menningu. Hér er ég ekki að hvetja til eins eða neins. En segi að í krafti gestgjafareglunnar, getum við bannað geitafórnir, umskurð og við getum bannað andlitsblæjur. Allt þetta getum við gert án þess að í banninu séu fólgnir hinir minnstu fordómar. Gestgjafinn hefur reglur og að þeim reglum skal farið. Öll tilslökun eyðir reglunni sem við setjum. Oft þarf enga hleypidóma til að setja mönnum skorður og síst af öllu er verið að fara í manngreinarálit þótt sú krafa sé gerð að gesturinn fari að háttum gestgjafans. Við getum orðað það svo: Það er í lagi að gesturinn hafi sínar skoðanir, hugsi sínar hugsanir, hafi sína trú og þar frameftir götunum. En um leið og hann ætlast til þess að gestgjafinn breyti sínu regluverki til þess að taka tillit til skoðana gestsins, eða ef t.d. trúarskoðanir gestsins eru á skjön við það sem gestgjafanum þykir boðlegt, þá verður að virða skoðanir gestgjafans.
Augljós ávinningur
Ef samfélagssáttmáli eins stangast á við önnur viðhorf eða annan sáttmála, þá hljótum við að sjá ávinning í því að hafa reglu sem vegur og metur hvor sáttmálinn eigi að gilda. Það er ekki hægt að ota tilslökun í allar áttir og það er óásættanlegt að fólk skuli óáreitt grípa til þeirrar einkennilegu varnarræðu að tala um fordóma, forræðishyggju og skoðanakúgun þegar innflytjendum er meinað að halda í sína siði, þ.e.a.s. siði sem þeir taka með sér þegar þeir koma inn í framandi samfélag, einkum þegar viðkomandi samfélag hefur í aldanna rás þróað með sér eða tileinkað sér aðrar og ólíkar venjur. Ef ekki væri stöðug hætta á árekstrum, þá væri eðlilegt að allir færu fram með þann sið sem þá langar að flíka. En samfélög eru flóknari en svo að þau bjóði upp á að reglur gestanna fái að gilda. Ein skýr regla eyðir hér öllum vafa.
Til eru þau samfélög þar sem trúarvitundin lamar allt samfélagið jafnvel í nokkrar vikur. Allt er lokað, allir veitingastaðir og allar verslanir, og þar er það ekki tekið í mál að gestir opni verslanir eða veitingastaði sem opnir eru þegar innfæddir vilja að allt sé lokað. Þetta er birtingarmynd gestgjafareglunnar í hnotskurn. Ef þeir sem af trúarlegum ástæðum banna fólki að neita matar á meðan sól er á lofti, myndu sýna tilslökun og leyfa sumum að sniðganga regluna, þá yrði reglan að engu.
„Ávinningurinn er sá að hver gestur getur gengið að sem vísu að hann muni ekki fá að eyða eða breyta þeim viðhorfum sem gestgjafinn vill halda á lofti“
Gestgjafinn hér að framan, sem vildi hafa gesti sína hvítklædda, getur sagt við þá sem koma í bláum fötum að þeir geti valið að vera hvítklæddir og koma til veislu eða vera í öðrum lit og koma ekki til veislu. Ef gestirnir geta með einhverjum hætti farið að reglum gestgjafans þá skuli hún fá að gilda. Gestgjafinn gæti þess vegna þurft að útvega fatnað fyrir þá sem ekki voru með regluna á hreinu. Og ef þeir neita að klæðast hvítu þá eru þeir ekki velkomnir.
Ef gesturinn þarf nauðsynlega að troða gestgjafanum um tær þá er það á hans eigin kostnað. Gestgjafinn þarf ekki að sætta sig við þá hegðun. Gestgjafinn tekur tillit til gestsins sem manneskju en hörundslitur, kyn, kynhneigð, trúarskoðanir og önnur sérkenni eigi ekki að hafa áhrif á það sem gestgjafinn vill framfylgja. Ég er hér einungis að tala um, að þegar regla gestgjafans er fótum troðin af gestinum, þá er það vilji gestgjafans sem er ríkjandi. Hann bannar ekki gestum sínum að hafa tilteknar skoðanir og hann fordæmir ekki uppruna gestsins. En hann getur dregið línu sem hann vill ekki að gesturinn fari yfir. Línan sú arna segir m.a. að menning sú sem gestgjafinn aðhyllist verði ekki fótum troðin á hans heimili. Ávinningurinn er sá að hver gestur getur gengið að sem vísu að hann muni ekki fá að eyða eða breyta þeim viðhorfum sem gestgjafinn vill halda á lofti. Og eins er hér tryggt að gesturinn njóti virðingar sem manneskja, hafi frelsi til allra athafna nema þeirra sem fara á svig við reglur gestgjafans.
Reglan boðar ekki þjóðernisást eða neitt slíkt. Hún dæmir fólk ekki eftir kyni, trúarskoðunum, þjóðerni, litarhætti, kynhneigð eða neinu slíku. Hún verndar einungis þær hefðir sem eru á heimaslóðum gestgjafans. Þannig er þessi regla leið til að koma í veg fyrir tilslökun sem er oftar en ekki vatn á myllu átaka.
Í glæstu húsi gestgjafans
þú gæsku færð að njóta,
þar réttar eru reglur hans
og rangt er þær að brjóta.
*Athugasemd ritstjórnar: Algengasta nafn nýbura í Belgíu er ekki sótt í arabískan menningarheim. Síðastliðin þrjú ár hefur kvenmannsnafnið Emma verið vinsælasta nafngift nýfæddra stúlkna en nöfnin Lucas og Louis verið mest gefin nýfæddum drengjum.
Athugasemdir