Sumarlokanir munu hafa meiri áhrif á starfsemi Landspítalans í ár en áður og líklegt er að sú þróun haldi áfram næstu ár, að sögn aðstoðarkonu forstjóra Landspítalans. Ástæðan er skortur á hjúkrunarfræðingum, en um 500 hjúkrunarfræðinga vantar til starfa í heildina. Til viðbótar segja á annan tug ljósmæðra upp störfum 1. júlí í kjölfar kjaradeilu, sem getur haft veruleg áhrif á þjónustu við konur sem hana þurfa.
„Við vorum búin að loka talsvert af rúmum áður en til sumarlokana kom, og þá af sömu ástæðu,“ segir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarkona forstjóra Landspítalans. „Heildaráhrifin verða meiri út af því og sömuleiðis verður lokunin lengri en áður.“
Um 1000 hjúkrunarfræðingar á Íslandi starfa við annað en hjúkrun, að sögn Önnu. Að hennar mati eru laun, aðbúnaður og vinnuálag helsta ástæðan fyrir því að hjúkrunarfræðingar hverfa úr stéttinni. „Þetta snýr fyrst og síðast að hjúkrunarfræðingum í vaktavinnu, á bráðalegudeildum og gjörgæslu, þar er erfiðasta starfsemin,“ segir Anna. „Til samanburðar vantar um hundrað þúsund hjúkrunarfræðinga í Bretlandi og milljón í Bandaríkjunum. Þetta er gríðarlega umfangsmikið alþjóðlegt vandamál.“
Aðrar kvennastéttir gætu þróast eins
Kjarasamningar hjúkrunarfræðinga eru bundnir gerðardómi til 2019, en Alþingi setti lög á verkfall þeirra 2015. „Við semjum ekki við starfsmenn okkar um laun, það gerir ríkið, og við höfum mjög takmarkaða getu til að hreyfa okkur innan gerðardómsins,“ segir Anna. „Heilbrigðisráðherra getur að sjálfsögðu verið hluti af lausninni, en hún getur ekki gert neitt á morgun. Það þarf meiriháttar samstarf mennta- og heilbrigðisyfirvalda í því sem snýr að framtíðinni og svo er það á hendi stjórnvalda að semja við þessar stóru kvennastéttir. Við höfum rætt þessi mál við ráðherrann og hún skynjar mjög vel vandann.“
Anna segir að um 1000 hjúkrunarfræðingar búsettir á Íslandi starfi nú við annað en hjúkrun, en alls vinna um 1500 hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum. „Það þarf að huga að því að hjúkrunarfræðingar fari ekki úr stéttinni,“ segir hún. „Skorturinn á þeim er með þeim hætti að við þurfum að loka deildum, en hins vegar eru aðrar stéttir sem er þegar skortur á eða yfirvofandi skortur. Það eru aðrar kvennastéttir eins og sjúkraliðar, geislafræðingar og lífeindafræðingar, en við erum ekki enn að loka út af þeim. Í þeim stéttum er möguleiki að koma í veg fyrir þessa afleitu þróun.“
Þjónustuskerðingin „ófremdarástand“
Við þessar aðstæður bætist að á annan tug ljósmæðra munu segja upp störfum 1. júlí næstkomandi. Flestar eru ljósmæður á meðgöngu- og sængurlegudeild, þar sem konur í áhættumeðgöngu dvelja ásamt konum sem ekki geta útskrifast heim strax að
Athugasemdir