Ráðuneytum og ríkisstofnunum er heimilt að „blokka“ einstaka notendur á samfélagsmiðlum, t.d. Facebook og Twitter, og eyða efni sem telst „óviðurkvæmilegt eða ærumeiðandi“. Þetta kemur fram í svari Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar þingmanns Pírata.
Flest ráðuneyti halda úti Facebook síðum, en sum þeirra einnig Twitter, YouTube eða Instagram síðum. Í svari Katrínar kemur fram að ekki hafi verið settar reglur um notkun stjórnvalda og ríkisstofnana á samfélagsmiðlum. Forsætisráðuneytið hyggist vinna slíkar reglur sem verði tilbúnar í haust.
Einnig kemur fram í svarinu að stjórnvöldum og stofnunum beri ekki skylda til að svara fyrirspurnum sem berast í gegnum samfélagsmiðlana. Þó að stjórnsýslan sé óformbundin í þeim skilningi að almennt séu ekki gerðar kröfur um að erindi berist á tilteknu formi, t.d. skriflega, í bréfpósti eða á sérstöku eyðublaði, þá líti ráðuneytið svo á að Facebook og Twitter síður þess séu ekki formlegur farvegur erinda.
Heimilt að eyða athugasemdum
Í svarinu segir ráðherra að stjórnvöld þurfi að gæta þess að notkun þeirra á samfélagsmiðlum stríði ekki gegn sjónarmiðum um jafnræði borgara, tjáningarfrelsi þeirra, friðhelgi einkalífs og meðalhóf. „Ekki er þó unnt að útiloka að sú staða geti komið upp að stjórnvaldi verði talið rétt að eyða efni, einstökum athugasemdum og ummælum sem sett hafa verið inn á slíkar síður ef efnið telst óviðurkvæmilegt eða ærumeiðandi,“ segir í svarinu. „Við slíkar aðgerðir hvílir sú skylda á stjórnvaldi að gæta varfærni og meðalhófs og beita vægari úrræðum séu þau tæk og leiðbeina aðila.“
Þörf sé á því að stjórnvöld geti gætt velsæmis og siðgæðis á því efni sem sett er inn og það brjóti ekki gegn réttindum annarra. „Ekki er heldur hægt að útiloka, t.d. í framhaldi af ítrekuðum ærumeiðandi ummælum tiltekins einstaklings, að réttmætt geti talist, eftir atvikum að undangenginni málsmeðferð, að honum verði meinað að setja efni á síðu stjórnvalds,“ segir í svarinu.
Trump meinað að „blokka“ Twitter notendur
Í síðustu viku komst alríkisdómstóll í New York að þeirri niðurstöðu að Donald Trump Bandaríkjaforseta væri óheimilt að „blokka“ einstaka notendur á Twitter. Taldi dómstóllinn að Twitter síða forsetans teldist opinber vettvangur skoðanaskipta og því væri það brot á stjórnarskrárvörðu málfrelsi Bandaríkjamanna að meina þeim að tjá sig á síðunni. Töldu viðmælendur New York Times að niðurstaða dómstólsins mundi hafa víðtæk áhrif á kjörna fulltrúa, sem þyrftu að passa sig að „blokka“ ekki notendur og eiga í kjölfarið yfir höfði sér málsókn.
Fjallað er um tjáningarfrelsi í 73. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. „Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða,“ segir þar. „Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.“
Athugasemdir