Eina leið Eyþórs Arnalds í borgarstjórastólinn, ef marka má fyrri yfirlýsingar borgarfulltrúa, er að fá til samstarfs við sig Flokk fólksins og Viðreisn, ásamt Miðflokknum.
Bæði Dagur B. Eggertsson hjá Samfylkingunni, Líf Magneudóttir í Vinstri grænum, Sanna Magdalena Mörtudóttir hjá Sósíalistaflokknum og Dóra Björt Guðjónsdóttir hjá Pírötum hafa útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.
Eina meirihlutamunstrið sem verður til þess að Eyþór Arnalds verði borgarstjóri er að Sjálfstæðisflokkurinn, með 8 borgarfulltrúa, fái til samstarfs við sig tvo borgarfulltrúa Viðreisnar, Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur og Pawel Bartoszek, og Kolbrúnu Baldursdóttur hjá Flokki fólksins, ásamt Vigdísi Hauksdóttur í Miðflokknum. Þannig næðist naumasti möguleik meirihluti, með 12 af 23 borgarfulltrúum.
Kolbrún Baldursdóttir, oddviti og borgarfulltrúi Flokks fólksins, starfaði áður innan Sjálfstæðisflokksins. Hún gaf kost á sér í prófkjörum flokksins árin 2006 og 2009. Á kynningarfundi Flokks fólksins í apríl sagðist hún ekki eiga samleið með Sjálfstæðisflokknum lengur, af málefnalegum ástæðum, en kvaðst ekki útiloka samstarf með flokknum eftir kosningar.
Pawel Bartoszek var áður virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins, en lýsti því yfir í nótt að Viðreisn ætti meira sameiginlegt með fráfarandi borgarstjórnarmeirihluta í skipulagsmálum en í atvinnumálum. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir hefur verið formaður Félags kvenna í atvinnulífinu um árabil og hefur starfað hjá Reykjavíkurborg, meðal annars sem framkvæmdastjóri þjónustusviðs.
Vigdís Hauksdóttir í Miðflokknum gaf til kynna í nótt að hún væri opin fyrir samstarfi við alla. Fráfarandi meirihlutaflokkar hafa hins vegar útilokað samstarf við Miðflokkinn.
Til þess að verða borgarstjóri þarf Eyþór Arnalds að fá alla þessa aðila til samstarfs við sig, og fyrst og fremst treysta á að Viðreisn velji samstarf með honum frekar en Samfylkingu, Vinstri grænum og Pírötum. Fulltrúar Viðreisnar hafa vísað í að málefnin munu ráða þar för.
„Þetta er mjög opin staða,“ segir Þórdís Lóa í samtali við Fréttablaðið í morgun. „Okkar stefna er mjög skýr og var mjög ítarleg eins og fólk gat séð. Það er mjög margt sem við eigum sameiginlegt með núverandi meirihluta. Við vorum mjög afdráttarlaus í afstöðu okkar til Borgarlínu og því að gefa umferðinni greiðari leið í gegnum stokka og svoleiðis.“
Athugasemdir