Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata og Hildur Björnsdóttir, sem skipar annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, tókust hart á um borgarstjórnarmálin í viðtali í þættinum Harmageddon á útvarpsstöðinni X-inu í gær.
Hildur gagnrýndi rekstur borgarinnar, en Dóra Björt svaraði á þá leið að skuldir sveitarfélaga undir stjórn Sjálfstæðisflokksins væru hlutfallslega meiri heldur en skuldir Reykjavíkurborgar þótt borgin stæði betur að vígi í velferðarmálum.
Hildur sagðist ekki getað tekið undir þetta og vildi einnig fá að vita hvað Dóra Björt ætti við þegar hún segði að það væri ekki hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum fyrr en hann tæki til hjá sér.
Hún fékk þau svör að það þyrfti ekki að fara langt aftur í tímann til að sjá hvaða „rugl hafi verið í gangi“ þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefði stjórnað borginni.
„Það er algjörlega rangt að halda því fram og þurfa að sitja alltaf undir því að Sjálfstæðisflokkurinn sé einhver spillingarflokkur,“ svaraði Hildur að bragði.
Þess má geta að Sjálfstæðisflokkurinn sat síðast í borgarstjórnarmeirihluta meirihluta á kjörtímabilinu 2006 til 2010, en tíð stjórnarslit einkenndu þann tíma.
Aðspurð hvers konar tiltekt Píratar kölluðu eftir nefndi Dóra Björt akstursgreiðslumál þingmanna, „Bragamálið“ og Panamaskjölin sem dæmi um spillingarmál Sjálfstæðisflokksins, auk ótrúverðugs málflutnings þar sem flokkurinn hefði leyft sér að fara frjálslega með staðreyndir, til dæmis varðandi rekstur borgarinnar.
Hún sagði traust nauðsynlegt í meirihlutasamstarfi og þeir sem segðu ekki satt í kosningabaráttu væru ótrúverðugir. Þar nefndi hún ólögleg kosningaloforð Eyþórs Arnalds sem dæmi. Hildur sagðist ekki sjá betur en hún væri sjálf að segja ósatt og að framsetningin væri óheiðarleg.
Athugasemdir