Sjálfstæðisflokkur mælist með mestan stuðning flokka á landsvísu samkvæmt könnun MMR en tæplega 24 prósent aðspurðra sögðust myndu styðja flokkinn ef gengið yrði til Alþingiskosninga nú. Samfylkingin mælist næst stærsti flokkur landsins en sáralitlar breytingar eru á fylgi flokka milli kannana.
Könnunin var gerð dagana 16. til 22. maí. Alls sögðust 23,7 prósent aðspurðra styðja Sjálfstæðisflokkinn, sem er tæpu prósentustigi lægra en í síðustu könnun sem birt var 2. maí síðastliðinn og 1,5 prósentustigum lægra en í síðustu þingkosningum. Samfylkingin mælist með stuðning 14,6 prósent aðspurðra, sem er nálega sami stuðningur og í síðustu könnun. Flokkurinn fékk 12,1 prósent atkvæða í kosningunum. Píratar eru síðan þriðji stærsti flokkur landsins, mælast með stuðning 14,1 prósents aðspurðra. Það er rúmu prósentustigi hærra en í síðustu könnun og verulega mikið meira en í kosningunum síðustu þar sem flokkurinn fékk 9,2 prósent atkvæða.
Vinstri græn tapa fylgi milli kannana og mælast nú með 12 prósenta stuðning en mældust með 13,7 prósent í síðustu könnun. Flokkurinn heldur því áfram að tapa fylgi frá kosningum en þá hlaut hann 16,9 prósent atkvæða. Framsóknarflokkurinn bætir hins vegar við sig frá síðustu könnun og mælist nú með 10,1 prósentu fylgi. Það er lítillega minna en flokkurinn fékk í kosningunum, þá hlaut flokkurinn 10,7 prósent atkvæða, en í síðustu könnun sögðust 8,2 prósent aðspurðra styðja flokkinn.
Ríkisstjórnarflokkarnir þrír mælast því samanlagt með 45,8 prósenta fylgi en fengu samanlagt 52,8 prósent í kosningunum. Fylgistap Vinstri grænna vegur þar þyngst. Einnig var spurt hvort fólk styddi ríksstjórnina og dalar stuðningur við hana milli mælinga. Stuðningurinn er nú kominn undir 50 prósent en 49,8 prósent sögðust styðja stjórnina borið saman við 52,8 prósent í könnuninni 2. maí.
Fylgi Miðflokksins mælist nú 9,8 prósent borið saman við 10,3 prósent í síðustu könnun. Flokkurinn hlaut 10,9 prósent í kosningunum. Viðreisn mælist nú með 7,1 prósenta fylgi en mældist síðast með 7,6 prósent. Flokkurinn fékk 6,7 prósent atkvæða í kosningunum. Fylgi við Flokk fólksins mælist nú 5,6 prósent en mældist síðast 5,8 prósent. Í kosningunum hlaut flokkurinn 6,9 prósent atkvæða. Aðrir flokkar mælast samanlagt með stuðning 3 prósenta aðspurðra.
Athugasemdir