Ég hef lengi ætlað mér að heimsækja Ísrael og Palestínu.
Ástæðan liggur fyrst og fremst í sögunni.
Ég hef í áratugi verið upptekinn af Biblíusögunum í mjög víðri merkingu og til dæmis búið til ótal útvarpsþætti og skrifað enn fleiri greinar byggðar á efni Biblíunnar, bæði Gamla testamentisins og þess Nýja.
Þessi áhugi er ekki trúarlegur, enda em ek trúlaus maður, heldur er bara þvílíka dramatík að finna í hinum gömlu frásögnum að það hálfa væri nóg.
Líka í guðspjöllunum, þótt enginn sé í þeim bardaginn, eins og kerlingin sagði.
Í vetur ákvað ég loks að láta verða af því að skoða landið lítillega. Setti saman ferð sem snerist aðallega um að skoða sögustaði, ekki síst frá dögum Jesú frá Nasaret og glímu hans við yfirvöld, bæði Gyðinga og Rómverja.
Rómverjar eru náttúrlega hitt aðal áhugamálið mitt í sögunni!
Í þetta sinn stóð ekki til að kynna sér pólitískt ástand í landinu. Sú saga öll er þyngri en tárum taki, en ég ætlaði að reyna að leiða hana að mestu hjá mér í þetta sinn.
Það var þó auðvitað ekki hægt. Daginn áður en ég og Vera dóttir mín flugum til Ísraels drápu ísraelskir hermenn tugi palestínskra mótmælenda á Gaza, en framferði Ísraelsmanna á Gaza er og hefur verið ófyrirgefanlegt.
Hvað sem líður hryðjuverkum Palestínumanna sem vissulega eru hörmuleg líka.
Það var skrýtin tilhugsun að ætla að lenda í þessu landi og skoða 2.000 ára gamla sögustaði þegar ástandið var svona.
En ég hlaut samt að halda mínu striki og ætla að segja frá ferðinni í nokkrum pistlum hér á næstunni.
Athugið að þetta eru ferðapistlar og snúast ekki um pólitík eða ástandið í landinu.
Þótt auðvitað verði ekki hjá því komist að nefna það reglulega. Þannig eru hlutirnir bara í Ísrael og Palestínu.
Leigubílstjórinn sem keyrði okkur inn til Tel Aviv frá flugvellinum var kátur karl og kræfur og hafði mjög gaman af því að við skyldum vera frá Íslandi. Það fannst eiginlega öllum sem við hittum, bæði Ísraelsmönnum og Palestínumönnum, og ég held svei mér þá að flestir hafi meint það.
Og allir virtust hafa á hreinu að á Íslandi byggju rúmlega 300.000 manns.
Kannski alltof kalt „to make more babies,“ hugleiddi leigubílstjórinn milli þess sem hann reifst við hina bílstjórana á hraðbrautinni eða hafði hinn ógurlegasta munnsöfnuð um leiðsögutölvuna, sem virtist ekkert vita í hausinn á sér.
En hann skilaði okkur loks á áfangastað og morguninn eftir uppgötvuðum við að gististaðurinn var við hliðina á Carmel-markaðnum svokallaða í Tel Aviv. Sá skiptist nokkurn veginn til hálfs milli matar og allskonar varnings annars.
Og þá uppgötvaði ég nokkuð sem er líklega ein af ástæðunum fyrir því af hverju barist hefur verið svo oft og af svo mikilli hörku um Palestínu síðustu árþúsundin.
Ég hef farið um matarmarkaði í ýmsum löndum allt frá Grikklandi til Úsbekistans en aldrei séð jafn blómlega ávexti og grænmeti.
Þótt við sjáum þetta svæði oft fyrir okkur sem leirlita eyðimörk er jarðvegurinn greinilega einkar frjósamur, vægast sagt.
Enda segist Jave í 2. Mósebók ætla að leiða sína guðs útvöldu þjóð „til þess lands sem er gott og víðlent, til þess lands sem flýtur í mjólk og hunangi“.
Og um það hefur styrinn staðið síðan.
Athugasemdir