Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði og formaður bæjarráðs, var til viðtals í kynningarblaði Fréttablaðsins um Hafnarfjörð á þriðjudag. Umfjöllunin var keypt af Einari Bárðarsyni, samskiptastjóra Hafnarfjarðar, og kostaði bæinn 250 þúsund krónur.
Gunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, gagnrýnir kaupin og spyr hvort eðlilegt sé að slík umfjöllun sé keypt rétt fyrir kosningar. „Mér finnst galið að bærinn sé að kaupa umfjöllun með einum frambjóðanda. Það er ljóst að einhver þarf að svara fyrir þetta,“ segir hann.
Í umfjölluninni kemur fram hve ánægðir Hafnfirðingar eru með sveitarfélagið sitt, hve líflegur bærinn hafi orðið á síðustu misserum og að verslun blómstri. Þá er fjallað um framtíðarsýn Rósu og rætt við hana um nýja Hraunahverfið, svokallað „fimm mínútna hverfi“, sem áætlað er að byggist á næstu tíu til tuttugu árum.
Ákörðunina um að kaupa umfjöllunina tók Einar Bárðarson en hann var ráðinn samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar tímabundið frá 1. ágúst í fyrra fram til 31. ágúst í ár. Einar hefur frá sextán ára aldri verið virkur í störfum Sjálfstæðisflokksins, meðal annars átt sæti í flokksráði og miðstjórn flokksins ásamt því að hann var ráðinn aðstoðarmaður Kjartans Ólafssonar, þáverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins, árið 2008.
Málið verður tekið fyrir á fundi bæjarráðs á morgun og að sögn Gunnars Axels hefur minnihlutinn kallað eftir frekari upplýsingum um útgjöld bæjarins til miðlunar.
Athugasemdir