Ætli Ísland sér að standa við skuldbindingar Parísarsáttmálans verður að bregðast við af mikilli festu. Draga þarf úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og ein áhrifaríkasta leiðin í þeim efnum er orkuskipti í samgöngum. Til þess að slík orkuskipti séu möguleg þarf að skapa aðstæður til þess að almenningur geti skipt út bílum sem brenna jarðefnaeldsneyti yfir í bíla sem ekki menga. Þar er einkum horft til rafvæðingar bílaflotans en sérfræðingar segja að forsenda þess að slíkt sé mögulegt sé að almenningur geti hlaðið bíla sína heima hjá sér. Sem stendur er ekki skylt að huga að tengingum fyrir rafhleðslustöðvar við byggingu húsnæðis en líkur eru til að breyting verði þar á.
Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá því í febrúar 2017 má gera ráð fyrir því losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi verði, að óbreyttu, á bilinu 53 til 99 prósent meiri árið 2030 heldur en hún var árið 1990. Skuldbindingar Íslands vegna Parísarsáttmálans eru þær að árið 2030 skuli Ísland, í samfloti með Noregi og Evrópusambandinu, hafa dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent miðað við losunina árið 1990.
Orkuskipti í samgöngum lykilatriði
Um þessar mundir er unnið að aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og samkvæmt frétt á vef stjórnarráðsins frá 30. mars síðastliðnum átti áætlunin að liggja fyrir nú á vormánuðum. Hún hefur þó ekki enn verið kynnt. Ljóst má þó vera að orkuskipti í samgöngum eru einn lykilþátturinn í því hvernig mögulegt verður að uppfylla skuldbindingar Íslands.
Drög að breytingu á byggingarreglugerð voru lögð fram til umsagnar síðastliðinn miðvikudag, 9. maí. Í drögunum er gert ráð fyrir breytingum á reglugerðinni er snúa að orkuskiptum í samgöngum. Breytingarnar varða rafbílahleðslur en verði drögin samþykkt óbreytt þýðir það að í nýbyggingum og við endurbyggingu húsa skuli gert ráð fyrir tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla við hvert bílastæði. Þá segir einnig að hugað skuli að tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla við byggingar og endurbyggingar atvinnuhúsnæðis.
Þróunin mjög hröð
Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, segir það hafa legið fyrir um langa hríð að vilji væri fyrir því innan umhverfis- og samgönguráðuneytisins að skerpa á ákvæðum byggingarreglugerðar hvað þetta varðar. Vísar Björn þar til þess að á síðasta ári, í júlí 2017, voru lögð fram drög að breytingu á byggingareglugerð til umsagnar á heimasíðu ráðuneytisins sem sneru að viðlíka ákvæðum. Þar var hins vegar um almennara orðalag að ræða og að sumu leyti veikara. Breytingin þá var á þá leið að í nýbyggingum og við endurbyggingu skyldi gera ráð fyrir tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla en ekki tiltekið að slíkt væri skylda við hvert bílastæði. Vegna ýmissa ástæðna, stjórnarslita og kosninga þar á meðal, dagaði sú reglugerðarbreyting uppi og nú hafa því verið lögð fram ný drög, sem fyrr segir.
Athugasemdir