Gleymda stríðið í Jemen er einhver hryggilegasti atburður samtímans. Valdabaráttan á þessu horni Arabíuskaga skiptir okkur hér á Vesturlöndum litlu máli og þess vegna vekur stríðið þarna ekki athygli hér um slóðir.
Og á meðan þjást börnin í þessu hrjáða landi.
Þau eru svipt æsku sinni, sakleysi, öryggi, ættingjum, heilsu andlegri sem líkamlegri og oft lífinu sjálfu.
Það var eitt af síðustu verkum móður minnar sálugu að virkja Fatímusjóðinn, sem hún stofnaði, í þágu jemenskra barna.
Nú er Fatímusjóðurinn farinn á kreik aftur.
Söfnun er hafin í þágu barnanna í Jemen og verður söfnunarfénu útdeilt af barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, sem Fatímusjóðurinn er í samstarfi við.
Hver einasta króna fer í beint hjálparstarf við jemensku börnin, umsýslukostnaður er enginn.
Til að styrkja söfnunina má til dæmis senda SMS í númerið 1900, merkt JEMEN, og þá leggjast 1.900 krónur inn á söfnunarreikninginn.
Einnig má leggja beint inn á reikning Fatímusjóðsins: 0512-04-250461, kt. 680808-0580.
Síðast en ekki síst ætlar Hrafn bróðir minn að tefla fjöltefli til styrktar sjóðnum þann 11. maí næstkomandi. Allar upplýsingar þar að lútandi er að finna á Facebook-síðunni hans, sem er öllum opin.
Þann 11. maí geta allir komið í pakkhús Hróksins við höfnina og teflt og lagt fram eitthvað í söfnunina.
Einnig hafa mörg fyrirtæki farið þá leið að leggja fram ákveðna upphæð með hverri skák.
Það er allt hægt.
Nema láta stríðið í Jemen afskiptalaust.
Það er ekki hægt lengur.
Athugasemdir