Barnaverndarstofa hefur afhent RÚV og Stundinni hundruð blaðsíðna af gögnum, meðal annars um einstök barnaverndarmál og umgengnisdeilur foreldra, með nöfnum og ýmsum persónugreinanlegum atriðum afmáðum.
Í gagnapakkanum er til að mynda að finna fundargerð af fundi Barnaverndarstofu um mál tveggja stúlkna sem hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Mörg málanna sem fjallað er um tengjast hins vegar ekki kvörtunum barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu til velferðarráðuneytisins.
Af þessu má ráða að Barnaverndarstofa túlki upplýsingalögin með miklu frjálslegri hætti heldur en velferðarráðuneytið sem hefur neitað að afhenda gögn um rannsókn á kvörtunum barnaverndarnefnda undan Barnaverndarstofu til ráðuneytisins, meðal annars á þeim grundvelli að kvartanirnar varði „tiltekin einstaklingsmál á sviði barnaverndar“.
Telur ráðuneytið að í minnisblöðum sem tekin voru saman komi fram „umfjöllun um viðkvæm gögn sem óheimilt er að veita almenningi aðgang að á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga“. Samkvæmt umræddu lagaákvæði er óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Ráðuneytið hefur vísað til greinargerðar sem fylgdi frumvarpi til upplýsingalaga á sínum tíma, en þar kom fram að taka yrði mið af því við afhendingu gagna hvort upplýsingar væru „samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna“. Að mati velferðarráðuneytisins eru gögnin svo viðkvæm að þingmenn mega einungis sjá þau í lokaðri skjalageymslu á Alþingi og er óheimilt að tjá sig um efni þeirra. Þá var ákveðið að nefndarfundur velferðarnefndar með Braga Guðbrandssyni yrði lokaður í ljósi þess að þar kynni umræðan að hafa snertifleti við viðkvæm barnaverndarmál.
Gögnin sem Barnaverndarstofa hefur afhent Stundinni og RÚV voru tekin saman vegna kvartana barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu til velferðar-ráðuneytisins. Þar er að finna viðbrögð við ásökunum nefndanna og málsvörn Braga Guðbrandssonar vegna ávirðinga sem bornar hafa veirð á hann, en jafnframt ýmis athugasemdabréf til barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar sem varða önnur mál en fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.
Athugasemdir