Laun forstjóra Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúss, hækkuðu um 20% á svipuðum tíma og starfsmönnum var gert að taka á sig launalækkun. „Það eina sem ég get sagt er að þetta er siðlaust og svívirðilegt,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Starfsmenn höfðu leitað til stéttarfélagsins vegna málsins, en lítið var hægt að gera.
Stjórn Hörpu hækkaði laun forstjórans Svanhildar Konráðsdóttur um 20% á síðasta ári eftir að launamál hennar voru flutt undan kjararáði. Laun hennar eru nú 1.567 þúsund krónur á mánuði. Um áramótin voru laun þjónustufulltrúa lækkuð verulega á grundvelli nýrra samninga. Einn þjónustufulltrúi sagði í viðtali við Fréttablaðið að hann hefði sagt upp störfum þegar launahækkun forstjórans varð opinber.
„Það er í sjálfu sér ekkert sem bannar þessum fyrirtækjum að haga sér svona,“ segir Ragnar. „Að segja upp fólki og ráða það aftur á öðrum kjörum. En þetta er svo yfirgengilega siðlaust að það hálfa væri nóg, sérstaklega í ljósi þess að forstjórinn er hækkaður um 20% eða svo. Ef fyrirtæki býður starfsmönnum að ganga aftur inn í sömu störf á lægra kaupi, þá svo lengi sem kaupið er ekki lægra en kjarasamningar kveða á um er lítið sem við getum gert.“
„Verðlauna forstjórann fyrir að ná niður launakostnaði“
Ragnar segir að málið hafi komið inn á borð VR á sínum tíma og athugasemdir hafi verið gerðar við nýju samninga starfsmannanna. „En þetta mál allt saman er með þvílíkum eindæmum og ólíkindum að það er alveg ótrúlegt að stjórnendur og stjórnin hagi sér svona að verðlauna forstjórann fyrir að ná niður launakostnaði með þessum hætti,“ segir Ragnar.
Töluvert hefur verið fjallað um launahækkanir forstjóra undanfarið, bæði hjá hinu opinbera í gegnum kjararáð og hjá einkafyrirtækjum. Ragnar segir málefni Hörpu vera lýsandi fyrir þetta ástand. „Þegar kaupaukarnir voru greiddir út í N1, þá voru þeir tengdir afkomu félagsins, þannig að þeir fá kaupaukagreiðslur og bónusa fyrir að halda kaupi niðri og álagningu uppi,“ segir Ragnar. „Þarna sé ég tækifæri fyrir að setja eitthvað regluverk, því það er allt í lagi að borga bónusa og kaupauka svo lengi sem þeir nái yfir alla. Þannig er það víða í fyrirtækjum í Skandinavíu að allir njóti ágóðans, en ekki bara örfáir.“
Athugasemdir