Þingmenn velferðarnefndar fá að skoða gögn um niðurstöður velferðarráðuneytisins í málum er varða umkvartanir barnaverndarnefnda vegna samskipta við Barnaverndarstofu í skjalageymslu á nefndasviði Alþingis. Þeim er óheimilt að afrita gögnin með neinum hætti og eru bundnir ströngum trúnaði. Samkvæmt heimildum Stundarinnar var nefndinni tilkynnt um þetta á þriðjudag en um er að ræða sömu gögn og Stundin hefur óskað eftir vegna ítarlegrar umfjöllunar sem birtist í blaðinu sem kemur út á morgun.
Þann 16. mars síðastliðinn synjaði velferðarráðuneytið upplýsingabeiðni Stundarinnar er laut að niðurstöðum ráðuneytisins í málum barnaverndarnefnda er kvartað höfðu undan afskiptum Braga Guðbrandssonar hjá Barnaverndarstofu af einstökum málum.
Stundin kærði synjun ráðuneytisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál þar sem málið er nú til meðferðar. Í umsögn ráðuneytisins til úrskurðarnefndar vegna kærunnar er meðal annars vísað til 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga um að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna hins opinbera taki ekki til „gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti“. Fram kemur að það sé í ljósi þessa ákvæðis sem ráðuneytið telji sér ekki skylt að afhenda gögn um niðurstöður ráðuneytisins með persónugreinanlegum upplýsingum afmáðum. Af þessu má skilja að tilgangurinn sé sá að vernda friðhelgi Braga Guðbrandssonar sem opinbers starfsmanns, en sem kunnugt er hefur ríkisstjórn Íslands tilnefnt hann sem frambjóðanda Íslands til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.
Í umræðum um umkvartanir barnaverndarnefndanna hefur Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra fullyrt að forstjóri Barnaverndarstofu hafi ekki gerst sekur um brot í starfi. Ráðuneytið neitar hins vegar að afhenda ópersónugreinanleg gögn um hvernig komist var að þeirri niðurstöðu; hvað var hæft og hvað ekki í athugasemdum þeirra þriggja barnaverndarnefnda sem báru forstjóra Barnaverndarstofu þungum sökum.
Hingað til hefur ráðuneytið ekki sýnt Alþingi gögnin en nú hefur þingmönnum verið gert kleift að skoða upplýsingarnar í því sem stundum hefur verið kallað „leyniherbergið“ á Alþingi í opinberri umræðu og í fjölmiðlum. Óskaði velferðarnefnd gögnunum í lok mars en samkvæmt þingskaparlögum ber stjórnvaldi að verða við upplýsingabeiðni nefndar innan sjö daga frá móttöku beiðninnar. Gögnin bárust fyrst nú í vikunni.
Athugasemdir