Björn Ingi Hrafnsson athafnamaður og fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins er ógjaldfær eftir þrjú árangurslaus fjárnám Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Kröfuhöfum er nú heimilt að krefjast gjaldþrotaskipta í persónulegu búi Björns Inga.
Fyrir áramót var Pressan ehf., hluti af fjölmiðlaveldi Björns Inga, tekin til gjaldþrotaskipta. Lífeyrissjóður Vestmannaeyja lagði fram gjaldþrotabeiðni vegna ógreiddra iðgjalda starfsmanns upp á rúmlega 2,8 milljónir króna. Miklar deilur stóðu yfir vegna félagsins á síðasta ári. Félag tengt Róberti Wessmann, Dalurinn ehf., setti tugmilljóna króna hlutafé inn í Pressuna ehf. fyrr á árinu en stjórn Pressunnar ehf. ákvað eftir það að selja allar helstu eignir félagsins út úr því og til fyrirtækisins Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. sem lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson fer fyrir. Þetta var gert án vitneskju Dalsins ehf. og þýddi í reynd að Pressan ehf. var búin að selja þær eignir sem Dalurinn ehf. var nýbúinn að kaupa í.
Árni Harðarson, forsvarsmaður Dalsins ehf., sagði í tilkynningu 20. febrúar að Björn Ingi hefði hótað sér og boðist til að greiða sex milljóna króna skuldir með úttektarheimildum á steikum á Argentínu steikhúsi, sem hann eignaðist í haust. Aðstandendur Dalsins hafa kært Björn Inga fyrir fjárdrátt. Hann lýsti því yfir í febrúar að hann hefði kært þá á móti fyrir fjársvik.
Er enn skráður fyrir Argentínu
Björn Ingi er enn prókúruhafi og stjórnarmaður BOS ehf. sem rekur Argentínu steikhús, samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjaskrá. Í viðtali við Fréttablaðið fyrir helgi á fimmtudag sagðist Björn Ingi ekki vera með félagið lengur. Árangurslaust fjárnám var gert í félaginu í febrúar, en lífeyrissjóðir höfðu sent greiðsluáskoranir vegna ógreiddra iðgjalda tveimur mánuðum eftir að BOS tók við rekstrinum í haust.
Ómar Freyr Birgisson, fyrrum yfirþjónn á Argentínu, segir félagið hafa almennt greitt laun of seint og að hann eigi enn inni ógreidd laun síðan hann hætti um áramótin. Hefur hann vísað málinu til Matvæla- og veitingafélags Íslands (MATVÍS).
Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður MATVÍS, staðfestir að félaginu hafi borist erindi vegna vangreiddra launa starfsmanna Argentínu og unnið sé að málinu í samstarfi við Eflingu stéttarfélag. „Það voru ekki greidd út laun í lokin og við erum að skoða hvort það sé eitthvað fleira sem hangir á spítunni,“ segir Óskar.
Samkvæmt tilkynningu frá Argentínu á Facebook síðu steikhússins frá 5. apríl sprakk hitavatnslögn í húsnæðinu og þurfa allar lagnir hússins að vera yfirfarnar og endurnýjaðar. Tilkynnt verði hvenær framkvæmdum lýkur og staðurinn opnar aftur. Jafnframt er tekið fram að gjafabréf sem renni út á þeim tíma verði framlengd.
Athugasemdir