„Án þeirra hefði kannski annar tvíburinn ekki lifað þetta af“
„Ég er ofboðslega þakklát þeim ljósmæðrum sem aðstoðuðu mig við að koma tvíburunum okkar hjóna í heiminn, ég á þeim allt að þakka. Fagleg vinnubrögð alla leið! Þær létu mér líða vel þrátt fyrir mikla óvissu um hvað ég væri að fara út í og höfðu þannig viðmót að ég gat lagt allt mitt traust á þær. Þetta var ekki auðvelt því það þurfti stöðugt að vera að meta lífsmörk beggja strákanna á sama tíma og þær voru að reyna að koma öðrum þeirra út, en þeim tókst líka, á sama tíma, að hugsa um mína líðan, láta mér líða vel og finna öryggi. Þetta varð til þess að þegar það þurfti að kalla rauðan keisara og hlaupa með mig eins hratt og fætur toguðu niður á skurðdeild sjúkrahússins á Akureyri, þá gat ég lokað augunum og enn og aftur lagt allt mitt traust á fagfólkið, að lífi stráksins sem var í hættu yrði bjargað. Það tókst og við fjölskyldan gengum út af sjúkrahúsinu viku seinna með fullkomna tvíbura, búin að fá áfallahjálp og faglega ráðgjöf varðandi það hvernig fæðingin endaði og hvers vegna, búin að fá aðstoð og ráðgjöf varðandi brjóstagjöf, sem gekk erfiðlega í byrjun, en þökk sé þeim þá náði ég að hafa báða á brjósti í ár og búin að ná mér að mestu líkamlega eftir átökin.
Ég á bara ekki orð til að lýsa þakklæti mínu, án þeirra hefði kannski annar tvíburinn ekki lifað þetta af.“
- Lísbet Reykjalín
„Studdu mig andlega þar til kom að fæðingu“
„Þremur vikum sirka fyrir settan dag hjá mér kemur í ljós að barnið er með sjúkdóm sem kallast diaphragm hernia. Öll líffæri og þarmar voru uppi í brjóstholi og hafði aðeins annað lungað náð að þroskast. Við tók mjög erfiður tími þar sem vitað var að barnið þyrfti strax að fara í aðgerð og yrði það tvísýnt. Voru það ljósmæðurnar sem studdu mig andlega þar til kom að fæðingu. Þann 2. nóvember 2003 eignast ég frumburð minn, dásamlega stúlku sem stóð sig svo eins og hetja og plummaði sig.“
- Jóhanna Villimey Jónsdóttir
Tárast við tilhugsunina
„Ég á tvær dætur fæddar 2014 og 2016. Í bæði skiptin fór ég í gegnum fjórar ljósmæðravaktir og endaði í bráðakeisara. Það var lífsreynsla út af fyrir sig en allan tímann var ég róleg, enda vissi ég að ég væri í öruggum höndum. Þessar ljósmæður sem önnuðust mig voru hver annarri betri.
Að öðrum ólöstum, stóðu þær Stella I. Steinþórsdóttir og Ingibjörg Ýr Óskarsdóttir upp úr.
Stella sat yfir mér þegar ég átti eldri dóttur mína. Ég tárast þegar ég hugsa til þess hvernig hún lagði sig alla fram og veitti mér stuðning og klappaði mér á kinnina og hvatti mig áfram þegar ég var alveg við það að bugast.
Ingibjörg Ýr var svo með mér þegar ég átti yngri dóttur mína, en hún kom á vaktina eins og ferskur andblær. Hún, eins og Stella, vildi allt fyrir mig gera og ég man sérstaklega eftir einu atviki þegar hún spyr mig hvort ég vilji ekki fá smá fótanudd. Ég átti ekki til orð, þetta kom mér svo á óvart. Hún sem hafði meira en nóg að gera setti rólega tónlist á og nuddaði á mér fæturna. Ingibjörg annaðist mig svo í heimaþjónustunni og ég sannarlega hlakkaði til að fá hana í hvert sinn.“
- Ástríður Viðarsdóttir
„Þær björguðu lífi mínu“
„Stuttu eftir að fullkomna litla stúlkan mín kom í heiminn byrjaði að blæða ALLsvakalega. Herbergið fylltist af ljósmæðrum á örskotsstundu sem héldu mér niðri á meðan þær björguðu lífi mínu. Hnefi inn í legið og hendi á móti til að örva legið til að dragast saman. Verkjalyfjalaust er þetta ÓGEÐSLEGA vont. 100× verra en hríðir!
Á meðan ég fjaraði út af blóðleysi og þreytu, kvaddi fjölskyldu mína í huganum, fékk ég skyndilega kinnhest frá einni ljósmóður. Hún sagði mér að minn tími væri ekki kominn og að þær væru að ná mér til baka. Við að heyra það efldist ég aftur upp og hlustaði á hana tala mig til baka. Ég kom til baka!
Ég á líf mitt ykkur að þakka.“
- Anna Silvía
Athugasemdir