Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar, og Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, hittust í dag og funduðu um borgarmálin. Raunar sást til þeirra vappandi um miðbæ Reykjavíkur.
„Eyþór fór yfir hugmyndir sínar í skipulagsmálum. Svo ræddum við um lýðræðismál, málefni aldraðra og öryrkja og borgarmálin í heild,“ segir Dóra.
Aðspurð hvert tilefni fundarins hafi verið segir Dóra að Eyþór hafi haft samband við sig og stungið upp á því að þau myndu hittast í kaffi.
„Ég sagði auðvitað bara já við því enda höfum við verið að hitta fólk úr öllum áttum. Mér finnst mikilvægt að eiga góð samskipti við alla flokka.“
Fundarinn hafi snúist um mögulega samstarfsfleti. „Já, það var nú að ég held tilgangur fundarins. Allavega talaði hann mikið og vel um Pírata. Miklu betur en Sjálfstæðismenn temja sér að gera opinberlega.“
Og er það semsagt inni í myndinni, að vinna með Sjálfstæðismönnum í borginni?
„Ég sagði honum bara eins og er að það getur bara enginn unnið með Sjálfstæðismönnum fyrr en þeir taka til hjá sjálfum sér. Ég talaði um að flokkarnir okkar, þ.e. Píratar og Sjálfstæðisflokkurinn, hefðu mjög ólíkar hugmyndir um vald og nefndi til dæmis Sigríði Andersen og hvernig hún leyfir sér að misnota valdastöðu sína og brýtur lög. Svoleiðis grefur undan trausti á stjórnmálafólki og stofnunum samfélagsins sem vinnur gegn aðalmarkmiði Pírata.“
„Allavega talaði hann mikið og vel um
Pírata. Miklu betur en Sjálfstæðismenn
temja sér að gera opinberlega“
Dóra segir óhugsandi að vinna með flokkum sem bera ekki virðingu fyrir samstarfsflokkum í meirihlutasamstarfi, og vísar þá til ríkisstjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna.
„Það er ekki hægt að vinna með fólki sem ber ekki virðingu fyrir samstarfsflokkunum, hvað þá flokkum sem virðast beinlínis njóta þess að grafa undan samstarfsflokkum sínum. En í stuttu máli þá sagði ég bara við hann að samstarf Pírata og Sjálfstæðisflokks strandaði einfaldlega á þeim sjálfum. Fyrst taka þeir til hjá sér og svo má skoða þetta. Eyþór vildi þá meina að hann væri maðurinn sem myndi breyta þessum flokki. Við Píratar bíðum bara eftir að sjá þess merki og þá eru allir vegir færir. Það er samt ágætt að muna að margir góðir menn hafa ætlað sér að breyta þessum flokki með því að ganga í hann.“
Ekki náðist í Eyþór Arnalds við vinnslu fréttarinnar.
Athugasemdir